Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 19:11:26 (5290)

2000-03-14 19:11:26# 125. lþ. 78.4 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[19:11]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nauðsynlegt að í lögum um stjórn veiða, eins og við búum við í dag, sé þannig frá gengið að þau stuðli að og styrki atvinnustarfsemi á stöðunum sem lifa af sjávarútvegi. Leikreglurnar mega ekki vera á þá lund að þeir sem lifa og hrærast í þessu umhverfi, hafa atvinnu sína af því og hafa bundið eignir sínar í slíkri atvinnustarfsemi séu algerlega settir hjá og fái ekki að hafa nokkur áhrif á framvindu mála. Það eru auðvitað óviðunandi leikreglur.

Við hljótum því að leitast við að breyta þeim á þá lund að lögin tryggi stöðu þeirra sem eru í atvinnugreininni, ekki bara útvegsmanna heldur líka þeirra sem sinna þar öðrum störfum.