Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 15:34:43 (5225)

2000-03-14 15:34:43# 125. lþ. 78.3 fundur 400. mál: #A Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks# skýrsl, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[15:34]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu prýðileg skýrsla hæstv. sjútvrh. um svonefnda þrílembinga, þ.e. reynslu af lagasetningu um Kvótaþing, Verðlagsstofu skiptaverðs og síðan lagasetningu um takmörkun á flutningi aflamarks.

Um hvað snýst skýrslan og um hvað fjallar í rauninni umræðan sem fylgir henni, bæði á undan og á eftir getum við sagt? Hún snýst í rauninni um það sem hefur alltaf verið deiluatriði í tengslum við íslenskan sjávarútveg, þ.e. deila hásetans við formanninn, hvaða nafnbót sem hásetinn í dag kann að hafa og hvaða nafnbót formaðurinn kann að hafa, útgerðarmaður, skipstjóri eða hvað annað. Hún er deilan um að skipta aflaverðmætum og skipta aflanum.

Aðdragandinn að lagasetningunni, eins og fram hefur komið og menn muna, er meint viðskipti sjómanna og þátttaka þeirra, þvinguð eða ekki, í kaupum á aflaheimildum og óánægja með verðmyndun í sjávarútvegi. Með þessum frv. sem urðu að lögum var verið að leita leiða til að stöðva annars vegar þátttöku sjómanna í kaupum á aflaheimildum og hins vegar að reyna að ná sátt um verðmyndun í sjávarútvegi. Eins og hefur verið rakið komu þessi frv. inn til þingsins við nokkuð sérstakar aðstæður, má segja innbundin með slaufu á, og þinginu var nánast stillt upp við vegg. Þannig fóru frv. í gegnum þingið og urðu að lögum. Langar ræður má halda um það hvernig þingið hafi látið beygja sig vegna ytri aðstæðna til að koma í veg fyrir verkfall, þetta var liður í sáttargjörð. Margir höfðu efasemdir um innihald þessara frv. og hafa stanslaust lýst efasemdum sínum um gildi þeirra, ekki síst Kvótaþingið. Það er einmitt þess vegna sem hin ágæta skýrsla hæstv. sjútvrh. er afskaplega þarft verk til að meta, eins og var reyndar kveðið á um í bráðabirgðaákvæði, reynsluna af þeirri leið sem samkomulag varð um að fara. Spurningin er sem sagt hvernig hefur til tekist? Svarið er í rauninni afskaplega einfalt, miðað við niðurstöður skýrsluhöfundar, sem hv. þm. hafa tekið undir í ræðum sínu, að meginmarkmiðið hefur mistekist. Kvótaþingið hefur ekki skilað því sem menn ætluðu, enn leikur grunur á að sjómenn taki þátt í kaupum á aflaheimildum og enn hefur ekki náðst sátt um verðmyndun í sjávarútvegi. Þau meginmarkmið sem voru höfuðatriðin hafa ekki náðst og að því leyti til er það ákveðin niðurstaða og afskaplega gagnlegt að hafa þá niðurstöðu og fróðlegt að fylgjast með framhaldinu.

Hins vegar kemur ýmislegt jákvætt fram í skýrslunni og ég hygg að almennt sé sátt um nokkur atriði og nefni ég þar fyrst Verðlagsstofu skiptaverðs. Um hana virðist vera nokkuð almenn sátt eins og skýrsluhöfundur bendir á þó að ýmis atriði megi betur fara, sérstaklega hvað varðar upplýsingastreymi til Verðlagsstofunnar. Gildi Verðlagsstofunnar er að stuðla að réttu uppgjöri, hún er ákveðið skjól og öryggi fyrir sjómenn og dregur þar af leiðandi úr tortryggni í garð útgerðarmanna og hefur töluvert vald. Hún getur þar af leiðandi verið refsivöndur og þjónar þess vegna sjómönnum ágætlega hvað það varðar en er ekki síður mikilvæg fyrir úrskurðarnefnd, þ.e. sá gagnagrunnur sem Verðlagsstofa hefur byggt upp, er afskaplega mikilvægur fyrir úrskurðarnefnd eins og fram kemur í skýrslunni. Hún er einmitt annar þátturinn sem virðist vera nokkuð ágæt sátt um, þ.e. úrskurðarnefndin sem er líka nokkurs konar skjól og leysir ágreining og vanda sem kemur upp milli sjómanna og útgerðar eins og oft vill verða og er ekkert óeðlilegt að komi upp en úrskurðarnefndin þjónar þannig tilgangi sínum. Þessi tvö atriði, herra forseti, virðast því hafa heppnast vel og nokkuð almenn sátt virðist vera um þessa tvo þætti, Verðlagsstofuna og úrskurðarnefndina.

