Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 18:19:52 (5190)

2000-03-13 18:19:52# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[18:19]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Með þessum lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga eða þessu frv. er ætlunin að sameina tvo lagabálka, annars vegar lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og hins vegar lög um málefni fatlaðra. Hér fer fram allsherjarendurskoðun á þessum lögum jafnframt því sem lagagrunnur er lagður fyrir flutningi á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

Ég vil byrja á því að segja að mér finnst að mörgu leyti skynsamlega og vel að þessum málum staðið og ég nefni þar þrennt. Í fyrsta lagi hefur verið hlustað á félagasamtök. Vakin hefur verið athygli á því að óskir um þennan flutning hafi fyrst komið frá þeim, Sjálfsbjörg hefur verið nefnd í því sambandi. Öryrkjabandalagið mun styðja þetta og önnur samtök sem hlut eiga að máli (Gripið fram í: Þroskahjálp.) Þroskahjálp mun upphaflega hafa komið með þessar hugmyndir.

Ég nefni í öðru lagi að farið hefur verið út í tilraunastarf áður en öllum málaflokknum er skellt yfir í svokölluðum tilraunasveitarfélögum og nú er hlustað á raddir þeirra sveitarfélaga og reynslan metin.

Í þriðja lagi skiptir miklu máli hvernig staðið er að hinum fjárhagslegu skuldbindingum sem tengjast málinu. Í máli hæstv. félmrh. kom mjög skýrt fram að ekki verði ráðist í þessar breytingar nema tryggilega hafi verið gengið frá því að nægilegt fjármagn verði til ráðstöfunar fyrir sveitarfélögin til að rísa undir þeirri þjónustu sem þeim er ætlað að veita.

Í grg. með frv. er vikið að röksemdum sem liggja að baki og sagt að fyrst og fremst sé um að ræða sjónarmiðin um nærþjónustu annars vegar og jafnrétti og blöndun fatlaðra og ófatlaðra hins vegar. Þar segir m.a., leyfi forseta:

,,Fatlaðir eru ekki einir um að þarfnast þjónustu til þess að fá notið eðlilegs lífs. Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um hvernig þeim markmiðum skuli náð.``

Þrátt fyrir þetta leyfi ég mér að hafa ákveðna fyrirvara á þessum málum og ákveðnar efasemdir um hversu skynsamlegt er að gera þessar breytingar. Ég held að þetta sé hluti af erlendri þróun, af fjölþjóðlegri þróun. Þetta er ekkert bundið við Ísland að verið sé að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Þetta er t.d. stefna núna í Evrópu, í Evrópusambandinu. Ég held að hlutirnir gangi ansi oft þannig fyrir sig að fulltrúar ráðuneyta og félagasamtaka fara á fundi til útlanda og draga lærdóm af því sem þar er að gerast. Útlendingarnir eru að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga, við þurfum að gera það líka.

En þá vill stundum gleymast að aðstæður eru ekki sambærilegar að öllu leyti hér á landi og í þessum viðmiðunarríkjum, hjá þessum fyrirmyndum okkar. Ég nefni sem dæmi Svíþjóð. Þar er líka verið að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga eða ,,regions`` eins og það heitir á enskri tungu en bæklingurinn sem ég hef undir höndum er einmitt á ensku þótt hann fjalli um Svíþjóð. Hér er verið að tala um þessar einingar í Svíþjóð.

Hér kemur t.d. fram að Västergötland er 25 þús. km2 að stærð, fjórðungurinn af Íslandi, og þar búa 1.465 þús. manns. Síðan fletti ég upp á Stokkhólmi sem er annað hérað í þessum skilningi. Það er landmassi upp á 6.500 km2 með íbúafjölda sem telur 1.700 þús. manns. Svo eru það Smálöndin, 29.330 km2, íbúafjöldi 718 þús. Östergötland 10.600 km2, 412 þús. manns búa þar. Västerbotten er 55.400 km2, það er helmingurinn af Íslandi og þar búa 260 þús. manns, álíka margt fólk og byggir Ísland. Það er að gerast í Svíþjóð að menn eru að taka verkefni frá ríkinu og færa þau til þessara héraða.

Síðan fara Íslendingar, fulltrúar hæstv. félmrh. úr ráðuneytinu, á fundi með þessum aðilum og komast að raun um að þar séu menn að færa verkefni frá ríki til þessara héraða og sveitarfélaga. Ég ætla að vara við því að við gleypum hráar hugmyndir sem eru matreiddar erlendis án þess að íhuga rækilega hvað það er sem greinir okkur frá þeim þjóðfélögum sem eru miklu fjölmennari en okkar.

Það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Þuríðar Backman að í mjög litlu sveitarfélagi getur það valdið sveitarfélaginu miklum fjárhagslegum erfiðleikum ef þar fæðast eða flytjast nokkrir mjög alvarlega fatlaðir einstaklingar. Þetta er bara staðreynd. Þrátt fyrir ágæt orð hæstv. félmrh. um að það verði rækilega tryggt að litlu sveitarfélögin hafi fjármuni til að sinna þessum verkefnum hef ég ákveðnar efasemdir uppi um hversu hyggilegt þetta sé yfir höfuð.

