Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 15:03:34 (5223)

2000-03-14 15:03:34# 125. lþ. 78.3 fundur 400. mál: #A Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks# skýrsl, GAK
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[15:03]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér ræðum við skýrslu sem hæstv. sjútvrh. hefur gert grein fyrir og er unnin upp samkvæmt ákvæðum laga sem fylgdu lagasetningunni og er eitt af bráðabirgðaákvæðum laga um stjórn fiskveiða, mig minnir að það sé bráðabirgðaákvæði nr. 19 sem kveður á um þessa skýrslu.

Tilefnið er, eins og hæstv. ráðherra vék að, að mál sjómanna og útgerðarmanna hafa í mörg ár verið í miklu ósætti vegna þess að aflamarksviðskiptum hefur verið blandað inn í fiskverð, uppgjör, aflahlut og laun sjómanna. Í stuttu máli má segja að þessi skýrsla leiði m.a. í ljós að málum er þannig háttað enn þann dag í dag. Það er enn þá ósætti um hvernig uppgjöri á aflahlut sjómanna er háttað og ósætti um fiskverð. Og skyldi engan undra því að mismunur á fiskverði annars vegar í beinni sölu og hins vegar á ferskfiskmörkuðum er mjög mikill. Hann er í raun og veru svo afgerandi að óásættanlegt er að horfa til framtíðar í því ljósi að verðlagning sjávaraflans haldi áfram í því fari sem hún hefur verið. Koma þarf í veg fyrir það sem á máli sjómanna hefur verið kallað kvótabrask. Tryggja þarf að leigan á aflamarkinu eða varanleg verslun ef því er að skipta blandist ekki inn í kjör sjómannanna. Ég hygg að lesa megi út úr skýrslunni að leiguverð á aflaheimildum hafi ekki bara áhrif á kjör sjómanna heldur líka hins almenna verkamanns sem vinnur í fiskvinnslunni. Það er beinlínis sagt í skýrslunni að fiskverkendur geti leigt til sín aflamark eða haft milligöngu um aflamark sem gangi síðan til viðskiptaaðila þeirra með ýmsu móti og það hafi áhrif á verðið sem greitt er til skipanna.

Koma þarf í veg fyrir að það athæfi sem valdið hefur þessum miklu deilum milli sjómanna haldi áfram og það einkennilega við þetta athæfi er að það er ólöglegt. Það er ólöglegt að láta sjómenn taka þátt í kaupum eða leigu á aflamarki eða blanda því inn í kjör þeirra. Mig langar til að lesa upp úr kjarasamningi sjómanna um sölu aflans en þar segir, með leyfi forseta:

,,Útgerðarmaður hefur með höndum sölu aflans og hefur til þess umboð áhafnar að því er aflahlut hennar varðar. Hann skal tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn, þó aldrei lægra en útgerðarmaður fær, þar með talin hrogn, lifur og bein. Ekki er heimilt að draga frá heildarverðmæti afla kostnað vegna kaupa á veiðiheimildum, sbr. 1. gr. laga nr. 24/1986, sbr. 10. gr. laga nr. 79/1994, um breytingu á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun, með síðari breytingum.``

Síðan segir: ,,Eftirfarandi ákvæði eiga ekki við í þeim tilvikum þegar afli er seldur á innlendum eða erlendum uppboðsmarkaði.``

Hér var vitnað í kjarasamning sjómanna. Sjómenn og útgerðarmenn hafa sem sagt lýst því yfir að verðmyndun á innlendum uppboðsmarkaði eða erlendum uppboðsmarkaði fullnægi ákvæðum kjarasamningsins um að útgerðarmaðurinn tryggi skipverjum hæsta gangverð. Um þetta snýst grundvöllur deilunnar. Að koma málum þannig fyrir að sátt sé um það milli sjómanna og útgerðarmanna hvernig útgerðarmaður, sem hefur til þess umboð fyrir aflahlut áhafnar að selja aflann, tryggi að hæsta gangverð fáist fyrir aflann. Út úr kjarasamningunum má auðvitað lesa að úr því að aðilar eru sammála um að fiskur sem seldur er á innlendum eða erlendum uppboðsmarkaði jafngildi því ákvæði að tryggja hæsta gangverð, þá sé ekki ágreiningur um þá hlið mála.

Því hefur það verið svo um langan tíma að sjómenn hafa bent á hina frjálsu verðmyndun á ferskfiskmörkuðum sem lausn á þeim deilum sem staðið hafa milli útgerðarmanna og sjómanna og hafa í rauninni valdið þeim miklu deilum sem sjómenn hafa kallað kvótabrask og þátttöku sjómanna í því, sem er eins og ég hef áður sagt og vil endurtaka ólöglegt. Þar af leiðandi voru lögin um Kvótaþing, Verðlagsstofu og úrskurðarnefnd í síðustu kjaradeilu 1998 sett til að koma í veg fyrir að það ástand sem þá var uppi og er að hluta til enn þá uppi gæti haldið áfram. Lögin hafa sem sagt ekki náð tilgangi sínum. Við stöndum uppi með það að tilgangur löggjafans var að koma málum þannig fyrir að ekki væri lengur um það að ræða að sjómenn tækju þátt í kvótakaupum. Ég held að nærtækast sé að vitna í skýrsluna um það sem menn eru sammála um en það er að Verðlagsstofa skiptaverðs hafi í raun og veru unnið gott verk, gott upplýsingaverk og þar sé að koma til gagnagrunnur sem sé í sjálfu sér mjög verðmætur fyrir aðila að hafa aðgang að. Sjómenn og útvegsmenn eru í sjálfu sér ekkert ósáttir við Verðlagsstofu, þ.e. þau vinnubrögð og gagnaöflun sem hún hefur staðið fyrir, en eftir forstöðumanni hennar er haft í þessari skýrslu þar sem skýrsluhöfundur segir í texta á bls. 14, með leyfi forseta:

