Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 14:20:18 (5214)

2000-03-14 14:20:18# 125. lþ. 78.2 fundur 407. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (flutningur aflahámarks) frv. 36/2000, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[14:20]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekkert að deila við hv. þm. um hvort við hefðum e.t.v. getað veitt meira án þessara samninga en við höfum gert undir samningnum. Hins vegar vek ég athygli á því að hann sagði að það væri þó því aðeins að náðst hefðu samningar við stjórnvöld í Færeyjum um að við mættum veiða það sem við hefðum þá sótt innan þeirrar lögsögu. Með öðrum orðum skapast þessi verðmæti þá ekki heldur að hans áliti nema með því að íslensk stjórnvöld semji við stjórnvöld annars lands. Það er nákvæmlega það sem ég var að benda á. Verðmætin eru sköpuð fyrir tilverknað samninga ríkisstjórna. Síðan tekur ríkisstjórn Íslands ákvörðun um að úthluta þeim verðmætum til fárra útvalinna fyrir ekki neitt. (SJS: Menn semja ekki síldina í land.)

Herra forseti. Ég ætla ekki, af því ég veit að hv. þm. getur ekki komið aftur upp í þriðja sinn í andsvari, að deila við hann um önnur efnisatriði sem ég nefndi. Ég vek aðeins athygli á því að ég hef ekki heyrt frá hv. þm. neinar grundvallartillögur um aðra útfærslu á stjórn fiskveiða við Ísland en þá sem við þekkjum undir nafninu kvótakerfi. Hv. þm. virðist loka á allar leiðir til að treysta jafnræði og jafna stöðu Íslendinga sem hafa yfir skipum að ráða til þess að sækja þessa auðlind. Hann virðist líka vera á móti því að þjóðin, sem á þessa auðlind skv. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, njóti beins hagnaðar af því að umrædd auðlind skuli nýtt af tilteknum hópi manna sem einn er þess umkominn að nýta hana. Um það ætla ég hins vegar ekki að takast á við hv. þm. undir þessum lið. Hann getur ekki svarað því. En ég vek aðeins athygli á því að það er ekki mjög langt á milli sjónarmiða hans og hæstv. ríkisstjórnar.