Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 16:59:17 (5252)

2000-03-14 16:59:17# 125. lþ. 78.3 fundur 400. mál: #A Kvótaþing, Verðlagsstofa skiptaverðs og takmörkun á flutningi aflamarks# skýrsl, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[16:59]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að mér sé alveg óhætt að fullyrða að viðhorf mín til þessa máls sem fyrst og fremst deilumáls sjómanna og útgerðarmanna eru í engu frábrugðin viðhorfum forvera míns til málsins og að þau inngrip sem stjórnvöld og hv. Alþingi hafa þurft að hafa í málið hafi verið honum þvert um geð en eigi að síður nauðsynleg eins og málum var komið á þeim tíma.

Varðandi spurninguna um gildi Kvótaþings á svipuðu formi og verðbréfamarkaðarnir eru hér hjá okkur í dag, þá er ég sannfærður um að það mundi hafa gildi út af fyrir sig og hugsanlega er það rétt hjá skýrsluhöfundi að hægt væri að ná sömu markmiðum á þann hátt. En ég held að rétt sé að ég eigi fyrst viðræður við hagsmunaaðilana um þetta áður en ég fer lengra út í það að tjá mig sérstaklega um niðurstöðurnar og við sjáum síðan hvað kemur út úr viðræðum útgerðarmanna og sjómanna á næstu mánuðum, en eins og við öll vitum eru samningar þeirra aðila lausir.