Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 17:32:48 (5261)

2000-03-14 17:32:48# 125. lþ. 78.4 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[17:32]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það verður nú ekki sagt að umræðan um byggðakvóta sé alveg ný af nálinni í þingsölum né almennt í þjóðfélaginu. Ég geri ráð fyrir því að þessi umræða hafi á vissan hátt haft gott af því að í fyrsta skipti reyndi á hana í alvöru. Sannleikurinn er sá að menn leyfðu sér með upphrópunum í umræðum um byggðamál að tala fyrir hugmyndinni um byggðakvótann eins og það væri einfalt og mjög auðvelt mál. Látið var að því liggja að tiltölulega lítið mál væri að úthluta byggðakvóta án þess að reynt hafi verið að skilgreina hvað það þýddi í raun og veru. Þess vegna held ég að á vissan hátt höfum við fengið dálitla áminningu um að þegar við erum að fjalla um þessi mál þá þurfi að skoða þau alveg ofan í kjölinn.

Nú hafa menn allt í einu komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekkert vandamál með byggðakvótann ef menn hafi bara nógu mikið af honum, að menn yrðu harla ánægðir í þessum byggðum ef það væru ekki 1.500 tonn sem menn væru að togast á um heldur 30 þús. tonn, 50 þús. tonn eða 100 þús. tonn. Þá yrðu menn óskaplega ánægðir. Það er eins og að segja að aðalvandamálið í sögunni af silfri Egils hafi verið að ekki hafi verið nógu mikið af silfri að dreifa um velli Alþingis á Þingvöllum, að mistökin í hugmynd Egils Skallagrímssonar hafi verið að hann hafi ekki haft nægilega digra poka undir silfrið sitt áður en hann hugði að því að dreifa því út.

Það er auðvitað ekki þannig. Sannleikurinn er sá að við erum hér að fjalla um byggðakvótahugmynd sem felur almennt í sér að reyna að dreifa út verðmætum, réttinum til að veiða fiskinn. Það eru auðvitað verðmæti. Það er augljóst að þegar að því kemur að útdeila þeim réttindum þá verða átök. Sú niðurstaða sem Alþingi komst að með lögunum við endurskoðunina síðast, þegar byggðakvótinn varð til upp á 1.500 tonn, fól það í sér að við ætluðum að dreifa þessum aflaheimildum með öðrum hætti en gert var á grundvelli fiskveiðistjórnarlaganna sem byggja á því að dreifa aflaheimildum á grundvelli þeirrar veiðireynslu sem varð til á árunum 1981 og 1983 og mjög margir gagnrýna a.m.k. um þessar mundir fyrir að sé óeðlileg og óréttmætt.

Ég vil aðeins minna á það að fyrr í dag voru hér heilmiklar umræður um hvernig ætti að fara með norsk-íslenska síldarstofninn. Þar var líka uppi ágreiningur. Þar var ekki verið að leggja til einhverjar byggðakvótaútfærslur. Þar voru til umræðu aðrar útfærslur og átökin eru auðvitað um hverjir eigi að njóta réttarins til að veiða fiskinn.

Ég sit í stjórn Byggðastofnunar og fékk það eftirsóknarverða hlutverk, ef svo mætti segja, að reyna að úthluta þessum 1.500 tonnum. Eitt af því sem kom mér hvað mest á óvart í þeirri vinnu var hve lítið var hægt að styðjast við kvótaþróunina í einstökum byggðarlögum. Fyrir fram hefði maður getað ímyndað sér að úthlutun byggðakvóta færi þannig fram að sá sem hefði misst mest af aflaheimildum á einhverju árabili, sem menn kæmu sér saman um, fengi mestan byggðakvóta o.s.frv. En þannig var það ekki.

Færu menn að skoða einstök byggðarlög þá gátu komið upp dæmi um byggðarlag sem ekki naut neins í aflaheimildum. Þar var kannski skráður myndarlegur togari eða skip með heilmiklar aflaheimildir og í þessu fína módeli liti það býsna vel út, menn hefðu þá kannski aukið kvótann sinn á þeim ágæta stað. En þegar betur var skoðað af almennri skynsemi og gáð á bak við tölurnar kom í ljós að þetta var kannski skip, skráð þar með kurt og pí en aflaheimildirnar voru síðan nýttar með allt öðrum hætti. Síðan gátum við líka horft upp á allt aðra hluti, þar sem aflaheimildir voru nýttar með þveröfugum hætti. Við gátum séð alls konar útfærslur í þessum efnum.

Niðurstaðan varð sú að reyna að nota fimm breytur, eins og það kallast á stærðfræðimálinu, til að komast að því hvar skynsamlegast væri að dreifa aflaheimildunum. Niðurstaðan varð sú að skynsamlegast væri að gera það eins og stofnunin lagði síðan til, ekki með handvali, eins og hv. 3. þm. Vesturl. sagði hér áðan, þar sem endalaust er hægt að reka sig á álitamálin heldur reyna að búa til almenna reglu. Í þeirri reglu fólst að líta á þróun aflaheimilda, þróun ársverka bæði meðal sjómanna og fiskverkunarfólks, tekjur í byggðalaginu og eitthvað var það nú fleira.

Þetta allt saman leiddi til úthlutunarinnar sem menn eru hér að ræða um og gagnrýna. Ég fullyrði að það sé nákvæmlega sama að hvaða niðurstöðu menn hefðu komist, menn hefðu alltaf gagnrýnt þetta vegna þess að hér er verið að færa til réttinn til fiskveiða með tilteknum hætti.

