Félagsþjónusta sveitarfélaga

Mánudaginn 13. mars 2000, kl. 18:50:27 (5192)

2000-03-13 18:50:27# 125. lþ. 77.7 fundur 418. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 125. lþ.

[18:50]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir málefnalega yfirferð yfir þetta frv. En ég hef heyrt það hjá henni og öðrum þingmönnum að þeir vantreysta minni sveitarfélögunum til að takast á við þetta verkefni. Þess vegna vil ég ítreka að félmn. kynnti sér í haust félagsþjónustuna í Þingeyjarsýslum, sem hefur tekist afskaplega vel. Þar eru öll sveitarfélögin aðilar að þessari félagsþjónustu og eru m.a. með málefni fatlaðra og barnaverndarmálin að mestu leyti. Þau hafa þess vegna bolmagn til að ráða til sín sérfræðinga á ýmsum sviðum, m.a. sálfræðinga, þroskaþjálfa og fleiri sérfræðinga til þess að takast á við þessi verkefni. Þetta hefur tekist afskaplega vel.

Ég hef auðvitað heyrt það eins og hv. þm. að mörg minni sveitarfélögin eru mjög hrædd við þetta. Ég held að það sé að miklu leyti vegna þess að þau hafa ekki kynnt sér nákvæmlega hvaða möguleikar eru í þessum samstarfsverkefnum.

Ég vil einnig nefna að á Fljótsdalshéraði er sameiginleg félagsmálanefnd fyrir allt Fljótsdalshérað. Þar hefur þetta tekist ákaflega vel. Dreifbýlishrepparnir hafa notið góðs af því að vera í samstarfi við stærri sveitarfélög þar. Þegar menn hafa unnið að þessu sameiginlega þá hefur tekist vel til.