Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 17:19:50 (5181)

2000-03-13 17:19:50# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., DrH
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[17:19]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. janúar 2002. Góður tími á því að gefast til að fara vandlega yfir frv. Það er ljóst að ekki eru allir sammála um að flytja þennan mikilvæga málaflokk frá ríki til sveitarfélaga, m.a. vegna þess hve sveitarfélögin eru misvel undir það búin. Frv. er öðru fremur ætlað að fella saman lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og lög um málefni fatlaðra. Þetta er metnaðarfullt frv. og vandað að allri gerð.

Herra forseti. Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga voru samþykkt á Alþingi árið 1991. Þau lög mörkuðu vissulega tímamót í velferðarmálum á Íslandi og miklar framfarir á sviði félagsþjónustu víða um land hafa orðið í kjölfar lagasetningarinnar. Þá voru í fyrsta sinn tekin í gildi í landinu heildstæð lög sem mæltu fyrir um skipan félagsþjónustu á vettvangi sveitarfélaga og félmrn. var falin yfirumsjón málaflokksins. Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga leystu af hólmi lög sem sett höfðu verið á löngum tíma um einstaka þætti félagsþjónustu, svo sem framfærslumál og heimilishjálp en framkvæmd þeirra laut ekki heildstæðu skipulagi á vegum sveitarfélaganna fyrr en í kjölfar setningar laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Áður höfðu einstakir þættir málaflokksins heyrt undir fleiri en eitt ráðuneyti sem gerði alla stefnumótun og eftirlit með framkvæmd torveldari.

Áhrifa laga um félagsþjónustu sveitarfélaga frá 1991 tók að gæta fljótlega. Í könnun sem gerð var á vegum félmrn. árið 1996 höfðu 20 af 164 sveitarfélögum ekki enn skipað félagsmálanefnd samkvæmt lögunum og voru það öll sveitahreppar, langflest með íbúa vel innan við 500. Vegna þess að lögin mæltu fyrir um að verkefni á sviði félagsþjónustu féllu undir félagsmálanefndir sköpuðust víða forsendur fyrir ráðningu sérhæfðs starfsfólks þar sem ekkert var áður fyrr og mörg minni sveitarfélög sameinuðust um félagsmálanefnd. Árið 1996 höfðu 27 sveitarfélög valið þá lausn.

Sameining sveitarfélaga á undanförnum árum hefur leitt til þess að framkvæmd félagsþjónustu hefur fest sig í sessi. Stærri og öflugri sveitarfélög eru betur í stakk búin til að skipuleggja og veita faglega og vandaða þjónustu í samræmi við nútímakröfur. Það er ljóst að víðtæk samvinna sveitarfélaga um þessa þjónustu þarf að takast ef og þegar frv. þetta verður að lögum. Ef litið er t.d. á Suðurland eru e.t.v. ekki nema fjögur sveitarfélög sem rísa undir þeirri þjónustu sem veita á og jafnvel ekki nema tvö ef Ölfus og Hveragerði eru talin frá. Þetta er ekki endilega vegna fjárhagslegra ástæðna heldur er um að ræða að ekki er möguleiki á að hafa öfluga félagsmálastofnun starfandi í nokkur hundruð manna sveitarfélögum eða jafnvel fámennari. Því er víðtækt samstarf, samvinna og/eða sameining sveitarfélaganna nauðsynleg. Meginforsenda að góðri félagsþjónustu er að hæft starfsfólk með viðeigandi menntun hafi umsjón með henni.

Lög um málefni fatlaðra, sem tóku gildi árið 1992, fólu í sér margháttaðar breytingar frá fyrri lögum. Á meðal helstu nýmæla var að ábyrgð sveitarfélaganna um málefni fatlaðra var aukin frá því sem áður var. Lögin kveða á um rétt fatlaðra til allrar almennrar þjónustu sem mælt er fyrir í lögunum um félagsþjónustu sveitarfélaga og að réttur samkvæmt lögum um málefni fatlaðra væri þá aðeins fyrir hendi að þjónustuþörf hins fatlaða væri meiri en svo að henni yrði fullnægt innan almennrar þjónustu. Rökin fyrir því að þjónusta við fatlaða skuli vera viðfangsefni sveitarfélaga en ekki ríkis eru margþætt. Fyrst og fremst er þó um að ræða sjónarmið um nærþjónustu annars vegar og jafnrétti og blöndun fatlaðra og ófatlaðra hins vegar. Fatlaðir eru ekki einslitur hópur, fötlun er margvísleg og misjöfn og það sama á um við um þarfir einstaklinga.

Markmið opinberrar þjónustu við fatlaða felst öðru fremur í að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þegna þjóðfélagsins og skapa þeim skilyrði til eðlilegs lífs. Þessum markmiðum verður aðeins náð með því að aðlaga þjónustuna við þarfir þeirra sem þjónustunnar eiga að njóta en ekki öfugt. Þjónustan verður að taka mið af einstaklingnum eins og hann er hverju sinni og í því félagslega umhverfi sem hann lifir í. Því verður þjónustan að vera staðbundin og aðgengileg hinum fatlaða. Skipulag og framkvæmd þjónustu verður því aðeins í eins mikilli nálægð og kostur er. Fatlaðir eru ekki einir um að þarfnast þjónustu til þess að geta notið eðlilegs lífs. Markmið félagsþjónustu sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar.

