Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 17:46:14 (5263)

2000-03-14 17:46:14# 125. lþ. 78.4 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[17:46]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þm. að þær útgerðir hafi verið valdar með einhverju handvali sem falið var að veiða þennan kvóta. Það var gert á grundvelli laganna. Lögin voru alveg skýr að því leytinu að gert var ráð fyrir því að stjórn Byggðastofnunar sæi um úthlutunina að höfðu samráði við sveitarstjórnirnar og það var gert. Ég held að í öllum tilvikum nema þessu eina undantekningartilviki í Vesturbyggð hafi úthlutunin farið fram í samræmi við álit sveitarstjórnanna.

Það var hins vegar líka gert þannig að ráðnir voru sérfræðingar, bæði innan og utan stofnunarinnar og á vegum atvinnuþróunarfélaga, til að fara yfir og skoða hvað væri að þeirra mati líklegustu útfærslurnar til að margfeldisáhrifin af kvótanum yrðu sem mest því það er alveg rétt að 1.500 tonna kvóti einn og sér var ekki líklegur til þess að rétta þessi byggðarlög úr kútnum. Þess vegna var líka reynt að finna þær leiðir sem væru líklegastar til að tryggja sem mest margfeldisáhrif. Þessir sérfræðingar komu að störfum með sveitarstjórnunum í langflestum tilvikum.

Ég fór yfir það áðan að það hefði verið niðurstaða stjórnarinnar og stofnunarinnar að ekki væri heimild til að úthluta með þeim hætti sem bæjarstjórn Vesturbyggðar lagði til

Hv. þm. spurði mig líka hvort ég teldi þetta góða reglu fyrir því ef úthlutað væri miklu meira í byggðakvótanum. Ég er ekki tilbúin til að svara því. Þetta var niðurstaða stofnunarinnar á sínum tíma í ljósi þess að menn væru að úthluta 1.500 tonnum og ég get vel ímyndað mér að ef það væri niðurstaðan að Byggðastofnun eða einhver annar aðili færi að úthluta meiri aflaheimildum þyrfti að viðhafa önnur vinnubrögð. Þau voru einfaldlega miðuð við það umfang sem um var að ræða.