Hitt er svo annað mál með Kvótaþingið sem virðist vera misheppnuð tilraun til að ná meginmarkmiðum og fyrir því kunna að vera ýmsar ástæður. Mér er minnisstætt að í hv. sjútvn. á síðasta kjörtímabili, einmitt þegar umrædd frv. voru þar til umfjöllunar, var þeirri spurningu beint til fulltrúa sjómannasamtaka sem voru þá gestir nefndarinnar, hvort þeir teldu ekki að Kvótaþingið væri óþarft ef Verðlagsstofa og úrskurðarnefnd yrðu efld og komið á fót en því var hafnað algjörlega. Menn vildu fara þessa leið og trúðu á gildi Kvótaþingsins. Annað hefur komið í ljós núna sem er þá kannski meginniðurstaða þessarar ágætu skýrslu.

Samt liggur ljóst fyrir að ekkert mannanna verk er fullkomið og skýrsluhöfundur bendir á að efla þurfi Verðlagsstofu og úrskurðarnefndina þannig að þær hafi örugglega þau vopn sem þær þurfa á að halda. Hvað varðar Kvótaþingið hafa menn velt því upp, og kom m.a. fram þegar dr. Birgir Þór Runólfsson, höfundur skýrslunnar, kom til hv. sjútvn., hvað það er sem veldur því að Kvótaþingið skuli ekki hafa náð þeim árangri sem menn vonuðust til. Meðal annars hefur verið bent á þessi svokölluðu blindu uppboð eða blindu tilboð þar sem menn vita ekki hver er að bjóða og vita nánast ekki hver er að gera hvað. Þar hefur m.a. verið gagnrýnd sú hálfvelgja að fara þessa blindu leið í stað þess að taka upp þær aðferðir sem gefist hafa vel á Verðbréfaþingi og er galopið. Annað sem menn hafa síðan gagnrýnt í Kvótaþinginu og það sem fylgdi er að það dragi úr sveigjanleika sem er nauðsynlegur öllum atvinnugreinum. En niðurstaðan er a.m.k. sú að Kvótaþingið sé misheppnað og vekur þá upp spurninguna hvort það sé ekki óþarft.

Menn hafa haldið því fram að Kvótaþingið hafi hækkað fiskverð en skýrsluhöfundur bendir á, held ég nokkuð réttilega, að það eru aðrir þættir sem munu frekar hafa áhrif á verð til hækkunar. Það eru það sem kalla má ytri forsendur, svo sem eins og hækkun á mörkuðum. Það hefur til allrar hamingju gerst og er örugglega einn snar þáttur í því góðæri sem þjóðin hefur verið að upplifa og er að upplifa, hversu vel hefur tekist í markaðssetningu og hvað markaðsverðið almennt séð í sjávarútvegi hefur vaxið á síðustu árum í það heila tekið, auðvitað með einhverjum undantekningum og sveiflum. Það hefur áhrif til hækkunar og mikil samkeppni um hráefnið ýtir verðinu eðlilega upp. Þá hefur það jafnframt gerst að framsalsheimildir voru takmarkaðar við 50% sem dregur þá að sjálfsögðu úr framboðinu og leiðir til verðhækkunar. Ufsinn hefur verið skertur. Skýrsluhöfundur bendir hins vegar á að með mikilli aukningu á rækjunni hafi verð þar lækkað, einmitt vegna þess að þar er framboðið mjög mikið. Þetta tel ég vera mjög rökrétta og skynsamlega ábendingu hjá skýrsluhöfundum að ytri aðstæður hafa þar mikil áhrif. Þá er líka vert að hafa í huga að stærsti hlutinn á hreyfingu aflaheimilda er í beinum viðskiptum. Það munu ekki vera nema um 25% sem fara fram í þessu svokallaða framsali og mest af stóru togurunum eins og hefur komið fram.

