Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 19:09:13 (5288)

2000-03-14 19:09:13# 125. lþ. 78.4 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[19:09]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það má segja að hér sé um tvennt að ræða. Annars vegar þann byggðakvóta sem er að finna í lögunum. Það er svona viðurlagaákvæði. Það er kvóti sem ætlaður er til að bregðast við vanda sem upp kemur þannig að stjórnvöld hafi einhver úrræði til að grípa.

Síðan er annað sem menn kalla líka byggðakvóta. Þær hugmyndir hef ég sett fram í almennu máli um breytingar á núverandi kerfi. Þar er ekki um að ræða sértækan byggðakvóta heldur almennar aðgerðir. Ég horfi á málið þannig að það varði ekki útgerðarmenn eina. Það varðar einnig áhafnir skipa og fólkið í landi. Því er ekki eðlilegt að útvegsmaðurinn einn hafi á hendi sinni ákvörðun um framsal og megi framselja hverjum sem er, hvenær sem er, hvert sem er.