Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 18:21:25 (5276)

2000-03-14 18:21:25# 125. lþ. 78.4 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[18:21]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Umræðan um það frv. sem hér er á dagskrá hefur snúist mest um byggðakvóta og annað þess háttar og úthlutunarreglur hvað varðar bráðabirgðaákvæðið sem sett var inn á fyrri hluta árs 1999 þess efnis að Byggðastofnun hafi til og með fiskveiðiárinu 2005--2006 árlega til ráðstöfunar 1.500 þorskígildislestir. Ég vek athygli á því að þetta er bráðabirgðaákvæði sem sett var inn og ef ég man rétt var þetta hálfgerð dúsa upp í einhverja þingmenn þáverandi stjórnarflokka sem voru að andmæla breytingum á kvótakerfinu á þeim tíma. Þetta var sett inn til þess að styðja byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og vegna þess að aflaheimildir hafa horfið í burtu eða vinnslan flust út á sjó eins og svo mikið hefur verið gert af.

Síðan hafa orðið töluvert miklar deilur um þær 1.500 þorskígildislestir sem þarna var ráðstafað. Mér finnst oft koma fram í umræðum manna að þetta sé dæmi um að byggðakvóti komi alls ekki til greina. Ég vil geta þess í upphafi að ég er hlynntur hugmynd um byggðakvóta og tel að byggðakvóti eigi að vera hluti af fiskveiðistjórnarkerfinu okkar og þess kerfis að einhver ákveðinn hluti sé til ráðstöfunar til hinna dreifðu byggða ef þær vilja nýta sér það og ef þær hafa einhverja reynslu frá árum áður af því að þar hafi verið unninn mikill afli í landi.

Vafalaust hefur þessi fiskveiðistjórn, sem sett var til að vernda þorskana í sjónum á sínum tíma sem voru orðnir allt of fáir, snúist upp í allt annað. Þessi fiskveiðistjórnun og lög sem sett hafa verið á hinu háa Alþingi hafa orðið þess valdandi að stór hluti byggðaröskunar í landinu er til kominn vegna þessa. Og af því að svo mörg byggðarlög hafa byggst upp eingöngu í kringum þetta verður slíkri byggð ekki öðruvísi við haldið en að þar verði áfram unninn afli.

Nú er ég ekkert endilega að segja að það þurfi að vera svo um aldur og ævi, því miður. Það er ekkert víst að nýliðun í fiskvinnslu, ef svo má að orði komast, verði svo ör að á öllum stöðum verði áfram unninn afli. En í dag er það þannig og verður að bregðast við því á þennan hátt.

Í ræðu hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar, sem á sæti í Byggðastofnun, kom fram hvernig breytur voru búnar til til að úthluta þessum fáu tonnum, og að það var m.a. tekið inn í kvótaþróun. Það er verst að hv. þm. er ekki hér inni, en það geta kannski aðrir komið hér á eftir og skýrt frá því hvort vinnsluþróun hafi ekki hafi verið tekin inn í þetta og hvort ekki hefði verið full ástæða til að vinnsluþróunin hefði meira vægi en kvótaþróun. Sem betur fer er á mörgum stöðum landsins mikill kvóti og hefur hann verið að aukast, en vinnslan fer mest fram í frystiskipum sem ég ætla alls ekkert að gera lítið úr að er mjög arðbær atvinnugrein og hefur sýnt sig að gefur góðan arð. En vinnsluþróunina hefði að sjálfsögðu þurft að taka miklu meira með í reikninginn.

Ég get nefnt sem dæmi að lítill staður sem Hofsós heitir fékk 114 tonn af þessum 1.500. Þessum 114 tonnum var ráðstafað þannig að þeim var skipt yfir í ufsa sem fiskvinnslan í Hofsósi hefur verið að sérhæfa sig í og út úr því fengust milli 450 og 500 tonn sem fer langleiðina í að vera nægjanlegt fyrir þessa fiskvinnslu í eina fimm til sex mánuði. Ef þessi kvóti hefði verið tvöfaldaður eða þrefaldaður, í 300--350 tonn, og kostir kvótakerfisins nýttir við að breyta þessu yfir í ufsa, semja við togara í sama byggðarlagi um að veiða þetta, þá væri atvinnuþörf í frystihúsi þessa byggðarlags fullnægt allt árið hvað þetta varðar fyrir þá sem vilja vinna við þetta. Meira þarf ekki til.

Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson hefur lýst því hvernig Grenivík hefur farið með sinn kvóta og gert gott úr honum. Er þetta ekki einmitt dæmi um það hvað hægt er að gera með slíkum kvóta ef rétt er staðið að málum og ef þær leikreglur eru vel fram settar um hvernig vinna skuli úr þessu?

Ég man þegar ég var bæjarfulltrúi á árum áður að með mér sat einu sinni í bæjarstjórn aðili sem var stórútgerðarmaður og rak fyrirtæki sitt með öðrum af miklum myndarbrag. Þetta fyrirtæki heitir Siglfirðingur hf. svo ekki fari á milli mála hvaða bæjarfulltrúi það var vegna þess að þeir voru fleiri frá útgerðarfyrirtækjum bæjarins þarna. Ég minnist einnar tillögu sem hann lagði einu sinni fram við gerð fjárhags\-áætlunar þar sem hann lagði til að öllum framkvæmdum yrði frestað í nokkur ár og allir peningar notaðir til þess að kaupa kvóta. Þetta var mjög athyglisverð tillaga, en því miður var ekki farið að henni.

