Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 18:36:54 (5278)

2000-03-14 18:36:54# 125. lþ. 78.4 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[18:36]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Aðeins vegna ummæla hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar um byggðakvótann og það sem hann var að spyrja mig um. Ég held að skoðanir okkar séu mjög svipaðar á þessum málum hvað varðar áhyggjur af stöðu landsbyggðarinnar og stöðu hinna dreifðu byggða. Við komum af svipuðu svæði. Hér hefur borið á góma að t.d. stóru og öflugu fyrirtækin á Siglufirði og Ólafsfirði, Þormóður rammi -- Sæberg, eru auðvitað að gera mjög góða hluti, bæði í kvótakerfinu og í atvinnumálum eins og þar er, en þar hefur fiskvinnslan farið út á sjó og er ekki lengur í landi vegna þess að hún er vafalaust miklu hagkvæmari. Það er svo annar þáttur sem við getum ekki rætt hér nú, en það er um mismun milli landsvinnslu og svo aftur vinnslu á frystitogurum.

Nákvæmlega sama má segja um Akureyri og Samherja. Þar er þetta mikla og öfluga fyrirtæki sem hefur tekið þátt í kvótakerfinu af miklum myndarskap, fengið sér miklar veiðiheimildir og allt það. Við vitum þó ekki hvort því er þannig farið á Akureyri þar sem vafalaust er mikil fiskvinnsla hjá útgerðarfélaginu. Samt sem áður, og það kom fram áðan hjá hv. þm., er ótti fólks á hinum minni stöðum við að kvótinn annaðhvort fari eða geti farið í burtu og landvinnsla leggist af. Þetta er höfuðmálið og auðvitað er ég alveg sammála hv. þm. sem hér talaði um áhyggjur sínar af þessu. Við deilum þeim skoðunum saman.