Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 13:36:48 (5206)

2000-03-14 13:36:48# 125. lþ. 78.2 fundur 407. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (flutningur aflahámarks) frv. 36/2000, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[13:36]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Í desember árið 1998 féll frægur dómur í Hæstarétti. Meginniðurstaða hans var sú að það samræmdist ekki atvinnufrelsis- og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að þeir einir gætu fengið veiðileyfi sem hefðu haldið skipum sínum til veiða á tilteknum árum. Nú í janúar sl., rúmu ári síðar, féll síðan í undirrétti svokallaður Vatneyrardómur þar sem niðurstaðan er sú að sama eigi við um veiðiheimildir og það sem Hæstiréttur komst að niðurstöðu um varðandi veiðileyfi. Niðurstaðan var sú að það samræmdist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að þeir einir fengju úthlutað veiðiheimildum eða kvóta sem leiði rétt sinn til reynslu tiltekinna ára.

Niðurstöðu Vatneyrardóms var vísað til Hæstaréttar og það er e.t.v. gráglettni örlaganna, herra forseti, að hæstv. sjútvrh. skuli deginum áður en málflutningur hefst í því máli fyrir Hæstarétti mæla á Alþingi fyrir því frv. sem hér liggur fyrir frá ríkisstjórninni um breytingar á lögum um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum, breytingar á lögum sem eru tveggja ára gömul eða innan við það og var einungis ætlað að gilda í tvö og hálft ár, að því er segir í 3. gr. laganna.

Herra forseti. Með þessu frv. er ríkisstjórnin að leggja til að skip sem voru við síldveiðar á árunum 1995, 1996 og 1997 fái veiðiheimildir afhentar af hálfu hins opinbera án endurgjalds og þurfi síðan ekki að veiða neitt en megi umsvifalaust selja allar þær veiðiheimildir sem þau fá. Önnur skip sem fá veiðiheimildir en voru ekki við síldveiðar á árunum 1995, 1996 eða 1997 mega hins vegar ekki selja neitt heldur verða þau að veiða allt. Við hljótum að spyrja: Hvar er jafnræðisreglan?

Herra forseti. Er það ekki beinlínis ósvífni af hálfu ríkisstjórnarinnar og hæstv. sjútvrh. að bera mál þessarar gerðar fram eftir að dómar þeir sem ég lýsti hér áðan hafa fallið? Ráðherra mælir auk þess fyrir frv. deginum áður en málflutningur hefst í Hæstarétti vegna niðurstöðu Vatneyrardóms.

Fyrir utan það siðleysi sem felst í að afhenda réttinn til veiðanna án endurgjalds þá keyrir auðvitað um þverbak að ríkisstjórnin skuli leggja það til að síðan gildi ekki sömu reglur fyrir alla. Nei, reglurnar fara eftir því hvort skip var við síldveiðar árið 1995, 1996 eða 1997. Það fer eftir því hvernig þau eru meðhöndluð. Þetta eru töfraárin að mati ríkisstjórnarinnar, þau ár sem gefa rétt til úthlutunar ókeypis gæða sem síðar má selja. Ef skipin selja frá sér allan veiðiréttinn í ár, er þá hugsunin sú að þau fái aftur veiðirétt á næsta ári, veiðirétt til að selja aftur? Ef viðskiptin með veiðiréttinn eru talin svona mikilvæg, einhverjir verði að kaupa ef á að selja, af hverju eru veiðiheimildirnar þá ekki boðnar út þannig að allir sitji við sama borð?

Þegar lögin um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum voru sett vorið 1998, fyrir tæpum tveimur árum, og leystu af hólmi þá aðferð að nota úthafsveiðilöggjöfina sem grundvöll veiðanna lögðum við jafnaðarmenn til að síldarkvótarnir yrðu boðnir út. Það var og í samræmi við sérstakt þingmál í þá veru sem þá hafði tvisvar verið flutt af jafnaðarmönnum. Það gekk út á að úthafslögunum yrði breytt þannig að heimilt yrði að bjóða síldarkvótana út. Í því áliti sem við fulltrúar jafnaðarmanna í sjútvn. lögðum á sínum tíma fram við 2. umr. um frv. ríkisstjórnarinnar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum kemur m.a. fram að með þeirri skipan mála að veiðarnar yrðu boðnar út væri líklegast að þau markmið fiskveiðistjórnar um hagkvæmar veiðar og réttláta úthlutun veiðiréttarins næðust fram.