Hins vegar má lengi velta því fyrir sér, eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, hvort stóru togararnir fyrir norðan hafi fengið of miklar aflaheimildir. Þá verðum við að hafa í huga hvernig togararnir hafa nýtt sér þetta svigrúm, m.a. sem var í umræðu fyrr í dag að ná sér í aflareynslu á úthöfum, á fjarlægari miðum, bæði á rækjumiðum við Nýfundnaland, á Grænlandshafi og þannig má áfram telja. Síðan má benda á norsk-íslenska síldarstofninn og það má einmitt draga það fram að núna þegar verið er að kvótasetja í öllum höfum sem Íslendingar hafa stundað veiðar á, nýtist þessi aflareynsla okkur verulega, þegar verið er að úthluta kvóta til einstakra þjóða. Þetta hefur auðvitað allt saman mikla keðjuverkan, herra forseti.

[15:45]

Það er líka umhugsunarefni að þegar núna er verið að kvótasetja úthafsveiði okkar fara útgerðir, sem hafa lagt í mikinn fórnarkostnað sem hefur kannski oftar gengið upp en í stöku tilvikum hefur þetta kostað þær mikil útgjöld, að sjálfsögðu að hagræða og færa aflaheimildir á milli eigin skipa. Hugsanlega fara útgerðirnar sjálfar að nota aflaheimildir sínar til þess að sækja sjávarfang. Eins og hefur alltaf legið fyrir þegar búið er að kvótasetja á úthafsmiðum fara stærri útgerðirnar, sérstaklega togaraútgerðirnar norðanlands, að einbeita sér sjálfar að því að sækja kvóta sinn og geta skipulagt hann í rólegheitum, þurfa ekki að vera í kapphlaupi við að afla sér veiðireynslu. Þá mun það hafa mikil áhrif, ekki síst á Suðurnesjum. Þá er rétt að velta upp þeirri spurningu þar sem Suðurnesin eru mjög snar þáttur í saltfiskframleiðslu okkar Íslendinga og verð á saltfiskmörkuðum hefur farið mjög hækkandi á síðustu missirum og ýmis sölufyrirtæki þar verið í afskaplega mikilli markaðssókn víða um heim, hvaða áhrif það hefur þegar að því kemur að stærri útgerðir fyrir norðan draga úr framsali á aflaheimildum sínum. Eru þá saltfiskmarkaðir okkar í uppnámi? Það eru spurningar sem eðlilegt er að velta upp.

Herra forseti. Þar sem líður mjög á tímann ítreka ég það að ég tel að niðurstaða þessarar ágætu skýrslu sé sú að Kvótaþingið hafi ekki skilað því sem það átti að skila. Ég tel eðlilegt að hæstv. sjútvrh. beri þau boð sem hann lýsti í viðræðum við þá aðila sem hann er í viðræðum við, bæði talsmenn sjávarútvegssamtaka og ekki síður til þeirrar nefndar sem er að störfum því þetta er mikilvæg niðurstaða sem skýrslan greinir frá. Það hlýtur líka að vera niðurstaða að efla Verðlagsstofu skiptaverðs þannig að hægt sé að verða við þeirri smávægilegu gagnrýni sem kemur fram á hana, sérstaklega sé hægt að hraða upplýsingastreyminu og tryggja úrskurðarnefndinni að hún hafi þau tól sem hún þarf á að halda.

Að lokum, herra forseti, kemur spurningin um framsalið. Spurningin hlýtur alltaf að verða sú að þeim mun meira sem framsal er takmarkað, þeim mun minni möguleikar eru þá á að opna fyrir nýliðun, þeim mun minni möguleikar eru á því fyrir útgerðir að hagræða. Spurningin er sú hvort hálfkákið með 50% sé skynsamlegt, hvort menn eigi að stíga skrefið til fulls og banna það alveg eða opna það alveg upp á gátt og hafa nánast engar takmarkanir á framsalinu? Þetta hljóta að vera þau álitamál sem hæstv. sjútvrh. hlýtur að ræða við sitt ágæta nefndarfólk. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að hvorki ráðherra né Alþingi eigi að rjúka til á meðan nefndin er að störfum, ég er sammála hæstv. ráðherra um það. Það er að störfum þverpólitísk nefnd sem er að fara yfirvegað yfir þessi viðkvæmu og stóru mál í íslenskri pólitík og efnahagslífi okkar. Hún á einfaldlega að fá frið til þess en hins vegar hefur hún fengið, geri ég ráð fyrir, afskaplega þægilegt og gott gagn til áframhaldandi starfa.