Síðan er það spurningin um þjónustusamningana. Hæstv. félmrh. sagði að ekki ætti að ráðast í stórkostlega einkavæðingu með þessu frv. En ég leyfi mér þá að spyrja: Í hvers konar einkavæðingu á að ráðast? Því að hér, eins og fram hefur komið í umræðunni, er opnað fyrir slíkt. Við skulum ekki gleyma því að við búum við ríkisstjórn sem er að hrinda slíkum einkavæðingaráformum í framkvæmd, einnig innan velferðarþjónustunnar. Innan skólakerfisins, við höfum dæmin frá Hafnarfirði um iðnskólann þar og við höfum dæmin frá elliheimilum á höfuðborgarsvæðinu sem hafa núna verið fengin í hendur Securitas-fyrirtækinu sem er að sjálfsögðu að fjárfesta á þessu sviði til að hafa af því hagnað.

Á fundi sem ég sótti ekki alls fyrir löngu var fulltrúi frá heilbrrn. sem talaði um öldrunariðnaðinn. Í Bretlandi tala þeir um Granny Farming, það er svona eins konar ömmuiðnaður, ömmu- og afaiðnaður. Það er staðreynd að fyrirtæki á borð við Securitas eru að sækja inn á þessa slóð, ekki til að þjónusta þetta gamla fólk eða veita þjónustu í velferðarþjónustunni heldur fyrst og fremst til að hafa af því arð. Mér fannst hálfnöturlegt að hlusta á hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur hér áðan, sem varaði að vísu við því að menn gengju hratt eða langt í þessa átt en á máli hennar var að skilja að flest mætti leysa með góðu eftirliti. Það hefur bara ekki tekist. Það hefur ekki tekist eins og dæmin sanna frá Bretlandi og frá Svíþjóð þar sem fyrirtæki á þessu sviði, sérstaklega innan öldrunarþjónustunar, hafa orðið uppvís að mjög grófri vanrækslu gagnvart því fólki sem þau eiga að sinna.

[18:30]

Í frv. og í grg. með lagagreinunum þar sem fjallað er um þjónustusamningana, 36., 37. og 38. gr., er umfjöllun mjög í þá veru sem kom fram í málflutningi hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur um að réttarstaða notenda skuli ekki skert með einkavæðingunni.

Ég vil minna hæstv. félmrh. á það þegar hann segir að ekki standi til að ráðast í stórfellda eða stórkostlega einkavæðingu, að sú ríkisstjórn sem hann á aðild að sendi nýlega frá sér bækling um einkaframkvæmd þar sem kveðið er á um slíkar skipulagsbreytingar í velferðarþjónustunni og þess sérstaklega getið að til standi að fjármagna kostnaðinn af þessari þjónustu í auknum mæli með notendagjöldum, þess er sérstaklega getið. Menn verða því að geta staðið frammi fyrir eigin verkum og viðurkennt hvað þeir eru að gera í reynd.

Það birtist ágæt grein í Morgunblaðinu núna um helgina sem skrifuð er af Kristjáni G. Arngrímssyni, blaðamanni við Morgunblaðið, þar sem hann fjallar um svokallaða Parkland-skýrslu sem tekur á einkavæðingu innan velferðarþjónustunnar í Kanada. Ég ætla að leyfa mér að vitna aðeins í þá skýrslu sem að vísu fjallar fyrst og fremst um heilbrigðisþjónustuna en tekur á sambærilegum þáttum og við erum að fjalla um hér, þ.e. velferðarþjónustuna almennt. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Einkarekin heilbrigðisþjónusta, sem skila á hagnaði, er yfirleitt dýrari en heilbrigðisþjónusta á vegum hins opinbera; gæði einkarekinnar heilbrigðisþjónustu eru yfirleitt minni en opinberrar, eða valkostirnir færri; einkarekin þjónusta dregur úr jöfnuði, aðgengi og sanngirni og eykur kostnað við aðliggjandi þætti í opinberri heilbrigðisþjónustu.

Þetta eru helstu niðurstöður rannsóknar sem unnin var á vegum Parkland-stofnunarinnar í háskólanum í Alberta-fylki í Kanada í tilefni af fyrirhuguðum breytingum fylkisstjórnarinnar á heilbrigðiskerfinu. Í þarsíðustu viku lagði stjórnin fram lagafrumvarp sem heimilar heilbrigðisyfirvöldum í fylkinu að kaupa þjónustu einkarekinna sjúkrastofnana við stærri aðgerðir sem krefjast meira en stuttrar komu sjúklings á stofnunina.

Í útdrætti úr skýrslu um niðurstöðurnar segir meðal annars að rannsóknin sé byggð á gögnum víða að, til dæmis á fyrri rannsóknum og skýrslum um áhrif einkareksturs í hagnaðarskyni á heilsugæslu. Verði fyrirætlanir fylkisstjórnarinnar að veruleika muni í raun skapast tveggja þrepa heilbrigðiskerfi þar sem efnameiri sjúklingar komist fyrr að þjónustu í krafti peninga.