Við lýstum jafnframt því áliti okkar --- það eru innan við tvö ár síðan --- að það frv. sem síðar varð að þeim lögum um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum sem sjútvrh. mælir fyrir breytingum á í dag væri bastarður. Við töldum það niðurstöðu málamiðlunar stjórnarflokkanna sem ekki gátu á þeim tíma komið sér saman um hvort veiðireynsla úr síldarstofninum ætti að mynda grunn að fastri aflahlutdeild eða ekki eins og meiri hluti sjútvn. áréttaði við setningu úthafsveiðilaganna árinu áður og átti þá við norsk-íslenska síldarstofninn. En nú virðist samstaða um málið meðal stjórnarþingmanna. Við höfum a.m.k. ekki enn heyrt skoðanir þeirra sem reglulega hafa mælt fyrir því að framsal yrði bannað. Veiðireynsla á ekki aðeins að mynda grunn að fastri aflahlutdeild og veiðirétti heldur fullkominn framsalsrétt, nánast eignarrétt sem ókeypis er afhentur þeim sem talið er að eigi þann rétt vegna veiða sinna á tilteknum árum. Ég ítreka enn, herra forseti, að þessi tillaga ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögunum um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum er sett fram í nokkuð sérkennilegu umhverfi, eftir að dómar hafa fallið og leitt málið í ákveðinn farveg.

Ég gat um það, herra forseti, að jafnaðarmenn hefðu á sínum tíma lagt til þær breytingar að veiðiréttinn úr norsk-íslenska síldarstofninum ætti að bjóða út. Við munum fylgja þeirri skoðun okkar eftir að líklegast sé að markmið fiskveiðistjórnar um hagkvæmar veiðar og réttláta úthlutun veiðiheimilda fáist með því móti, með því að leggja fram brtt. í þá veru við það frv. sem hér liggur fyrir.

Ég vil, herra forseti, gjarnan spyrja hæstv. sjútvrh. hvort slík meðferð hafi aldrei komið til álita af hálfu hæstv. ríkisstjórnar eða stjórnarflokkanna þegar sú breyting sem hæstv. ráðherra mælir fyrir var undirbúin. Ég get ekki séð betur, herra forseti, en hér sé hæstv. ráðherra í raun að keyra gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Mér þykir sem þannig sé enn mismunað ef þetta frv. til breytinga á lögunum verður samþykkt. Ég velti því fyrir mér hvernig hæstv. ráðherra ætlar þá að halda áfram með málið.

Það er alveg ljóst eins og ég gat um áðan að lögin segja að hæstv. sjútvrh. eigi fyrir 1. nóvember árið 2000, þ.e. fyrir haustið eða næsta vetur, að leggja fram frv. hér á Alþingi um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, þ.e. stjórn á stofninum eftir árið 2000. Hver eru þau viðhorf sem hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin vilja hafa í heiðri þegar kemur að slíkum breytingum á þessum lögum? Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra talaði um að með þessu frv. væri komið til móts við það sem hann kallaði erfiða stöðu á undanförnum árum. Við því hafði verið varað eins og ég benti á hér áðan. En er það að leyfa þessum hluta skipanna fullkomið framsal þeirra aflaheimilda sem þeir fá eina leiðin sem hæstv. ráðherra sér til að bregðast við þeim vanda við stjórnun veiðanna?

[13:45]

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara nánar í þá gagnrýni sem sett var fram á sínum tíma þegar þessi lög voru sett. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin var á þeim tíma, fyrir tæpum tveimur árum, að reyna að takast á við hvernig hægt væri að láta síldarflotann mynda veiðireynslu. 5. gr. úthafsveiðilaganna hafði verið notuð til þess að stjórna veiðunum en þegar sú löggjöf var hér til umfjöllunar gerðist það að meiri hluti sjútvn., samsettur af fulltrúum stjórnarflokkanna, ályktaði um það sérstaklega eða setti í nál. sitt að veiðireynsla samkvæmt því myndaði ekki veiðirétt.

Með þeim lögum sem sett voru fyrir tæpum tveimur árum var verið að reyna að ná utan um það að hægt yrði að mynda þennan veiðirétt, annað var ekki hægt að skilja, og nú er ekki bara verið að mynda veiðiréttinn heldur er framsalið orðið fullkomið, en það virðist ekki hafa komið til álita, nema hæstv. ráðherra segi okkur þá betur frá því á eftir, að menn byðu veiðiréttinn út.

Ég vil rifja það upp, herra forseti, að við umfjöllun málsins á sínum tíma voru ákveðnir forustumenn stjórnarflokkanna býsna yfirlýsingaglaðir hvað varðaði meðferð þessa fiskstofns. Það kom fram hjá fleiri en einum og fleiri en tveimur að til álita kæmi að selja þennan veiðirétt og þess vegna er mikilvægt að vita hvort sú umræða er algjörlega þögnuð í herbúðum stjórnarliðsins.