Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 17:26:07 (5260)

2000-03-14 17:26:07# 125. lþ. 78.4 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[17:26]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér erum við reyndar að ræða mál sem hefur verið til lykta leitt að nokkru eða flestu leyti, þ.e. þann byggðakvóta sem var á ferðinni. Ég held hins vegar að okkur sé þarft að skiptast á skoðunum um hvernig að því var staðið.

Það er einfaldlega þannig að nýliðum er að mjög mörgu leyti lokuð leið inn í fiskveiðistjórnarkerfið. Og bráðabirgðaákvæði um byggðakvótann, sem er einungis plástur á núverandi kerfi, er til komið vegna þess að kvóti sem var í raun atvinnuréttur fólks í viðkomandi byggðarlögum var seldur í burtu og þar með var troðið á mannréttindum íbúanna. Það hefur valdið samdrætti í sjávarútvegi og erfiðleikum í mjög mörgum byggðarlögum.

Ef sú regla hefði verið mörkuð að þeir sem búsettir væru í sveitarfélaginu og hefðu stofnað til útgerðar og hefðu minni aflaheimildir en t.d. 50 tonna þorskígildi, fengju forgang þá væri í raun og veru verið að stuðla að því að nýliðum gæfist kostur á að koma undir sig fótunum. Það hefði að mínu viti verið áhugaverður flötur á þessum málum að setja þau þannig upp, að stýra aflaheimildunum og vera með stýrt útboð þannig að þeir sem í sveitarfélögunum byggju hefðu forgang að því að nálgast aflaheimildirnar.

Sveitarfélögin þurfa á því að halda að þar verði stuðlað að festu í sjávarbyggðum á nýjan leik og að festa þar kvóta sem er jafngildi atvinnuréttar. Markmiðið með bráðabirgðaákvæðinu er að gera íbúunum í sjávarplássum landsbyggðarinnar m.a. kleift að nýta áfram þá auðlind sem er grundvöllur byggðarinnar, þ.e. fiskimiðin úti fyrir ströndinni.

Leikreglur þurfa að mínu viti að vera þannig að dugmiklir menn geti hafið atvinnurekstur og náð árangri og atvinnulíf geti blómstrað á nýjan leik. Ákvæðið um byggðakvóta er eins og áður var sagt plástur á núverandi kerfi en ætti að leitast við að styrkja stöðu minni flotans í landinu og styrkja stöðu byggðarlaga sem hafa um langa hríð byggt atvinnu sína á sjávarafla.

Það liggur ljóst fyrir að kvótabrasksútboð þar sem þeir stóru hafa forgang er ekki það sem við í Frjálslynda flokknum teljum að við getum tekið undir. Við teljum að það verði að hafa þetta stýrt með einhverju móti, og við höfum sett það fram í vegvísi okkar að því hvernig hugsanlegt væri að útfæra strandveiðiflota þar sem réttur srandveiðanna tengdist í raun og veru rétti byggðanna og byggðarlagsins.

Ég held að í þessu dæmi um byggðakvótann, eins og honum var úthlutað, sé í rauninni áhugaverðast að mínu viti af því sem ég hef fylgst með að skoða það sem gert var á Borgarfirði eystra, en þar var nýliðum einmitt gefinn kostur á að koma inn í eða hafa séraðgang að hluta aflaheimildanna.

[17:30]

Hins vegar er erfitt að velja og þess vegna held ég að þegar réttinum er úthlutað með þessum hætti, sem ég ítreka enn og aftur að er í raun aðeins plástur á núverandi kerfi, þá verði það best gert með því að setja einhverjar stýrireglur þar sem heimamenn geta nálgast þessar aflaheimildir, t.d. með útboði. Í því þyrfti þó að vera einhver stýring. Ég held að aðferð án allrar stýringar gæti mistekist og orðið mjög umdeild.

Ég er ekki að mæla sérstaklega með þeirri aðferð sem byggðakvótanum var úthlutað eftir þó að ég viðurkenni það að hann hafi lagað ástandið á sumum þeim stöðum sem orðið hafa fyrir miklum skakkaföllum. Mínar hugmyndir ganga út á að strandveiðirétturinn verði skilgreindur, að strandveiðiflotinn skilgreindur og þar eigi byggðirnar ákveðna festu. Þetta er auðvitað meira en að segja það úr þessum ræðustól en við höfum alla vega reynt að lýsa því í grg. með þáltill., sem vonandi fæst rædd hér í dag, hvernig hugsanlega mætti nálgast svona markmið.

Það er einfaldlega þannig í þessu viðamikla máli, stjórn fiskveiða, sem auðvitað er eitt af stærstu byggða- og atvinnumálum þessa lands og trygging fólks í hinum dreifðu byggðum fyrir búsetu, að þar mun enginn einn geta skrifað sinn óska-lagatexta. Þar verðum við að finna skynsamlega sátt og gæta þess að uppfylla ákvæði stjórnarskrár um jafnræði og atvinnufrelsi og búa til útfærslu sem hentar fyrir okkur og hinar dreifðu sjávarbyggðir landsins. Í því sambandi verður stjórnkerfið að mínu viti ekki útfært eins fyrir tveggja tonna trillu, 10 tonna trillu, 20 tonna bát og 200 tonna skuttogara. Það er miklu meira og flóknara mál en að menn komist yfir það. Þess vegna höfum við lagt til að flotanum verði skipt upp.