Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 19:06:58 (5286)

2000-03-14 19:06:58# 125. lþ. 78.4 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[19:06]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Í afgreiðslu Byggðastofnunar er gert ráð fyrir því að úthlutunin sé að jafnaði til fimm ára. Jafnvel þó að upp komi vandamál í öðrum byggðarlögum eftir að sú úthlutun fer fram leiðir það nýja vandamál ekki til þess að byggðakvótinn verði tekinn af þeim sem áður hafa fengið, ef forsendur þar eru að öðru leyti eins og þær voru þegar úthlutun fór fram.

Það að í lögunum stendur að árlega skuli endurskoða úthlutunina er einfaldlega vegna þess að hér er ekki um að ræða úthlutun á aflahlutdeild heldur aflamarki. Þess vegna var sett inn í lögin það orðalag að um árlega úthlutun væri að ræða. Ekki vildum við sem lögðum þetta til að úthlutað væri aflahlutdeild sem auðvitað er allt annar hlutur en aflamark.