Það frv. sem hér er til umræðu mundi líka kalla á einhvers konar andsvör að því leyti að menn gætu sagt það á einhvern hátt í andstöðu við önnur markmið. A.m.k. varð það niðurstaða stjórnar Byggðastofnunar að ekki væri hægt að úthluta byggðakvótanum eins og t.d. bæjarstjórn Vesturbyggðar lagði til, þ.e. ekki á grundvelli þeirra laga sem menn störfuðu eftir. Það var niðurstaða Byggðastofnunar, embættismanna og stjórnar, á sínum tíma.

Menn hafa gagnrýnt það að þetta sé úthlutun til lengri tíma. Auðvitað má alltaf deila um það líka. Það má líka deila um til hve langs tíma menn ættu að úthluta aflaheimildum af þessu tagi. Eitt markmiðið sem menn settu sér þó í stjórn Byggðastofnunar var að reyna að úthluta byggðakvótanum þannig að það skilaði varanlegum árangri. Það hefði verið mjög lítið gagn í því að koma kannski einu eða tveimur árum á eftir og segja: Nú þurfum við að halda áfram og gera eitthvað annað.

Hugsunin í því að úthluta þessu til lengri tíma var auðvitað að reyna að koma fótunum almennilega undir atvinnulífið á þeim stöðum sem nutu byggðakvótans. Það var hugsunin á bak við þetta. Þess vegna var ákveðið að reyna að úthluta til lengri tíma vegna þess að við vitum öll að ef reyna á að byggja upp atvinnulíf á tilteknum stað þá verður það ekki gert með því að tjalda til einnar nætur. Menn verða að reyna að taka höndum saman um að skipuleggja atvinnulífið til lengri tíma og eftir því sem hægt var að úthluta þessum kvótum til lengri tíma þeim mun líklegra var að hægt væri að fá aðila að verkinu sem vildu hætta fé sínu og veiðiréttindum í að byggja upp atvinnulífið.

Auðvitað mun þetta verða með ýmsu móti. Sums staðar held ég að þetta muni takast ágætlega, annars staðar verðu það væntanlega miður eins og gengur. Þó held ég að þegar við skoðum þetta í heild sinni, af þeim tölum sem ég sá á sínum tíma og held að ég muni rétt, þá sé niðurstaða þeirra sérfræðinga sem Byggðastofnun fól að fara ofan í málið sú að í þessum plássum verði til ráðstöfunar, í stað þessara 1.500 tonna sem byggðakvótinn felur í sér, um 5.000 tonn. Ég held að ég muni þetta alveg rétt, að það séu um 5.000 tonn. Þetta er misjafnlega mikið eftir sveitarfélögum og einstökum stöðum en svona held ég að meðaltalið hafi nú engu að síður verið.

Hér áðan var nefnd Grenivík. Það er alveg rétt að Grenivík er að því leyti vel sett að þar er fiskvinnslan hluti af fiskvinnslu Útgerðarfélags Akureyringa. Ég er alveg sammála því og það er mjög góður kostur að vera í góðu samstarfi við jafnábyggilegt og gott fyrirtæki og Útgerðarfélag Akureyringa er. Það var bent á að Grenivík ætti kvótann, ég þekki það ekki, en Grenivík vistar þennan kvóta væntanlega á einu af skipum Útgerðarfélags Akureyringa. Svo er einnig með fyrirtæki sem umdeilt hefur verið, útgerðarfyrirtækið Fjölni á Þingeyri sem á kvóta og vistar hann á skipi eins af eignaraðilunum sem skráð er suður í Grindavík. Þau skip veiða síðan kvótann, landa honum til vinnslu á Þingeyri sem veldur ákveðnum margfeldisáhrifum í vinnslunni. Þó er sannarlega rétt að það kemur ekki til góða fyrir útgerðirnar á viðkomandi stað.

Virðulegi forseti. Af því að ég á nú að heita innanbúðarmaður í Byggðastofnun sem unnið hefur að þessum málum vildi ég aðeins varpa ljósi á bakgrunn þessarar vinnu. Ég tel sjálfur að byggðakvótinn eigi fyrst og fremst að vera úrræði til að bregðast við þegar vanda ber að höndum. Ég tel sjálfur að eðlilegra sé að reyna að styðja við bakið á byggðunum í landinu með öðrum hætti í grundvallaratriðum. Ég hef ekkert verið að úttala mig um hvort þessi kvóti eigi að vera 1.500 tonn, 3.000 eða 5.000 tonn. Einhverjar slíkar tölur hef ég þó getað ímyndað mér.

Að öðru leyti tel ég að fyrst og fremst eigi að reyna að styrkja byggðir landsins með því að hafa skipulag fiskveiðistjórnarinnar þannig að það sé sem hagkvæmast fyrir byggðirnar, sé líklegt til að tryggja stöðu minni byggðarlaga þannig að þau haldi áfram að spjara sig í samkeppnisumhverfinu og reyni að gera sem mest og best úr þeim möguleikum sem þau hafa. Auðvitað er það engum til góða að löggjöfin sé þannig að menn reyni ekki að gera sem mest og best úr þeim heimildum sem þeir hafa. Í þessum efnum eins og öðrum verða menn að standa sig í sínum rekstri. Þess vegna held ég að mikilvægt sé að fiskveiðistjórnarlöggjöfin sé hugsuð þannig í grundvallaratriðum að hún feli í sér hvata til samkeppni, til þess að menn standi sig vel og beri ábyrgð á rekstri sínum.