Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 16:57:24 (5251)

2000-03-14 16:57:24# 125. lþ. 78.3 fundur 400. mál: #A Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks# skýrsl, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[16:57]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess í lok umræðunnar að undirstrika eða endurtaka í rauninni það sem hér hefur komið fram varðandi niðurstöðu skýrslunnar. Í máli hæstv. sjútvrh. kom fram að staða einstaklingsútgerðarinnar væri lakari en áður. Það var nákvæmlega það sem beðið var um að fylgst yrði með og kannað og að mati hæstv. ráðherra er þetta niðurstaðan.

Í öðru lagi finnst mér líka ástæða til að undirstrika það viðhorf hæstv. ráðherra sem hér kom fram þegar hann talar um að fyrst og fremst sé um að ræða deilur sem sjómenn og útvegsmenn þurfi að leysa sín í milli. Ég vænti þess, herra forseti, að það sé vísbending um að núv. hæstv. sjútvrh. muni þá síður en sá sem á undan var blanda sér með lagasetningu inn í þær deilur eða kjarasamninga sjómanna og útvegsmanna sem fram undan eru, en því miður, eins og hér hefur komið fram, hefur það gerst a.m.k. í þrjú undanfarin skipti.

Að lokum, herra forseti, vil ég spyrja eða leita álits hæstv. sjútvrh. á þeirri niðurstöðu höfundar skýrslunnar að Kvótaþing gæti verið gagnlegt sem viðskiptavettvangur fyrst og fremst í líkingu við Verðbréfaþing. Hvert er viðhorf hæstv. sjútvrh. til þeirrar niðurstöðu?