Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 15:19:25 (5224)

2000-03-14 15:19:25# 125. lþ. 78.3 fundur 400. mál: #A Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks# skýrsl, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[15:19]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þessi skýrsla, sem er unnin að beiðni sjútvrh. vegna ákvæða í lögum um stjórn fiskveiða, á m.a. að vera, svo ég byrji á því, könnun á áhrifum laganna á íslenskan sjávarútveg og sérstaklega stöðu og möguleika einstaklingsútgerðar.

Mig langar að byrja á því að spyrja hæstv. sjútvrh., vegna þess að ég áttaði mig ekki á því að það kæmi fram í hans máli, hvaða boðskap hann les út úr þessari skýrslu varðandi stöðu einstaklingsútgerðanna. Ég verð að viðurkenna að það liggur ekki í augum uppi, a.m.k. ekki fyrir mér, hvernig eigi að lesa það út úr þessari skýrslu.

Hins vegar er alveg ljóst af þessari skýrslu að sjómenn halda áfram að taka þátt í kvótakaupum samkvæmt mati þess sem hana hefur samið. Að því leyti hafa markmið stjórnvalda örugglega ekki náðst. Ekki er gott að sjá hvort eitthvað hafi breyst til batnaðar vegna Kvótaþingsins hvað þetta varðar en menn virðast þó sammála um það að Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefndin hafi skipt þarna máli.

Hæstv. sjútvrh. endaði mál sitt á því að hann vænti þess að málefnaleg umræða yrði um þessa skýrslu, væntanlega í þeim tilgangi að á þeim grundvelli og skýrslunnar yrði hægt að taka afstöðu. Hæstv. ráðherra fór yfir þessa skýrslu hér áðan og fjallaði um ýmis efnisatriði sem þar eru til umfjöllunar. Ég varð hins vegar ekki var við að neins staðar kæmi fram í máli hans hvaða boðskap hann les úr skýrslunni sjálfur eða hvaða fyrirætlanir stjórnvöld muni hafa uppi í kjölfar skýrslunnar um breytingar á þeim framgangi sem hér er lýst.

Það má kannski virða honum það til vorkunnar að einhverju leyti að beðið er eftir samningum sjómanna. Menn þurfa auðvitað að átta sig á því hvað er þar fram undan. En sjómenn munu örugglega reyna enn einu sinni að komast undan því að taka þátt í þessum kvótakaupum. Satt best að segja finnst mér sú raunasaga með miklum eindæmum og botna ekki í að menn skuli ekki komast úr því fari að brjóta sífellt samninga á sjómönnum með þátttöku þeirra í útgerðarkostnaði, þ.e. við kvótakaup.

Ef við gæfum okkur að menn losnuðu út úr því og útgerðarmenn gjörsamlega hættu að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum, hvað mundi þá gerast? Nú, auðvitað mundi aðeins verð á veiðiheimildum breytast. Verðið á veiðiheimildum er svona hátt vegna þess að útgerðin borgar ekki veiðiheimildirnar sjálf. Það er svona hátt vegna þess að sjómenn eru látnir taka þátt í kvótakaupunum. Í sjálfu sér er engin spurning um að ef menn komast bara frá þeirri þróun sem þarna hefur orðið þá er það sem þá tæki við að öllu leyti betra fyrir útgerðina sjálfa, að losna við óvinsamleg samskipti við sjómenn alla tíð út af því að verið sé að brjóta á þeim samninga.

Ég tel að eitt af brýnustu verkefnum sjávarútvegsforustunnar sé að leiða sjálfa sig að landi í þessu máli svo að sjómenn þurfi ekki að standa lengur í þessari baráttu. Ég vonast til þess að menn fari að sjá til lands hvað þetta varðar og ekki þurfi að vera endalaus barátta af þessu tagi.

Eitt í þessu tel ég reyndar að stjórnvöld þurfi að horfast í augu við. Það er ekki nóg að útgerðarmenn endurskoði þessi beinu kvótakaup heldur er verðlagning fisks sem landað er þannig að ekki er fyrirsjáanlegt að um það geti orðið sátt. Satt að segja er mjög undarlegt að útgerðirnar skuli nánast með handafli ákveða sjálfar hvað þær borgi í skiptum fyrir fiskinn. Þessi skýrsla sýnir glögglega, með þessum gífurlega mun á afla sem landað er í beinum viðskiptum og afla sem landað er í gegnum fiskmarkaði, að full ástæða er til þess að taka mark á því að bæði sé um bein kvótakaup að ræða og að útgerðir verðleggi afla til sín þannig að ráð sé fyrir því gert að sjómenn taki þátt í þessum kvótakaupum. Þá á ég við að þeir séu að kaupa kvótann af sinni eigin útgerð. Þannig liggur auðvitað í málinu.

Ég held reyndar að það þurfi að greina á milli útgerðar og fiskvinnslu. Þau fyrirtæki sem kjósa að vera í hvoru tveggja þurfa að standa frammi fyrir því að gera skýran greinarmun í rekstri sínum á kostnaði og tekjum eftir því hvort um er að ræða fiskvinnslu eða útgerð. Það er mjög brýnt að á komist eðlilegt umhverfi í sjávarútveginum. Þessi skýrsla sýnir okkur að óeðlileg verðlagning á aflaheimildum og það að útgerðarmenn hafa látið sjómenn taka þátt í kvótakaupum er áfram til staðar. Það hefur ekki breyst í grundvallaratriðum. Það kann að vera og skýrslan ber með sér að hjá einstökum útgerðum hafi verið tekið á málum og að einhverju leyti komið til móts við sjómenn. Sjómenn eru kannski að borga eitthvað minna í kvótakaup hjá einstökum útgerðum og sums staðar hefur sá siður kannski verið lagður af. En á meðan verðlagning á aflaheimildum er eins og raun ber vitni þá verður slíkt verð ekki til öðruvísi en ég var að lýsa hér áðan, með því að sjómenn eru að borga. Það mun sýna sig strax í lækkun verðs á aflaheimildum þegar menn hafa náð tökum á þessu máli.

Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra segi svolítið skýrar frá því hvaða niðurstöður hann dregur af þessari skýrslu og hverjar fyrirætlanir hans eru. Ætla menn að hafa Kvótaþing áfram? Er meiningin að slá það af? Því var haldið fram hér í umræðunni með miklum hamagangi að Kvótaþingið hefði sprengt verðlagið upp úr öllu valdi. Að mati skýrsluhöfundar hefur verðhækkunin ekki verið vegna Kvótaþingsins sjálfs heldur vegna annarra breytinga á lögum sem gerðar voru um sama leyti.

Það er líka fróðlegt að taka eftir því hverjir eru að leigja veiðiheimildirnar. Þar kemur t.d. skýrt fram að stóru útgerðirnar, togaraútgerðirnar, eru að leigja frá sér mest af veiðiheimildum. Þannig hefur það verið í fjöldamörg ár. Fyrir þá sem eru svona hrifnir af þessu hagræði af framsali aflaheimildanna þá er þetta athyglisvert. Menn hljóta að velta því fyrir sér hvort þetta hagræði sé ákaflega mikið ef það verður til þess að veiðiheimildirnar safnast á hendur þeirra sem ætla ekki að nýta þær sjálfir og halda þeim hjá sér í þeim eina tilgangi að láta aðra borga fyrir aðganginn að auðlindinni. Þeir fjármagna kaup á aflaheimildum, eins og dæmin sanna á undanförnum árum, með því að keyra upp verð á þessum leigumarkaði aflaheimildanna til að kaupa sér nýjar aflaheimildir og bæta í sjóðinn.

[15:30]

Hvar er þá allt hagræðið ef aflaheimildirnar safnast fyrir hjá útgerðum eins og þessum? Ég held að allan tímann hafi verið gert allt of mikið úr því hagræði sem fólgið væri í þessu mikla framsali. Ég held reyndar að breytingin sem þarna var gerð hafi sýnt fram á að þótt dregið væri úr möguleikum manna til að framselja aflaheimildir hefur enginn voði gerst. Ég sé ekki betur en að fiskur komi að landi allt í kringum landið áfram og að ekki hafi orðið nein stórkostleg breyting frá því sem áður var þó að menn hafi sett þessar hömlur á. (Gripið fram í: En á Vestfjörðum?) Á Vestfjörðum hafa hlutirnir náttúrlega gengið með ýmsu móti fyrir sig eins og um allt land. Ég veit ekki betur en að landaður afli þar hafi haldið áfram að vera svipaður og hann hefur verið undanfarin ár. (Gripið fram í: En kvótaeign?) Kvótaeignir hafa breyst verulega og eru að breytast og þetta kerfi aflaheimilda, sem seldar eru milli útgerða og byggðarlaga, er að verða til þess að fjölmörg byggðarlög sitja uppi aflaheimildalaus og framtíðin þar er mjög óviss. En einu tek ég eftir í skýrslunni, sem hefur reyndar komið fram áður, og það er að Suðurnesjamenn kaupa mest af aflaheimildum til sín (Gripið fram í: Helmingi minna en í fyrra.) og Norðlendingar selja mest frá sér. Kannski er ástæða til að rifja upp í því sambandi að á sínum tíma var til regla sem virkaði þannig að ef menn fluttu varanlegar aflaheimildir norður í land fengu þeir 25% bónus ofan á þær aflaheimildir. Þeir virðast hafa fengið of mikið af aflaheimildum þarna norður í land, því ekki nota þeir þær sjálfir, þeir leigja þær frá sér. Reyndar held ég að skýringin á þessu sé líka hin sem ég nefndi áðan að menn hafa haldið áfram að kaupa aflaheimildir í þeim eina tilgangi að græða á því að eiga þær og leigja þær frá sér, en ekki fyrst og fremst í þeim tilgangi að veiða og reka fyrirtæki sín á útgerð.

Ástæða er til þess að vekja athygli á því sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði áðan um fiskverkafólk og þátttöku þess í því að kaupa aflaheimildir. Ég held að það hafi verið ýmsum hulið í gegnum tímann hvernig þræðirnir liggja í þessum hlutum öllum saman. Auðvitað hefur það verið þannig til langs tíma litið að öll fyrirtæki, og þar blandast oftast nær saman meira og minna útgerð og fiskvinnsla, úti um landið hafa tekið þátt með einhverjum hætti í þessari verslun með aðganginn að veiðiheimildunum. Mörg fiskvinnslufyrirtæki, sem hafa líka verið í útgerð, hafa þurft að kaupa til sín og sæta afarkostum í því að reyna að ná til sín aflaheimildum til að hafa fisk til að vinna. Auðvitað getur slíkt aldrei annað en komið niður á möguleikum þeirra fyrirtækja til þess að borga fólki sínu kaup. Þannig hafa myndast tengsl milli fyrirtækja sem hafa verið að sjúga til sín verðmætin sem hafa verið borguð fyrir aðganginn að veiðiheimildunum og fyrirtækja sem hafa verið mergsogin af þessu fyrirtækjum. Þrátt fyrir allt tal um hagræðingu í þessu efni held ég að menn þurfi að skoða þetta í þessu ljósi.

Mér finnst skýrslan mjög áhugavert plagg, hún leiðir ýmislegt í ljós sem nauðsynlegt var að vita en ég vil gjarnan fá að heyra svolítið meira um hvaða ályktanir hæstv. ráðherra og stjórnarflokkarnir draga af henni.