Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 17:30:40 (5182)

2000-03-13 17:30:40# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[17:30]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem aðrir hv. þm. hafa sagt og fagna því að frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga skuli vera komið fram. Þetta er umfangsmikið frv., tekið er á mörgum og mikilvægum þáttum sem snerta félagsþjónustu sveitarfélaganna, þjónustu og rétti borgaranna. Ég mun aðeins koma inn á örfá atriði sem tengjast frv.

Í fyrsta lagi vil ég taka undir þau orð sem hér hafa fallið um að frv. megi kveða skýrar á um hver þjónustan skuli vera, hafa skilgreininguna skýrari á fötlun og þeim verkefnum sem lögin eiga að taka til og þá megi líka skilgreina betur og markvissar þau réttindi sem ætlunin er að uppfylla. Það er býsna loðið að tala um mannsæmandi líf þó að góð meining sé á bak við það. Mér finnst það of loðin skilgreining í stefnumörkuninni.

Þá vil ég einnig láta í ljós þá skoðun mína að ég tel að það eigi ekki að vera svo afmörkuð skil á milli ábyrgðar ríkisins og ábyrgðar sveitarfélaganna gagnvart þessum verkefnum. Þetta eru margs konar viðfangsefni og margs konar tilvik geta komið upp. Sum þeirra er kannski ekki einu sinni fært að leysa á grundvelli einstakra sveitarstjórna heldur getur verið nauðsynlegt að leysa þau á landsgrundvelli. Ýmis sveitarfélög eru þannig í stakk búin hvað varðar félagslega, þjónustulega og fjárhagslega möguleika þeirra, að þau geti ekki axlað slíka ábyrgð í öllum tilvikum, þrátt fyrir að til komi algildir tekjustofnar. Mér finnst því að þarna ætti að vera meira svigrúm um meiri sameiginlega ábyrgð og að verkefni gætu skarast.

Þetta lýtur líka að fjármögnuninni. Auðvitað hefði verið gott að þessu frv. hefði fylgt ákveðið líkan að því hvernig tekjustofnar mundu fylgja, hvernig mögulegt væri fyrir sveitarfélögin að axla þá ábyrgð sem þarna er gert ráð fyrir að færa til. Raunhæfni frv. hvílir einmitt mjög þungt á fjármögnuninni. Það gæti sjálfsagt verið ein hugmynd að fela tekjustofnana jöfnunarsjóði til útdeilingar, en þá veltir maður því fyrir sér hvaða stöðu jöfnunarsjóður er að komast í ef hann er í auknum mæli að taka að sér það hlutverk sem ríkið sjálft og Alþingi ættu að hafa, þ.e. að hafa milligöngu um ráðstöfun fjár til jöfnunar lífskjara og réttar til þjónustu.

Ég vil líka minna á að í sambandi við úthlutunarreglur jöfnunarsjóðsins er mismunun milli sveitarfélaga, bæði eftir stærð og eftir tekjum. Þess vegna hlýt ég að leggja fram varnaðarorð gagnvart stöðu hinna minni og tekjulægri sveitarfélaga til að takast á við þessi verkefni og er sérstök ástæða til að hafa það mjög rækilega í huga verði það úr að þau verkefni færist með þeim hætti til sveitarfélaganna sem hér er gert ráð fyrir.

Í þessu sambandi vil ég einnig spyrja hæstv. félmrh. um vinnuna við að gera tillögur um tekjustofna til sveitarfélaganna tengda þessum verkefnaflutningi. Er ætlunin að þeirri nefnd sem nú starfar við endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga, sem á að skila af sér í sumar, sé ætlað að gera tillögur um tekjustofnatilfærsluna? Eða hvenær er að vænta tillagna um tekjustofna sem tengjast þá flutningi þessara verkefna?

Ég vil aðeins minnast á önnur atriði, herra forseti. Ég tel að það sé ekki rétt og ekki tímabært að fella burt ákvæði um störf ferlinefnda sem hafa haft það hlutverk að fylgjast með aðgengi að byggingum. Ég tel að það sé alls ekki tímabært. Þetta er svo mikilvægt atriði í þjónustunni og þeim réttindum sem fatlaðir eiga að hafa að það er varla tímabært að fella þessa nefnd burt.