,,Þegar Verðlagsstofa var sótt heim (október 1999) vegna vinnslu skýrslu þessarar hafði stofan skráð 42 mál til athugunar, það sem af var árinu. Hér á eftir eru dregnar ályktanir af þeim ásamt ýmsum gögnum stofunnar og viðtölum:

Ísfisktogarar, jafnvel þeir sem mikinn kvóta hafa, eru með verð á mörkum þess að það teljist ekki verulegt frávik. Nokkrir ísfisktogarar leigja til sín kvóta og eru þeirra verð yfirleitt lægst í þessum skipaflokki.``

Þetta er texti sem skýrsluhöfundur setur inn eftir að hafa kannað málið hjá Verðlagsstofunni. Síðan segir einnig, með leyfi forseta:

,,Kvótakaup fiskverkenda eru staðreynd og fiskverðsmál flækt af þeim ástæðum.``

Þetta er líka tekið úr skýrslunni. Síðan segir: ,,Ekkert virðist því til fyrirstöðu að fiskverkendur greiði sjálfir kvóta skipa sem hjá þeim landa.``

Síðan kemur niðurstaða eða einn punktur í viðbót sem er ekki niðurstaða heldur bara hugleiðing: ,,Þetta vekur upp spurningar um gagnsemi Kvótaþings.``

Ég tel að þetta veki kannski ekkert sérstaklega upp spurningar um gagnsemi Kvótaþings. Þetta vekur upp þær spurningar hvernig standi á því að aftur og aftur er verið að setja lög á kjaradeilu sjómanna sem hafa það að markmiði að reyna að koma í veg fyrir að sjómenn séu látnir taka þátt í kvótakaupum og svo birtist það í texta skýrsluhöfundar eftir að hafa skoðað málin hjá Verðlagsstofu skiptaverðs sem samningsaðilar eru sæmilega sáttir við, þ.e. Verðlagsstofu skiptaverðs og þá upplýsingavinnu sem þar fer fram, að þessi atriði sem ég las upp áðan eru til staðar að hans mati og hafa þessi áhrif. Þetta segir okkur auðvitað að við höfum því miður ekki náð að leysa þessi mál. Nú eru kjarasamningar fiskimanna lausir og það er næsta víst að fiskverðsmálin ásamt kvótatilfærslum og kvótaleigu verða eitt af þeim málum sem verða ásteytingargarsteinn í þeim samningum eins og verið hefur.

Skýrslan er að mörgu leyti fróðleg og margt er þar dregið fram í gagnlegum upplýsingum, ég ætla ekki að rekja það neitt í löngu máli. Mér finnst það sem kemur fram í þeirri tilvitnun sem ég vitnaði í, þ.e. að fiskverkendur geti tekið þátt í kvótakaupum og kvótaleigu hljóti m.a. að byggja undir það að kvótaleigan hafi ekki bara áhrif á kjör sjómanna heldur hefur hún örugglega líka áhrif á kjör verkafólks sem vinnur í fiskvinnslu.

[15:15]

Kvótaleigan er orðin það stór partur í þessum viðskiptum að hún er farin að hafa veruleg áhrif á afkomu og rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. Að vísu er það svo að þeir sem fengu úthlutað mest af kvóta á sínum tíma eða hafa safnað til sín mestum kvótaheimildum eru frekar að leigja frá sér aflamarkið heldur en að þeir leigi það til sín. Það kom m.a. fram í máli hæstv. sjútvrh. að m.a. togaraútgerðirnar sumar hverjar leigja frá sér aflamark og síðan ákveðinn hluti bátaflotans. Hér aftar í skýrslunni eru töflur sem sýna þessar tilfærslur en þær ætla ég ekki að rekja frekar.

Aflatilfærslurnar hafa þessi áhrif og það er óumdeilt. Hins vegar er kannski rétt að vekja athygli á töflu hér á bls. 20, svo ég taki nú bara eitt dæmi, sem sýnir þorskverð í nóvember 1999. Þar segir að verðmunur á þorski eftir því hvort hann er seldur á innlendum fiskmörkuðum eða í beinni sölu hins vegar, ýmist slægður eða óslægður, sé allt upp í það að vera 113%. 75% er mismunurinn þegar seldur er þorskafli úr netum milli beinar sölu og innlendra markaða. Það er náttúrlega alveg gjörsamlega óásættanlegt að málin skuli þróast með þessum hætti og e.t.v. verði sú staða uppi áfram um ókomna tíð.

Ég tel að þessi skýrsla ýti m.a. undir rök sem oft hafa verið færð fyrir því að selja eigi ferskfiskafla á fiskmörkuðum og taka eigi upp þá reglu hér á landi að láta fiskmarkaðinn um að verðmynda aflann, eins og reyndar er gert víðast hvar í löndum hér í kringum okkur. Færeyingar tóku það t.d. upp fyrir þremur eða fjórum árum.

Það væri hægt að hafa langt mál um þetta. Ég ætla hins vegar að enda á því að segja: Fiskverð í beinum viðskiptum tekur mið af dýrasta aðgangseyrinum. Og hver er hann? Það er leiga á aflamarki. Út frá því má sjá að aflamarkið hefur bein áhrif á fiskverðið og það er ólöglegt.