Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 13:47:50 (5207)

2000-03-14 13:47:50# 125. lþ. 78.2 fundur 407. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (flutningur aflahámarks) frv. 36/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[13:47]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það kemur nokkuð á óvart satt best að segja að hæstv. sjútvrh. skuli telja sig knúinn til að fara út í breytingar á þessum ákvæðum sem gilda um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum nú þegar í hönd fer síðasta veiðitímabilið innan ramma gildandi laga. Það er óþarfi að eyða miklum tíma í að rifja upp allan þann vandræðagang sem var af hálfu stjórnvalda hvað varðar meðferð á veiðiheimildum og veiðistjórn í þann stofn.

Löggjöfin sem sett var í maí 1998 var að mínu mati meingölluð og ég spáði því að það mundi ekki takast sérstaklega höndulega að nýta norsk-íslenska síldarstofninn á grundvelli þeirra ákvæða. Til dæmis mundu þau vandamál sem kæmu upp í sambandi við endurúthlutun og jafnvel endur-endurúthlutun á ónýttum veiðiheimildum þegar liði að lokum tímans hljóta að kalla á vandræðagang sem og varð raunin. Ég man ekki lengur og hef ekki tölu á hve oft varð að breyta reglugerðum og gefa út nýjar og vera með þetta mál í höndunum en það var í þó nokkur skipti og tókst ekki vel til. Kerfið hefur haft það í för með sér að menn hafa kannski farið í þetta meira af kappi en forsjá og samt hefur ekki tekist að fullnýta veiðiheimildirnar á sumum vertíðunum.

Það var í rauninni afar sérkennileg niðurstaða sem hér varð, herra forseti, á Alþingi vorið 1998 þegar valið var að láta ekki nýlega sett ákvæði laga um úthafsveiðar taka til þessa stofns. Og fróðlegt væri að rifja upp helstu rökin fyrir því sem þá voru höfð uppi, ég hygg m.a. af hv. 1. þm. Austurl., hæstv. núv. utanrrh. og þáv. reyndar, að það væri ótímabært vegna þess að vænta mætti svo mikilla breytinga á jafnvel hegðun þessa stofns eða af einhverjum öðrum ástæðum að það yrði að bíða með að ganga varanlega frá því hvernig farið yrði með stofninn.

Ég spyr, eru menn miklu nær því í dag? Hefur síldin breytt eitthvað um hegðun eða hafa einhverjar nýjar forsendur skapast sem gera það að verkum að þessi rök hafi reynst rétt? Svarið er auðvitað nei. Þetta mál er nákvæmlega jafnmikið upp í loft og það var þá, á vordögum fyrir tæpum þremur árum.

Í stað þess að láta ákvæðin um úthafsveiðar og 5. gr. þeirra laga um deilistofna gilda í þessu tilviki, eins og gert hafði verið á Reykjaneshrygg og í fleiri tilvikum, var búin til afar sérkennileg sérregla. Veiðireynslunni var ýtt til hliðar en í raun og veru burðargeta eða rúmmál skipanna tekið inn sem viðmiðun í staðinn þannig að nýleg skip með litla eða enga veiðireynslu fengu þarna umtalsverða úthlutun. Svo hlálegt er það nú að þetta voru akkúrat sömu rúmlestirnar innan veiðileyfa í íslensku lögsögunni sem skömmu síðar voru dæmdar ólöglegar, sem þarna voru notaðar sem viðmiðun. En það stendur ekki í mönnum að framlengja það kerfi með sér jafnvel inn í nýja öld þó að sjálfur grundvöllurinn sem þarna var notaður í staðinn fyrir veiðireynsluna sem þó hafði myndast í frjálsu veiðunum á árunum frá og með aðallega 1994 og fram til 1997, fyrstu veiðarnar voru að vísu við norðausturhorn íslensku lögsögunnar sumarið 1993, ef ég man rétt, og veiddust þá um 24 þús. tonn. En jafnvel þó það ár hefði verið dregið frá voru orðin ein fjögur ár sem voru tiltölulega marktæk, kannski að einu undanskildu af því að þá hafði veiðireynsla myndast í frjálsri sókn á árunum áður en samið var um stofninn eða á grundvelli einhliða aflaákvörðunar Íslendinga og Færeyinga sameiginlega.

