Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 19:03:30 (5283)

2000-03-14 19:03:30# 125. lþ. 78.4 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[19:03]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að óbreytt kerfi í fiskveiðum getur ekki gengið og að endurskoða beri lögin. Ég vona að hv. þm. í krafti stöðu sinnar innan þingflokks síns og í sjútvn. geti beitt sér fyrir því.

Mig langar hins vegar að fjalla um ákveðið atriði, herra forseti. Við ákvörðun um úthlutun á 1.500 tonnum af byggðatengdum kvóta var gert ráð fyrir að endurskoða mætti það árlega. Þarna er úthlutað til fimm ára og ekki mikið magn til úthlutunar, ekki nema 1.500 tonn. Ég vil heyra það hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni hvort honum finnist þetta vera eitthvert magn til að tala um eða hvort hann vilji beita sér fyrir að það verði aukið.

Í öðru lagi: Hvernig er gert ráð fyrir að farið verði með heimildir til að endurskoða forsendur úthlutunar? Mun ákvörðunin um úthlutun þessa byggðakvóta verða tekin til endurskoðunar í haust eins og heimild er fyrir?