Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 17:15:01 (5255)

2000-03-14 17:15:01# 125. lþ. 78.4 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[17:15]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að taka aðeins þátt í umræðunni um 4. dagskrármálið, stjórn fiskveiða, 144. mál. Mikið hefur verið rætt um byggðakvóta og það er einmitt á þeim nótum sem mig langar til að segja örfá orð.

Það læðist að manni sá grunur að þetta háttalag með byggðakvóta upp á 1.500 tonn hafi alveg frá upphafi verið sýndarmennska ein. Á hverju eiga menn von? Það er verið að útdeila 1.500 tonnum víða um landið og sumir eru kannski að fá í sinn hlut innan við 100 tonn. Það er eins og ein lítil trilla getur veitt á einu ári. Hafi menn með þessari hugsun, að setja í byggðakvóta 1.500 tonn, viljað drepa hugmyndina um byggðakvóta þá tel ég að sú tala, 1.500 tonn, hafi verið í sjálfu sér ágætisaðferð því að frá byrjun var slíkt úthlutunarkerfi dauðadæmt.

Ef menn eru á hugmyndinni um byggðatengingu þá liggur í augum uppi að miklu meira magn þarf til byggðatengingar. Við höfum fyrir okkur dæmi þar sem byggðatenging kvóta --- að vísu ekki á þeim forsendum að viðkomandi byggðarlag hafi fengið úthlutað kvóta heldur vegna þess að það átti kvóta --- upp á 1.000 tonn hefur gefist ágætlega t.d. í Grenivík þar sem sveitarfélagið er í þeirri aðstöðu að eiga 1.000 tonna kvóta og hefur yfirburðastöðu til að semja við fyrirtæki, í þessu tilfelli hefur verið samið við ÚA, um að stunda útgerð og vinnslu á staðnum.

Ég tel í sambandi við þessa umræðu að þessi tilraun til byggðatengingar upp á 1.500 tonn hafi verið dauðadæmd, mislukkuð frá upphafi. Það vita allir að miklu meira hefði þurft.

Að stilla málunum síðan þannig upp að heimamenn fari að rífast um bitann er náttúrlega afleitt fyrirkomulag. Að etja saman byggðarlögum á þessum grunni upp á 1.500 tonn og úttala sig um það, eins og stjórnaraðilar hafa gert, að einhverjum kvóta hafi verið betur komið annars staðar, t.d. frá Grímsey til Hríseyjar, er vægast sagt hlægileg aðferð.

Vilji menn hafa byggðakvóta upp á að hlaupa til að leysa vandamál sem koma upp t.d. vegna gjaldþrota fyrirtækja í smærri byggðum eiga menn að hafa einhvers konar kvótapúkk upp á að hlaupa svo ekki þurfi að etja mönnum saman um hver hefði átt að fá hann. Ef við tökum stöðuna eins og hún var t.d. í Hrísey þegar þessi kvótaúthlutun fór fram var staðan í Hrísey ekkert öðruvísi en sú að þar lá ekkert á borðinu að þar yrði hætt veiðum og vinnslu á afla, þannig að Hrísey var ekkert inni í dæminu. Þetta upplegg með að Hríseyingar hefðu átt að fá eitthvað annað sem aðrir fengju er vísasta leiðin til að etja mönnum saman og skapa úlfúð.

Ég held að nauðsynlegt sé að þetta komi fram í umræðunni. Ég vil árétta að það er mín bjargfasta skoðun að við eigum að vera með byggðatengingu af einhverju tagi. En mér er alveg ljóst að það verður ekki 1 þús., 2 þús. eða 3 þús. tonn. Til að ná þeim markmiðum sem við viljum ná fram með byggðatengingu þarf þetta að vera miklu meira magn sem til ráðstöfunar er til þess að geta gripið inn í. Það er augljóst.

1.500 tonn í byggðakvóta er eins og að kasta einum litlum brjóstsykurspoka inn í afmælisveislu hjá hundrað börnum. Þannig er staðan í málinu. Og að nota dýrmætan tíma í að skilgreina síðan hvernig þetta hefur lagt sig, ég tel að þetta hafi allt saman verið fyrirséð. Það er enginn grunnur til að byggja á þó að menn fái um 50--120 tonn til hvers byggðarlags.

Virðulegi forseti. Ég vildi að þessi mál kæmu fram en það hefur nú verið rætt um þetta vítt og breitt reyndar líka. En ég tel að hafi menn í alvöru viljað einhvers konar tilraun með byggðakvóta hafi hún verið andvana fædd í raun og veru. Það er eiginlega alveg merkilegt að menn skuli ekki hafa í þessu sambandi litið til dæmisins á Grenivík. Það hefur verið farsælt, en byggir á miklu meira magni. Það byggir á grunni sem er fýsilegur til að stunda eðlileg viðskipti í þessari atvinnugrein.