Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 17:23:29 (5258)

2000-03-14 17:23:29# 125. lþ. 78.4 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[17:23]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. svaraði ekki spurningunni sem ég lagði fram. Hún var um hvort hann teldi að sú tillaga sem hér er til umræðu kæmi til greina til að úthluta byggðakvóta eða hvernig hann sér fyrir sér að þeir verði valdir úr sem fá að nýta byggðakvótann.

Ég get verið honum sammála um að 1.500 tonna byggðakvóti gerir nú ekki stórt til eða frá á landsvísu til að leysa þau vandamál sem eru uppi í atvinnumálum allt í kringum landið, fyrir nú utan það sem ég var að gagnrýna áðan, þ.e. hvernig staðið var að því að velja út með handafli þá sem fengju að koma að því að nýta þennan kvóta og er ekki hægt að hrópa húrra fyrir.

En ég bið hv. þm. að svara spurningu minni ef hann treystir sér til. Hvernig vill hann að staðið verði að því að velja þá sem eiga að fá að nýta þennan byggðakvóta? Er hann tilbúinn að lýsa því yfir að til þess eigi að liggja almennar reglur þannig að réttlæti og jafnræði komi til með að ráða því hverjir geti nýtt þann kvóta sem á að tengja byggðarlögunum? Eða telur hann að handvelja eigi þá sem eiga að fá að nýta hann?