Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 16:07:01 (5238)

2000-03-14 16:07:01# 125. lþ. 78.3 fundur 400. mál: #A Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks# skýrsl, KPál
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[16:07]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil segja að sú skýrsla sem liggur frammi lýsir að mínu áliti vel þeirri mynd sem komin er á þau lög sem samþykkt voru í hv. Alþingi vegna deilna milli sjómanna og útvegsmanna og voru samþykkt eftir samkomulag sem varð til þess að leysa þá deilu. Við vorum margir í þinginu sem efuðumst um að þessi breyting á lögum hefði einhver áhrif nema þá til hins verra, í besta falli skipti hún litlu máli. Og mér finnst, herra forseti, að skýrslan hafi einmitt sýnt að það sem menn töldu geta orðið verst úr þessu væri einmitt að koma í ljós. Það kemur nefnilega fram í þessari skýrslu, sem mér finnst mjög vel unnin og rökstudd, að svokallað Kvótaþing, sem mörgum fannst algjör óþarfi að innleiða hér og væri fyrst og fremst skriffinnskufyrirbæri sem torveldaði mönnum eðlileg viðskipti, þ.e. hér segir á bls. 2, með leyfi forseta:

,,Tilkoma Kvótaþings átti með öðrum orðum að gera útgerðum erfiðara við að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum. Þrátt fyrir það virðist margt benda til að þátttaka sjómanna í kvótakaupum sé enn til staðar.``

Þessi þráður sem var í umræðunni virðist í rauninni enn vera uppi þannig að Kvótaþingið sem slíkt virtist engu breyta hvað það varðar að sjómenn taka enn þátt í kvótakaupum þrátt fyrir að það ætti að leysa úr þeim vandamálum. Það kemur einnig fram annars staðar að Kvótaþingið hafi, ef það mætti túlka það svo --- það þarf reyndar gleggri upplýsingar til að átta sig á því --- en að því eru leiddar líkur að Kvótaþingið hafi jafnvel leitt til hækkunar á fiskverði á kvótamörkuðum.

Svo segir, með leyfi forseta:

,,Frá því starfsemi Kvótaþings hófst hefur verð á þorskaflamarki hækkað um meira en 20%.``

Reyndar er líka sagt að verð á mörkuðum erlendis hafi hækkað. En ég velti því fyrir mér hvort það verð hafi hækkað á eftir eða á undan. Var ekki verðið á mörkuðum erlendis að hækka til þess að mæta hækkuðu kvótaverði hér heima? Ég held að það sé einmitt málið, að vegna síhækkandi verðs hér heima á mörkuðum þá neyddust fiskkaupendur erlendis til þess að hækka sitt verð og ná til sín afla í vinnslu. Niðurstaðan er sennilega orðin sú að með þessum sífelldu hækkunum erum við að verðleggja okkur út af mörkuðum. Saltfiskmarkaðir í dag eru í hættu vegna þess að við höfum verðlagt saltfiskinn svo hátt að Norðmenn eru í raun að ná miklu meiri tökum á sölu saltfisks en við. Við erum að verðleggja okkur út af þessum mörkuðum. Það er ekki vegna þess að við séum ekki með góða vöru heldur erum við með allt of dýra vöru. Það er okkar mikla vandamál í dag hversu þessi þróun hefur dregið allt verð úr öllu samhengi.

Herra forseti. Þegar á allt er litið og þessi skýrsla skoðuð þá kemur einnig þar fram, eins og ég sagði áðan, að fyrirkomulag Kvótaþings leiðir þó til þess að ekki liggur fyrir milli hverra viðskipti eigi sér stað. Og þar stendur að það megi segja að það fyrirkomulag dragi úr sýnileika viðskipta, þ.e. ósýnileiki viðskipta sem hefur líka orðið til þess að menn átta sig ekki á því hvernig kaupin gerast. Það er því þrennt sem virðist hafa gerst við Kvótaþingið, að skriffinnskan hefur aukist, jafnvel hefur þorskaflahámarkið hækkað og síðan hafa viðskiptin orðið ógreinilegri og erfiðara að fylgja þeim. Niðurstaða skýrsluhöfundar finnst mér því vera ótvíræð, þ.e. að Kvótaþingið hafi mistekist alfarið. Ég held að ekkert annað sé eftir að gera en að viðurkenna það og að hæstv. sjútvrh. flytji frv. sem leggi Kvótaþing af.

