Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 14:39:09 (5219)

2000-03-14 14:39:09# 125. lþ. 78.2 fundur 407. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (flutningur aflahámarks) frv. 36/2000, SighB
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[14:39]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er mesti misskilningur að ég óski mér að eiga hv. þm. sem hér talaði áðan, Steingrím J. Sigfússon, að andstæðingi. Það er alveg fráleitt. Þvert á móti lagði ég mjög mikla áherslu á það í aðdraganda Samfylkingar að hann væri með okkur. Ég er honum þakklátur fyrir að hann lagði nú margt gott til í þeirri málefnavinnu sem hann tók þátt í með okkur hinum í aðdraganda þess framboðs. Hann á ýmislegt sem þar var síðan samþykkt í stefnu þess sameiginlega framboðs. Hann vann vel að því máli þó hann hafi kosið á elleftu stundu að hlaupast undan árum. En mér þótti mjög vænt um það framlag sem við fengum frá honum og hefði gjarnan óskað eftir því að hann væri okkur sammála til enda. En hann tók ákvörðun um að svo yrði ekki.

Herra forseti. Ég er ekki orðinn úrkula vonar um að við hv. þm. getum náð saman. Hann er greindur maður og lætur yfirleitt undan fyrir rökum. Það er ekki útilokað að að því komi einn góðan veðurdaginn að honum verði ljóst að rökin sem við samfylkingarfólk höfum fyrir því hvernig stýra eigi þessari meginundirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar þannig að allir séu jafnir fyrir lögum og að hvort tveggja sé virt, jafnréttisákvæði stjórnarskrár og ákvæði um atvinnufrelsi, sé rétt nálgun að málinu.

Ég veit ekki til þess að hv. þm. hafi gert neina athugasemd við það hvernig þeim verðmætum er ráðstafað sem t.d. ríkisstjórn Íslands skapaði með samningum við önnur ríki um innflutning á takmörkuðum kvóta landbúnaðarafurða, sem er ráðstafað með uppboði eins og ég sagði hér áðan. Ég hef heldur ekki orðið var við að hv. þm. hafi lagst mjög harkalega fram gegn því að aflaheimildir yrðu varanlega framseldar. Þó hann sé á móti því að heimilt sé að leigja innan ársins þá hef ég ekki orðið var við að hann mótmæli því að um varanlegt framsal aflaheimilda sé að ræða.

Ég held líka, viðrulegi forseti, án þess að ég ætli að gera hv. þm. upp neinar skoðanir, að það sé engin tilviljun að á fyrstu fjórum árum samtarfs ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl. hafi hv. þm. verið valinn af þeim flokkum til að stýra sjútvn. Alþingis. Hann gerði það mjög vel. Ég átti sæti í nefndinni með honum og hann gerði það mjög vel eins og flestallt það sem hann gerir. Sá sem hér stendur hefði aldrei verið valinn í það embætti af Framsfl. og Sjálfstfl., að stýra sjútvn. Það liggur alveg fyrir.

Ég vil taka það fram að ég vona að við getum átt samleið, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Ég held hann hljóti, sem vinstri sinnaður jafnaðarmaður, að gera sér grein fyrir því að það sem skiptir meginmáli í þessu sambandi er jafnrétti fólks. Einn getur ekki verið jafnari en allir hinir og valdið hér á Alþingi og í höndum ríkisstjórnar ætti ekki að nota án rökstuðnings til þess að veita einum rétt sem annar fær ekki. Ég veit ekki til þess að við séum yfirleitt andvígir því, ég og hv. þm., að hluti af greiðslum sem inntar eru af hendi fyrir réttindi sem eiga uppruna sinn í almannaeign sé greiddur almenningi.

Það er lagt á veiðileyfagjald í sjávarútvegi í dag og það er hátt. Menn eru að borga háar fjárhæðir í viðskiptum með aflaheimildir, bæði í varanlegum viðskiptum og leiguviðskiptum. Það er auðlindaskattur og hann er mjög hár. Hann skiptir hundruðum milljóna ef ekki milljörðum á hverju einasta ári. En ekkert af þessum fjármunum rennur til almennings í landinu. Þetta er skattur sem einn útgerðarmaður sem nýtur forréttinda greiðir öðrum sem nýtur forréttinda. Ég trúi því ekki að hv. þm. sé sáttur við það, því trúi ég ekki.

Ég spái því nú að fyrr eða síðar muni það enda með því að hv. þm. taki rökum eins og hann hefur oft gert og fallist á að styðja það sjónarmið sem skynsamlegt er í málunum