Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 17:42:07 (5183)

2000-03-13 17:42:07# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[17:42]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil aðeins koma inn í umræðuna og byrja á að þakka fyrir það sem af er, því frv. hefur yfirleitt fengið jákvæðar viðtökur. Mér finnst þessi umræða vera málefnaleg. Ýmsar athugasemdir hafa komið fram. Mér var það ljóst sjálfum, sjálfsagt ljósara en flestum öðrum hv. þm., að margt orkar tvímælis þarna og margar þær athugasemdir sem hér hafa komið fram hafa haft fullan rétt á sér og koma að sjálfsögðu til skoðunar við áframhaldandi meðferð málsins, í fyrsta lagi í þingnefndinni og síðar í ráðuneytinu og væntanlega síðan aftur í þingnefnd þegar málið verður tekið til lokaafgreiðslu.

En ég vildi koma inn í umræðuna vegna þess að það eru nokkur atriði sem ganga aftur í ræðum hv. þm. og mér finnst vera á misskilningi byggð og ég vil koma á hreint strax. Það liggur alveg ljóst fyrir að ekki er ætlunin að flytja málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna öðruvísi en að peningar fylgi með, nægilegir peningar til þess að reka málaflokkinn á fullnægjandi hátt. Ég vil hafa alveg skýrt að það er ein grundvallarforsendan fyrir því að af þessu geti orðið.

Varðandi athugasemdir sem gerðar voru við frv. eftir að nefndin lauk störfum. Nefndin sem samdi frv. vann ákaflega mikið og vandasamt starf og ekki var einfalt að ná saman sjónarmiðum svo ólíkra og margra aðila sem að málinu komu en það tókst ágætlega. Það voru nokkur atriði sem út af stóðu og t.d. taldi Samband íslenskra sveitarfélaga að þau gengju gegn stjórnarskrárbundnum, lögbundnum rétti sveitarfélaganna til sjálfsforræðis. Það þurfti því að höggva á örfá atriði, en tiltölulega mjög fá. Bent hefur verið á það hér að það eru atriði sem nefndin tók ekki afstöðu til sem ég féllst á að setja í frv. Það er hugsanlegt að taka eitthvað af þeim út aftur ef mönnum sýnist svo. En ég bið menn að hafa það í huga að sveitarfélögunum er tryggt ákveðið sjálfsforræði og það ber okkur að virða.

[17:45]

Varðandi það sem verið er að flytja þá verða landsverkefnin að vera á forræði ríkisins. Einungis þau verkefni verða flutt til sveitarfélaganna sem tilheyra lögunum um málefni fatlaðra og eru staðbundin. Eins og hér hefur komið fram er komin nokkur reynsla á rekstur sveitarfélaganna á málaflokknum. Á Norðurlandi hafa sveitarfélögin alfarið tekið við þessum málaflokki. Á Norðurlandi eystra var tekið við málaflokknum fyrir töluverðum tíma og þeim líkaði ekki verr en svo að þau sóttu eftir því að endurnýja reynslusveitarfélagasamningana. Lögunum var breytt fyrir jólin þannig að heimild var fengin til þess að framlengja reynsluverkefni og búið er að gera nýja samninga bæði við Akureyri og Húsavík og ég vonast eftir að geta gengið frá þeim í næstu viku eða þar næstu.

Mismunandi stærð sveitarfélaganna hefur ekki reynst neinn þröskuldur. Á Norðurlandi vestra mynduðu sveitarfélögin byggðasamlag um málið og það hefur gengið prýðilega upp. Sveitarfélögin öll tóku þátt í þessu. Ekki var raskað mikið því góða skipulagi sem búið var að koma þar upp og það gengur alveg prýðilega. Í samningunum er m.a. tekið tillit til fyrirséðrar viðbótarþarfar á húsnæði fyrir fatlaða og mig minnir að þar verði bætt við einu sambýli á næsta ári og svona mætti lengi telja. Menn eru að reyna að sjá fram í tímann og setja upp fjárhagsramma sem geti gengið.

Því aðeins er ég að leggja mikla áherslu á að koma þessu frv. í umræðu að ég tel að það þurfi að skapa lagaramma sem er síðan hægt að kostnaðarmeta til fullnustu þannig að sveitarfélögin fái það sem þeim ber til að reka málaflokkinn. Til þess þarf að vera búið að skilgreina hvað sveitarfélögin eiga að gera. Þess vegna er þessi leið valin. Vegna fyrirspurnar frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni um kostnaðarmatið, þá er sérstök kostnaðarnefnd sem ætlað er að vinna við að kostnaðarmeta flutning málaflokksins. Það tilheyrir ekki nefnd hv. þm. Jóns Kristjánssonar, tekjustofnanefndinni, heldur tilheyrir það sérstakri kostnaðarnefnd sem er undir forustu Sturlaugs Tómassonar, deildarstjóra í félmrn. Hún er að vinna, hún er búin að afla mikilla gagna en ekki búin að ganga frá neinum tillögum.

