Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 17:44:09 (5262)

2000-03-14 17:44:09# 125. lþ. 78.4 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[17:44]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég efast ekkert um að stjórn Byggðastofnunar gerði heiðarlega tilraun til þess að gera eitthvað úr þessum byggðakvóta og búa til úr honum sem mest verðmæti fyrir þau byggðarlög sem fengu hann. Ég þræti ekki um það við hv. þm. að reynt hafi verið að hafa þær reglur almennar sem Byggðastofnun útbjó og urðu grundvöllur að valinu. Ég var ekki að halda öðru fram.

[17:45]

Það sem ég var að segja var það að ég vildi að almennar reglur réðu því hverjir fengju að nýta veiðiheimildirnar í byggðarlögunum. Það var ekki gert og býsna langt frá því að það væri gert. Þar kom handvalið til og þar komu töfrabrögðin og kraftaverkin til. Það er sérkennilegt í sjálfu sér að aðalkraftaverkamaðurinn skuli hafa verið starfsmaður þess fyrirtækis sem hlaut þrjú af fimm verkefnum í þessu sambandi. En það er önnur saga. Ég er að gagnrýna hvernig þeir voru valdir sem fengu að nýta sér veiðiheimildirnar. Ég tel að þar hefðu átt að vera almennar reglur.

Ég segi eins og er og mér þætti vænt um ef hv. þm. mundi svara því hvort hann teldi að þær reglur sem voru notaðar af Byggðastofnun í þessu tilfelli væru brúklegar og góðar ef tillaga hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar um þriðjung kvótans til byggðarlaganna yrði að veruleika og hvort hann mundi feginn taka við því hlutverki að skipta byggðakvótanum eftir þessum reglum ef hann yrði kominn í þær hæðir sem hv. þm. Kristinn Gunnarsson er að leggja til.