Í skýrslu Parkland-stofnunarinnar segir að sterkustu vísbendingarnar um óhagkvæmni einkarekinnar heilbrigðisþjónustu komi frá Bandaríkjunum, en þar sé rekin umfangsmesta hagnaðarheilsugæsla í heiminum. Vitnað er í þrennar heimildir um áralangar rannsóknir.``

Og síðar segir, með leyfi forseta:

,,Læknisfræðistofnun bandarísku vísindaakademíunnar komst að því 1986 að athuganir á sjúkrahúsarekstri hafi ekki leitt í ljós neinar vísbendingar sem renni stoðum undir þá útbreiddu skoðun, að ,,stofnanir í eigu fjárfesta`` séu ódýrari í rekstri eða skilvirkari en aðrar. Með einni undantekningu hafi þvert á móti hið gagnstæða komið í ljós.``

Reyndar er þetta mjög í samræmi við niðurstöður bæði frá OECD og verkalýðssamtökum í Bretlandi sem hafa kannað þessi mál sérstaklega, ég vísa þar í UNISON-samtökin, þar sem kom í ljós að í þeim stofnunum sem unnt hafði reynst að ná tilkostnaði niður hafði það verið gert með því að lækka launin við starfsfólkið.

Hvers vegna er ég að nefna þetta hér núna? Vegna þess að við erum búin að hlusta á það aftur og ítrekað í tengslum við skipulagsbreytingar sem þessi ríkisstjórn gengst fyrir að allt annað vaki fyrir henni en síðar verður reyndin. Það stendur ekki til að einkavæða elliheimilin, var sagt fyrir fáeinum árum. Nú er búið að gera það. Búið er að bjóða hér út elliheimili og Securitas-fyrirtækinu falið að reka þau. Þetta hefur þegar gerst. Og það hefur gerst þrátt fyrir að aðrir aðilar sem hafa annast þennan rekstur, eins og Hrafnista, hafi getað sýnt fram á það með haldgóðum rökum að þessi valkostur sé dýrari fyrir skattborgarana, og ég leyfi mér að halda því fram þegar til lengri tíma er litið muni þetta verða óhagkvæmara fyrir notandann líka. Þetta er að gerast.

Síðan höfum við dæmi frá hinum makalausa samningi um Iðnskólann í Hafnarfirði og aðrar framkvæmdir sem eru skattborgaranum tvímælalaust mjög til óhagræðis, miklu dýrari fyrir hann og miklu verri fyrir notandann, og það er Sjálfstfl. sem stendur fyrir þessu, sem er að þjóna fjármagninu með þessu móti.

Ég efast ekkert um að gott eitt vakir fyrir hæstv. félmrh. Hann hefur á sínum pólitíska ferli ekki verið talsmaður einkavæðingar og ekki gengið erinda fjármagnsins, síður en svo. En það er yfirlýst stefna Sjálfstfl. að innleiða einkavæðingu og einkaframkvæmd innan velferðarþjónustunnar. Það segir í ályktun síðasta landsfundar Sjálfstfl. að heilbrigðisþjónustan skuli einkavædd. Það væri fróðlegt að fá fulltrúa Sjálfstfl. til að útlista þetta nánar.

Ég vil því ítreka það við hæstv. félmrh. að þrátt fyrir ásetning hans erum við að færa okkur inn í umhverfi þar sem þessi sjónarmið eru mjög í hávegum höfð og beinlínis á stefnuskrá samstarfsflokksins og því miður hefur Framsfl. einnig tekið upp þessa stefnu því að hæstv. heilbrrh. hefur haft forgöngu um að einkavæða elliheimilin. Það er hæstv. heilbrrh., fulltrúi Framsfl., sem þar gengur fram fyrir skjöldu.

Ég ætla að lokum að segja að þær röksemdir sem hæstv. félmrh. bar fram eða þau sjónarmið sem hann vakti máls á í tengslum við þetta, að við hefðum lengi búið við einkarekstur á þessum sviðum, hann nefndi Sólheima og Skaftholt. Þetta hefur gefið ágæta raun, það er alveg rétt. Og menn hafa stundum nefnt Grund, SÍBS og Hrafnistu og ýmsa aðila, einkaaðila eða félagasamtök sem hafa rekið velferðarþjónustu bæði fyrir fatlaða og aldraða með ágætum. En við erum bara að halda inn í nýjan heim. Þessir rekstraraðilar hafa margir hverjir sprottið upp úr samtökum sjúklinga eða verkalýðshreyfingar eða eiga sér svipaða sögu til að veita þjónustu. Nú eru að koma til nýir aðilar sem eru að hasla sér völl á þessu sviði til að hafa hagnað, arð af slíkri starfsemi. Þess vegna eigum við að lesa mjög gaumgæfilega þau ákvæði þessa frv. sem lúta að þjónustusamningum.