Eðlilegast hefði auðvitað verið að beita ákvæðum úthafsveiðilaganna þar sem veiðireynslan væri lögð til grundvallar, taka svonefndan frumherjabónus með inn í útreikningana og láta síðan, ef um varanlega úthlutun var að ræða, endurgjald koma á móti eins og heimilt er samkvæmt lögunum og fordæmi eru um, t.d. frá Reykjaneshrygg. Ég hygg að um ráðstöfun þeirra veiðiheimilda sem komu til sögunnar á Reykjaneshrygg á grundvelli veiðireynslu Íslendinga og mynduðust í frjálsri sókn, var síðan útdeilt á grundvelli þeirrar veiðireynslu og í staðinn kom endurgjald annarra veiðiheimilda í íslensku lögsögunni, hafi verið sæmileg sátt. Þar var þeim útgerðum sem brutu ísinn og öfluðu fyrstu veiðireynslunnar og náðu tökum á þessum veiðum ívilnað með svonefndum frumherjabónus eða tilteknu álagi sem skipin sem stunduðu veiðar fyrstu árin fengu.

Í staðinn fyrir að nota þau lagaákvæði, sem búið var að leggja mikla vinnu í árin á undan og ná sæmilegri samstöðu um, var búin til þessa undarlega sérregla. Hún er svo meingölluð að flest ef ekki öll árin hefur þurft að fikta eitthvað í henni og vera með breytingar á henni, gefa út reglugerðir á miðjum veiðitímanum, jafnvel oftar en einu sinni, til að þetta fyrirkomulag geti gengið upp.

Herra forseti. Í ljósi alls þessa og með hliðsjón af öðrum aðstæðum sem öll umræða um sjávarútvegsmál er undir nú um þessar mundir vakna upp spurningar hvort ekki hefði þá verið illskást að klára þetta tímabil á grundvelli óbreyttra reglna. Hafa menn hugsað alveg fyrir því hvað gerist með því að leyfa þetta framsal núna? Er ekki ansi hætt við því að það festi regluna enn frekar í sessi? Og þá meina ég þessa sérreglu sem útbúin var í maí 1998. Eru allir sáttir við það? Er verið að boða það eins og stundum áður að þar hafi menn í raun og veru verið að búa til grundvöllinn sem málið muni byggja á til framtíðar þótt svardagar væru uppi um hið gagnstæða og talað um að setja þyrfti sérreglur einmitt vegna þess að ekki væri tímabært að ganga varanlega frá ákvörðun veiðiheimildanna?

Það væri fróðlegt að fá a.m.k. einhverja umfjöllun um þetta mál ef það hefur þá verið rætt eða skoðað í hinu háa ráðuneyti eða hjá ríkisstjórninni. Kannski er þetta bara spilað af fingrum fram og menn lifa frá degi til dags í þessum efnum um þessar mundir eins og manni finnst margt benda til í sjávarútvegsmálunum. En það er ekki beysin stefna verð ég að segja, ef menn hanna flíkina um leið og þeir prjóna hana.

Að síðustu, herra forseti, óska ég eftir því að hæstv. sjútvrh. svari hér einhverju til um hvað í vændum er með framhald málsins. Þegar vertíðinni lýkur í vor eða sumar þá er uppi það tímabil sem ákveðið var með lögunum nr. 38/1998. Verður þá horfið aftur til ákvæða úthafsveiðilaganna eða reiknar hæstv. ráðherra með að þessi tilhögun verði framlengd? Hver er afstaða hæstv. ráðherra til þeirra ákvæða sem úthafslögin geyma í þessum tilvikum, t.d. til frumherjabónuss og þá endurgjalds ef um varanlega úthlutun er að ræða? Ég held að æskilegt væri, herra forseti, að við 1. umr. málsins kæmu fram fyllri upplýsingar um stöðu málsins en gerðu í stuttri framsöguræðu ráðherra.