Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 15:55:31 (5230)

2000-03-14 15:55:31# 125. lþ. 78.3 fundur 400. mál: #A Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks# skýrsl, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[15:55]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er einkum eitt atriði í ræðu hv. þm. Hjálmars Árnasonar sem ég vil gera athugasemd við. Hann leggur þann skilning í skýrsluna sem ég er honum ósammála um að á milli aðila, þ.e. sjómanna og útgerðarmanna, sé sátt um úrskurðarnefnd. Ég held að það sé alrangt. Ég held að ekki sé mikil sátt um úrskurðarnefndina eða þá niðurstöðu sem menn hafa fengið út úr verðum í úrskurðarnefndinni. Hins vegar eru lögin um úrskurðarnefnd þannig að mönnum er ansi þröngt stakkur sniðinn að ná þar lendingu í verði sem er eitthvað í námunda við það sem sjómenn telja ásættanlegt. Það verður að segjast alveg eins og er að ef úrskurðarnefnd ætti að fara að bæta hlutverk sitt þyrfti hún að geta tekið í miklu meira mæli, í raun og veru í mestu mæli, mið af markaðsverði hverju sinni og færa þá ákvarðanir sínar að markaðsverðinu en ekki fiskverði sem eru gjörsamlega úr takt við allt sem getur heitið að verð sé að myndast á frjálsum markaði við eðlileg samkeppnisskilyrði. Það er dálítið hlálegt og auðvitað hægt að nefna það að t.d. tvö skip sem eru að landa afla sínum, annað selur á hæsta verði og bæði eru á trollveiðum, að annað skipið er með 187 kr. meðalverð fyrir allt sl. ár og svo er hitt skipið, sem stundar trollveiðar líka, með 77 kr. meðalverð fyrir svipaða aflasamsetningu af því að það er í beinum viðskiptum. Þetta er gjörsamlega óásættanlegt og ef svona verðlag væri í einhverri verslun hér á landi bryti það algjörlega öll samkeppnisskilyrði.