Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 14. mars 2000, kl. 19:16:26 (5294)

2000-03-14 19:16:26# 125. lþ. 78.4 fundur 144. mál: #A stjórn fiskveiða# (aflaheimildir Byggðastofnunar) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 125. lþ.

[19:16]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Engu urðum við nær um hugmyndir Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um byggðatengda fiskveiðistjórn. En ég vil nefna eina hugmynd sem menn hafa dregið upp í þessari umræðu og er ættuð frá Skotlandi.

Þar búa menn við þær aðstæður að hluti af aflaheimildunum er tekinn frá. Hann er ekki til almennrar úthlutunar til útvegsmanna. Hann er tekinn frá og sveitarstjórnin ákveður úthlutun eftir ákveðnum reglum sem um það eru settar til þess að tryggja auknar veiðiheimildir þeirra útgerða sem eru í viðkomandi byggðarlagi og til þess að tryggja að nýir aðilar geti hafið útgerð og spreytt sig í þeirri atvinnugrein með því að fá veiðiheimildir úr þessari úthlutun. Afgjaldið sem þeir greiða er 5% af aflaverðmæti.

Mér finnst þetta að mörgu leyti aðlaðandi hugmyndir og vil gjarnan kynna þær og taka þátt í að þróa þær áfram.