Annar hluti þessarar skýrslu fjallar um það þegar veiðiskyldan var aukin um helming og breytt þannig að í dag þarf að veiða helming úthlutaðs afla hvers skips í stað 25% á hverju ári sem var þó flytjanlegt þannig að það mátti veiða helminginn annað hvert ár. Það hefur leitt til margháttaðra breytinga. Í fyrsta lagi hefur það leitt til þess að dregið hefur stórlega úr leigu sem eðlilegt má telja þannig að svæði eins og Suðurnes sem leigðu til sín upp í 19 þús. þorskígildistonn á einu ári eru að leigja til sín tæp 9 þús. í dag. Það hefur dregið um rúmlega helming úr þeim viðskiptum sem voru sem þýðir að sjálfsögðu að Suðurnesjamenn hafa fyrst og fremst þurft að blæða fyrir þessa breytingu. Þar hafa atvinnufyrirtæki dregist saman, sjómenn misst vinnu sína og síðan hefur þetta jafnvel líka komið út í erfiðleikum úti á landi þar sem fyrirtæki hafa haft þann möguleika að leigja frá sér aflaheimildir og getað hagrætt með því. En þau fyrirtæki hafa orðið að gera út öll sín skip árið um kring sem hefur um leið þýtt að mörg skip sem fram að því höfðu verið á veiðum á fjarlægum miðum urðu að snúa heim og veiða sinn kvóta sjálf. Það hefur því dregið úr veiðum á fjarlægum miðum og hagkvæmni og arðsemi þessara fyrirtækja hefur minnkað. Það er niðurstaðan.

[16:15]

Framsalið, herra forseti, hefur að mínu áliti verið vængir kvótakerfisins. Ef við gætum ekki heimilað útgerðarfyrirtækjum að framselja, leigja, hagræða og gera útgerðina eins hagkvæma og kostur er þá væri í rauninni ekkert gagn í kvótakerfinu. Við sjáum það mjög víða um landið að fiskvinnslufyrirtæki bæði stór og smá skila verri afkomu en áður. Við sjáum gjaldþrot fjölda fyrirtækja um allt land í fiskvinnslu og útgerð sem áður hafa sýnt góða afkomu. Við sjáum að litlar fiskvinnslur, svokölluð fjölskyldufyrirtæki þar sem nokkrir karlar vinna sérhæfðan afla, eru að gefast upp í dag. Það er nánast enginn fiskur á mörkuðum til leigu.

Ég vil taka fram, herra forseti, að hert veiðiskylda er ekki eina ástæðan. Margt annað hefur gerst í stjórn fiskveiða sem leitt hefur til þess að sá afli sem verið hefur á fiskmörkuðum hefur minnkað stórlega. Í dag er því afskaplega erfitt að ná í nokkurn fisk nema á svo háu verði að við það ráða ekki nema sterkustu fyrirtæki.

Aukningin á veiðiskyldunni hefur því haft skelfilegar afleiðingar. Sumir líta á þetta sem eitthvert réttlætismál að allir eigi að veiða sinn kvóta og þar með uppfylli menn einhverjar skyldur vegna þess að þeir hafi fengið úthlutun á sameign þjóðarinnar. Þetta er einhvers konar draumsýn í hugum manna varðandi kvóta. Auðvitað er eðlilegt að rauði þráðurinn í kringum þetta allt sé frelsi, frelsi til athafna til þess að ná hagkvæmni. Með frelsinu sem fylgdi framsalinu eins og það var hafði landsbyggðin það betra. Fyrirtækin úti á landi höfðu betri afkomu í því frjálsræði sem var heldur en í dag þegar búið er að njörva þetta niður þannig að það er illgerandi út á nokkurn skapaðan hlut nema á þessu svæði hér, suðvesturhorninu.

Ég held, herra forseti, að breyting á lögunum hvað varðar veiðiskyldu hafi verið algjör mistök og bráðnauðsynlegt sé að breyta því aftur, alla vega til fyrra horfs þannig að veiðiskyldan verði ekki meiri en 50% annað hvert ár. Ég held raunar að algjört frelsi ætti að ríkja hvað þetta varðar, það er það eina sem gæti komið sér vel fyrir þjóðarbúið í heild sinni. Ég held líka að það gæti komið sér vel fyrir landsbyggðina sem þarf svo sannarlega á því að halda að geta nýtt sér kvótakerfið til að styrkja byggð í landinu.

Mér finnst, herra forseti, að þetta mál eigi að fara fljótt í gegnum skoðun í þinginu og menn eigi að bregðast við þessari skýrslu. Ég er ekki að segja að öllu máli skipti hvort það verður á þessu ári eða eftir að sáttanefndin svokallaða hefur lokið störfum sínum. Ég get samt ekki séð annað en að með hverjum deginum sem líður séum við að draga máttinn úr þeim fyrirtækjum sem eru að berjast í fiskvinnslu vítt og breitt um landið vegna þess að þau hafa ekki fisk. Fiskurinn sem þeim býðst er svo dýr að það er ekki hægt að kaupa hann. Ég held að því fyrr sem við breytum þessum ákvæðum til fyrra horfs því betra verði það fyrir fiskvinnsluna, fyrir útgerðina og fyrir landsbyggðina.