Ég sagði áðan að byggðakvóti og vinnsla sjávarfangs væri grundvöllur að mörgum byggðarlögum og við sjáum að þetta er stærsti hlutinn að mínu mati í þeirri miklu byggðaröskun sem hefur átt sér stað í landinu þó að það sé að sjálfsögðu ekki eina ástæðan, það eru margar aðrar ástæður. En af því að við erum að ræða þetta tiltekna svið vildi ég að þetta kæmi fram.

Sennilega væri betur statt í ýmsum byggðarlögum landsins vítt og breitt úti um landsbyggðina ef þessi kvóti hefði verið töluvert meiri til að deila út. Ég er ansi hræddur um að í kjördæmi hv. þm. Halldórs Blöndals, 1. þm. Norðurl. e., sem hér talaði áðan, væri andrúmsloftið og mórallinn í Ólafsfirði, svo við tökum dæmi, betri ef hægt hefði verið að úthluta einhverjum byggðakvóta til vinnslu í landi og skapa vinnu fyrir þann fjölda fólks sem gengur atvinnulaust þar og hefur ekkert að gera eftir að fiskverkun sem þar var á staðnum hætti starfsemi. Og nefna mætti marga fleiri staði hringinn í kringum landið.

Það kom líka fram áðan að það sem menn finna byggðakvótanum mest til foráttu er að hann verði tekinn af einhverjum öðrum. Það er sennilega rétt að þessi 1.500 tonn hafi verið tekin af einhverjum öðrum ef þetta hefur ekki verið viðbót. En ég spyr: Ef hægt er að auka þorskafla í kvótakerfinu, er það þá endilega tekið af einhverjum öðrum þó að einhver lítill hluti af honum sé tekinn og eyrnamerktur sem byggðakvóti þar sem jafnvel fyrirtækin á viðkomandi stöðum geta fengið hluta af honum og landað, en það verði eingöngu skilið sem svo að honum verði landað þar til vinnslu? Er það þá tekið af einhverjum öðrum ef jafnvel sá hinn sami fær einhvern hluta af því eða tekið af því sem bætist við viðkomandi kvótapott?

[18:30]

Ég segi alveg eins og er að því miður kemur það oft þannig fram að menn vilji alls ekki skoða neitt í þessu sambandi, byggðakvóta og tengja það byggðunum og vinnslu í landi enda er það svo að í till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árið 1998--2001 er fjallað um hina ýmsu og mörgu góðu þætti eins og efla byggðir sem hafa átt í miklum erfiðleikum vegna samdráttar í sauðfjárbúskap. Það er talað mikið um nýsköpun í atvinnulífi og allt það, menntun, þekkingu og jöfnun lífskjara. En hvergi í byggðaáætluninni er fjallað um fiskvinnslu, sérstaklega fiskvinnslu í hinum dreifðu byggðum landsins. Í þessari till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998--2001 er ekki stafkrókur um fiskvinnslu, ekki stafkrókur og það er alveg sérstakt mál og sérstakur kapítuli út af fyrir sig. Þó svo fjarvinnsla og tölvuvinnsla og allt það sé mjög gott held ég að atvinnuþátttöku fólks á landsbyggðinni, í hinum dreifðu byggðum, verði ekki fullnægt eingöngu með því að allir fari að setjast við einhverjar tölvur og slá inn einhver gögn eða hringja eftir kl. 5 þegar fólk er komið heim til að selja einhverjar bækur. Það er ekki nútímaleg byggðastefna. Hún getur verið ágæt sem hliðarbúgrein en eftir sem áður hlýtur fiskvinnsla á þessum stöðum, sem þeir byggðust upp á, að verða aðalatriðið og það sem þessir staðir verða að byggjast á. Þess vegna er ég hjartanlega sammála hv. 3. þm. Vestf., Kristni H. Gunnarssyni, og formanni þingflokks Sjálfstfl., stjórnarformanni Byggðastofnunar. (KHG: Framsfl.) Framsfl. Sagði ég Alþb.? Nei, ég trúi því ekki að ég sé enn þá að tala um Kristin sem alþýðubandalagsmann. (KHG: Þú sagðir Sjálfstfl.) Ja, það er kannski lítill munur á orðinn, því miður, og kannski tímanna tákn ef maður ruglast úr ræðustól Alþingis á Framsfl. og Sjálfstfl. En ég er svo hjartanlega sammála þeim hv. þm. sem hefur látið það koma fram sem skoðun sína og sem innlegg í fiskveiðistjórnarmál og byggðaumræðu að byggðakvótahugmyndina skuli skoða sérstaklega og gefa miklu meiri gaum en gert hefur verið hingað til. En ég er ekki alveg viss um að samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn sé á sömu skoðun, a.m.k. ekki miðað við þær ræður sem hafa verið fluttar af sjávarútvegsspekúlöntum Sjálfstfl. og sérfræðingum. En það verður gott til þess að vita, af því að ég veit að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er á mælendaskrá á eftir, að heyra útlistanir hans á athyglisverðri framsetningu og hugmyndum hans um byggðakvótann og hvað hann eigi að vera mikill.

Ég hef sjálfur myndað mér skoðanir á því hver hann þarf að vera. En 1.500 tonn eru ekki neitt. Það er, eins og hér hefur komið fram, eins og að koma með eina 8 tommu pitsu eða eitthvað slíkt í 20--30 manna barnaafmæli. Ég geri lítið úr því. En ég kalla á eftir því, herra forseti, að heyra á eftir útlistanir þingflokksformanns Framsfl. á byggðakvótahugmyndum hans sem hann hefur sett fram.