Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 18:15:59 (5271)

2000-03-14 18:15:59# 125. lþ. 78.4 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[18:15]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Menn sjá ekki framtíðina núna í þessu kerfi, sagði hv. þm. áðan. Um hvaða kerfi er verið að tala? Það er kerfið sem hann er að verja. Það er ekki komið neitt nýtt kerfi á, það er ekkert kerfi Samfylkingarinnar eða Frjálslynda flokksins komið á. Það er kerfi hv. þm. sem er í gangi --- og menn sjá ekki framtíðina.

Mér finnst að þeir hv. þm. sem ætla að verja þetta kvótakerfi og hafa gert það fram að þessu þyrftu að fara að temja sér pínulítið meiri hógværð. Þetta hefur ekki tekist svona vel, þetta er ekki svona gott kerfi. Og þegar menn þurfa nú að fara að leggja niður og mæla á móti því að hægt sé að taka sér í munn orðin jafnrétti og jafnræði eru menn ekki að verja gott kerfi mundi ég segja.

Ég tel að hv. þm. stjórnarflokkanna þurfi að skoða sig vandlega um í þessu máli öllu saman. Og Grímseyingurinn við stýrishjólið er á fleiri stöðum en í Grímsey þar sem menn hafa ekki fengið tækifæri til þess að vinna undir því kerfi sem hv. þm. er að verja.