Ég held að það liggi ljóst fyrir að við verðum að fara svipaða leið og þegar grunnskólinn var fluttur. Mér sýnist að eðlilegt væri að sveitarfélögin fengju aukna hlutdeild í staðgreiðslunni eins og var með grunnskólann. 80% ganga beint til sveitarfélaganna af grunnskólakostnaðinum, 20% renna í gegnum jöfnunarsjóð til jöfnunar á milli sveitarfélaga því greinilega er mismunur á kostnaði hjá hinum ýmsu sveitarfélögum. Þau þurfa leiðréttingu eftir á og fá leiðréttingu eftir á.

Ég tel að hinn breytilegi kostnaður, ef svo mætti segja, þ.e. sá hluti sem gengi í gegnum jöfnunarsjóð, þurfi að vera verulega hærri í þessum málaflokki en með grunnskólann vegna þess að þjónustuþörfin, þjónustuþunginn er svo mismunandi hjá hinum einstöku sveitarfélögum.

Ríkið hefur staðið fullkomlega við sitt með þann kostnað sem lagður var með grunnskólanum en samkvæmt grunnskólalögum er hafin vinna við að endurskoða kostnaðinn með tilliti til breyttrar námskrár og breyttra aðstæðna. Búið er að lengja skóladaginn og ég veit ekki hvað og hvað. Verið er að kostnaðarmeta það allt saman upp á nýtt og mér er kunnugt um að nefndarstarfið gengur út á það.

Félmrn. gerði samning við Samband íslenskra sveitarfélaga sem tók að sér að sjá um aðgengismálin og hefur sinnt því eftir því sem mögulegt er. En aðgengismálin verða ekkert leyst í hvelli. Ég vænti þess að yfirleitt sé tekið tillit til aðgengismála við nýbyggingar. Ég held að sú breyting hafi þó orðið. En gömlum byggingum er náttúrlega erfitt að breyta og sumum má ekki breyta eins og því húsi sem við erum í.

Við höfum tekið upp félagslegt húsnæðislánakerfi og sveitarfélögin hafa sannarlega staðið sig vel að mínu mati með viðbótarlán. Þau hafa verið mikið notuð og á síðasta ári voru líklega byggðar um 1500 íbúðir með viðbótarlánum sem er miklu meira en hefur verið undanfarið.

Ákveðin tortryggni hefur komið fram varðandi þjónustusamninga, a.m.k. hjá einum hv. þm., um að hér ætti að fara að einkavæða þessa þjónustu. Það er alls ekki meiningin. Það eru einkaaðilar eða samtök sem hafa rekið þjónustu, ég nefni t.d. Sólheima í Grímsnesi, sem ég tel að eigi ágætlega rétt á sér, og eðlilegt að gera samning eða reyna a.m.k. þjónustusamninga um þá starfsemi. Ég sé ekkert á móti því að meira verði gert af slíkum þjónustusamningum, t.d. með Skaftholt. Ég held að starfsemin í Skaftholti sé ágæt og ég veit ekki annað en hún sé til fyrirmyndar. Ég sé ekkert á móti því að gera samninga við gott fólk sem vill gefa sig í það að veita þessa þjónustu ef svo vill verkast. En það er alls ekki hugmyndin að auka kostnað þjónustuþeganna með slíku. Það liggur ekki að baki og menn eiga ekki að óttast að verið sé að opna leið til stórkostlegrar einkavæðingar þarna til þess að menn geti farið að stunda einhverja fjárplógsstarfsemi, það er síður en svo.

Það er forsenda fyrir þessum flutningi á málaflokknum, hv. 5. þm. Reykv., það er algjör forsenda að fatlaðir njóti í hvívetna ekki lakari þjónustu en þeir hafa notið. Því til sönnunar vil ég benda á að það er Þroskahjálp sem biður fyrst um flutning og það var í ráðherratíð hv. 5. þm. Reykv.

Varðandi langveiku börnin getur verið að það þurfi að skýra orðalag í 31. gr. Mér finnst það vera nógu skýrt og ég held að hún taki af öll tvímæli um hvað þarna er átt við. Það er átt við að langveiku börnin njóti sams konar þjónustu og ef þau væru fötluð. Langveikir geta reyndar verið eldri en 18 ára, það eru ekki bara börn. Það getur verið að ástæða sé til að skýra það eitthvað nánar í textanum en ég held að meiningin liggi nokkuð fyrir.

Þetta félagsþjónustufrv. og fylgifrv. um vinnumálin, um réttindagæsluna, um Greiningarstöðina, um starfsfræðsluna, þurfa öll að fylgjast að og það er ætlun mín að svo verði og ég vænti þess að fá að mæla fyrir þeim. Ég játa að það hefur reyndar tafist, sumpart fyrir klaufaskap, að leggja fram frv. um Greiningarstöðina því það er tilbúið. Ég á von á því að fá að mæla fyrir því áður en langt um líður.

Ég sé að tími minn er að verða búinn og enn á ég eftir ýmsum spurningum ósvarað. Við þurfum og verðum að byggja meira á leiguhúsnæði fyrir sambýlin. Stofnanahugsunin er komin í ónáð og hún er úrelt og við munum ekki stíla upp á hana í framtíðinni.

Herra forseti. Ég mun nota mér þann rétt að koma upp aftur og reyni þá að klára að svara því sem til mín hefur verið beint.