Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 14:13:57 (5211)

2000-03-14 14:13:57# 125. lþ. 78.2 fundur 407. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (flutningur aflahámarks) frv. 36/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[14:13]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að taka mér það til eftirbreytni að fara að gleyma nöfnum í stórum stíl og rugla með þau. Ég ætla ekki að blanda mér í málflutning hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, 2. þm. Vestf. að öðru leyti en því að mér finnst rétt að halda þeirri sögulegu staðreynd til haga að samningar íslenskra stjórnvalda við Rússa, Norðmenn með Færeyingum sem Evrópusambandið kom síðar inn í um norsk-íslenska síldarstofninn, komu ekki til sögunnar fyrr en að undangengnum nokkurra ára veiðum án samkomulags. Fyrstu veiðarnar voru sumarið 1993 og síðan fóru fram veiðar í ósamkomulagi, að hluta til frjálsar veiðar en síðan veiðar á grundvelli einhliða kvóta sem Íslendingar og Færeyingar settu sér sameiginlega. Það var ekki fyrr en að undangengnu nokkurra ára tímabili slíkra veiða sem samningar tókust um hlutdeild Íslands í þessum veiðum, allt of lága að vísu að margra mati eða einhverra 18--19%. Það er að mínu mati alveg ljóst að þeir samningar hefðu ekki náðst nema vegna þess að búið var að sýna fram á veiðimöguleikana og íslensk skip höfðu náð umtalsverðum árangri við veiðar í síldarsmugunni og í færeysku lögsögunni og að einhverju leyti innan íslensku lögsögunnar.

[14:15]

Hitt er svo líka alveg ljóst að strandríkisréttur Íslands á þarna hlut að máli og um hann semja auðvitað íslensk stjórnvöld. Hann er til staðar þegar um deilistofna er að ræða, jafnvel án þess að veiðireynsla hefði verið fyrir hendi. Að því leyti get ég tekið undir með hv. þm. en ég held að það eigi heldur ekki að horfa fram hjá því að þessar veiðar voru mikilvægar í sambandi við að styrkja samningsstöðu Íslands og rökstyðja okkar kröfugerð sem og söguleg rök frá þeim tíma þegar veiðin var að mestu leyti innan íslensku lögsögunnar og síldin var hér stóran hluta ársins.

En svona liggur þetta nú, herra forseti, eins og ég kann þessa sögu réttasta.