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur viðhorf til þjónustu fatlaðra breyst. Í núgildandi lögum er að finna aðrar áherslur en í eldri lögum. Nú eru þau sjónarmið ríkjandi að fatlaðir búi eins sjálfstætt og mögulegt er. Samhliða áframhaldandi uppbyggingu sambýla hefur verið lögð áhersla á sjálfstæða búsetu fatlaðra með sérstökum stuðningi. Framkvæmdasjóði fatlaðra var heimilað að greiða sérstakt framlag til viðbótar þeirri fyrirgreiðslu sem Húsnæðisstofnun ríkisins veitti tekjulágu fólki til húsnæðisöflunar. Samhliða voru sett í lögin ákvæði um liðveislu og frekari liðveislu sem ásamt heimaþjónustu mynda heildstæða þjónustu fyrir þá fatlaða sem búa á eigin vegum.

Við yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga og þar með með samruna málefna fatlaðra og félagsþjónustu sveitarfélaga er ljóst að hlutverki sjóðsins er þar með lokið og verkefni hans verða hluti af verkefnum félagsþjónustu sveitarfélaga eins og aðrar skyldur sveitarfélaga á þeim vettvangi.

Herra forseti. Í frv. er gert ráð fyrir að atvinnumál fatlaðra heyri undir Vinnumálastofnun og í lögum um málefni fatlaðra eru ítarleg ákvæði um atvinnumál fatlaðra sem eru til þess fallin að auka möguleika þeirra til að starfa á almennum markaði. Ég tel að þetta sé afar mikilvægt. Undir atvinnumál fatlaðra eru einnig felld hæfing, iðja og þjálfun. Starfsráðgjöf, atvinnuleit og vinnumiðlun fatlaðra er talið augljóst að falli að lögum um vinnumarkaðsaðgerðir sem þýðir að um leið og þetta frv. er orðið að lögum og lög um málefni fatlaðra falla úr gildi munu starfsráðgjöf, atvinnuleit og vinnumiðlun falla undir lög um vinnumarkaðsaðgerðir og færast til Vinnumálastofnunar.

Herra forseti. Nú þegar hafa allmörg sveitarfélög tekið að sér málefni fatlaðra. Akureyrarbær tók að sér þjónustu við fatlaða á Eyjafjarðarsvæðinu árið 1996. Húsavíkurkaupstaður, síðar Félagsþjónusta Þingeyinga, tók að sér þjónustu á Þingeyjarsvæðinu 1997. Hornfjarðarbær tók að sér þjónustu við fatlaðra á Suðausturlandi árið 1997. Árið 1999 var gerður samningur milli félmrn. og byggðasamlags um málefni fatlaðra í Norðurlandskjördæmi vestra. Vestmannaeyjabær tók að sér þjónustu við fatlaða með samningi dagsettum 3. jan. 1997. Reynsla allra þessara sveitarfélaga er góð og hafa samningar við þau verið framlengdir.

Í ákvæði til bráðabirgða II, um sjálfseignarstofnanir, er gert ráð fyrir að félmrn. og Samband íslenskra sveitarfélaga skuli beita sér fyrir því að sjálfseignarstofnanir og sveitarfélög sem þess óska geri samkomulag um fyrirkomulag á rekstri þeirra fyrir 1. ágúst árið 2001. Þær sjálfseignarstofnanir sem um er rætt eru sjálfseignarstofnanir á vegum félagasamtaka, þ.e. Geðhjálpar, Blindrafélagsins, Styrktarfélags vangefinna og Þroskahjálpar á Reykjanesi, svo og sjálfseignarstofnunarinnar Sólheima, Skaftholt og Skálatún. Í greininni felst að áfram verður mögulegt að ráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga semji við sjálfseignarstofnanir um framhald þjónustu sem þær hafa annast.

Herra forseti. Varðandi 26. gr., um að fjárhagsaðstoð til sambúðarfólks skuli ákvarðast með sama hætti og til hjóna, þá tek ég undir með hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur að sambúðarformið er ekki það sama. Annað er löggilt en hitt ekki. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvort ekki þurfi að fylgja með, ef af þessu verður, samsköttun sambúðarfólks?

Herra forseti. Jón Björnsson, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í laganefndinni, setti fram nokkra fyrirvara um kostnaðarauka, skerðingu á sjálfsákvörðunarrétti sveitarstjórna, um óljós ábyrgðarmörk ríkis og sveitarfélaga og um tekjustofna. Ég tek undir fyrirvara hans. Það þarf að leggja mikla vinnu í að skoða væntanleg áhrif frv. á kostnað við félagslega þjónustu og tryggja tekjustofna á móti. Hugmyndir fjmrn. um kostnaðarauka sveitarfélaga vegna frv. eru óljósar og ekki nægilega rökstuddar og geta því ekki orðið grundvöllur að samkomulagi um tekjustofna.

Ég endurtek að ég tel frv. vera til mikillar fyrirmyndar og til bóta og ég veit að það mun fá góða yfirferð í félmn.