Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 14:30:00 (5216)

2000-03-14 14:30:00# 125. lþ. 78.2 fundur 407. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (flutningur aflahámarks) frv. 36/2000, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[14:30]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leitt ef hæstv. ráðherra hefur misskilið það sem ég var að segja áðan. Ég var hreint ekki að leggja til að menn sætu með hendur í skauti á meðan beðið væri dóma, hvorki í þessu máli né öðrum. Ég er þvert á móti þeirrar skoðunar að stjórnvöld ættu ekki að hrekjast undan dómum heldur taka ákvarðanir um hvernig þau vilji þróa þessi mál.

Ég gagnrýndi hins vegar að megininnihald þess frv. sem hér liggur fyrir keyrir þvert á þá niðurstöðu sem varð í Hæstarétti annars vegar og hins vegar í svokölluðum Vatneyrardómi. Það gagnrýndi ég. Mér hefði ekki fundist það gagnrýnisvert, herra forseti, ef hæstv. sjútvrh. hefði komið hér með frv. til breytinga á lögunum sem vísaði til frekara jafnræðis. Það hefði verið að mínu skapi. En sú tillaga sem hér liggur fyrir gerir það klárlega ekki. Ég var að gagnrýna það.