Einnig get ég ekki látið hjá líða að minnast á það sem kemur fram í 36. gr., um þjónustusamninga, þ.e. að opna enn meira fyrir útboð og möguleika á einkavæðingu í þjónustu á þessu sviði. Það er sjálfsagt að sjálfseignarstofnanir sem starfa á grundvelli líknarfélaga og félaga sem tengjast þessum aðilum geti komið þarna að, en maður hlýtur að slá varnagla við því að hægt sé að fara að reka þetta sem einkarekstur á arðsemisgrunni, t.d. að ríkið færi að greiða eftir einhverjum ákveðnum þjónustueiningum og síðan væri viðkomandi rekstrararaðila heimilt að leggja á þjónustugjöld í ofanálag. Þarna væri þá komin mismunun eða flokkaskipt þjónusta eins og við erum t.d. að upplifa í menntakerfinu þar sem ríkið leggur fram til einkaskóla ákveðið magn á nemanda og síðan er viðkomandi skólum frjálst að innheimta skólagjöld og þannig fáum við lagskipt skólakerfi. Mig óar við því, herra forseti, ef verið er að opna möguleika á slíku í lögum og vona reyndar að svo sé ekki, en slæ verulegan varnagla við því.

Ég vil aðeins minnast á eitt sem stendur líka í 51. gr. sem dæmi um ónákvæmni og ég tel reyndar að geti verið varhugavert. Þar er kveðið á um að ,,aðstoð við íslenska ríkisborgara hjá umboðsmanni íslenska ríkisins erlendis og kostnaður við heimferð greiðist af lögheimilissveitarfélagi á Íslandi sé það fyrir hendi, enda liggi fyrir samþykki sveitarfélagsins, en ella úr ríkissjóði.``

Í fyrsta lagi er þannig háttað að margir íslenskir ríksborgarar sem dvelja erlendis eiga ekki kost á því að vera að færa til lögheimilissveitarfélag sitt og þetta getur því komið óréttlátt niður. Í öðru lagi er svolítið loðið að segja: ,,enda liggi fyrir samþykki sveitarfélagsins``. Mér finnst eðlilegt að ríkið axli þá ábyrgð gagnvart þeim sem stendur svona á um með dvöl erlendis. Ég hjó eftir þessu, herra forseti.

Þá vil ég nefna Framkvæmdasjóð fatlaðra. Ég held að þegar Framkvæmdasjóður fatlaðra var stofnaður hafi það verið gert af miklum metnaði og hug til þeirra verkefna sem honum var ætlað að sinna. Ég tel að hann hafi í sjálfu sér gert þar heilmikið gagn, bæði með áherslum sínum og beinni þátttöku. Þó svo að seinni árin hafi sá tekjustofn sem honum var markaður verið nýttur til almennra hluta í rekstri ríkisins er það ekkert til að hrópa húrra fyrir og er alls ekkert til fyrirmyndar og á ekki heldur að vera nein sérstök röksemd fyrir því að þessi sjóður starfi ekki áfram því að handa mörgu þessu fatlaða fólki þarf einmitt sérhannað húsnæði sem má búast við að sveitarfélög kinoki sér við að ráðast í byggingu á, séu ekki markaðir tekjustofnar til þess að styðja þar við.

Herra forseti. Ég hef aðeins nefnt hér nokkur atriði. Ég legg áherslu á að frv., þetta mikla og gríðarlega þýðingarmikla frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga, fái mjög vandaða meðferð í nefnd og allar hliðar þess verði skoðaðar mjög vandlega og legg áherslu á að fjárhagsleg og félagsleg mismunun á stöðu sveitarfélaga og búsetu fólks má ekki vera forsenda fyrir mismunun gagnvart þjónustu og aðgengi íbúanna til réttar síns og réttarþjónustu sem einstaklingar, fullgildir þegnar íslenska ríkisins.