2000-03-15 14:01:25# 125. lþ. 79.94 fundur 378#B yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga um hækkun tryggingabóta# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 125. lþ.

[14:01]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Út af þessu síðasta að ég hafi áður nefnt hvað um er að ræða þegar menn eru að fjalla um kauptaxtana sem hækka með þessum hætti, þá segir það ekki alla söguna varðandi þróun launa vegna þess hversu fáir eru orðnir eftir af þessum lægstu kauptöxtum eins og kunnugt er.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var svo vinsamlegur að rétta mér blað frá kjararannsóknarnefnd og hann vitnaði einmitt til þess og viðurkenndi að þegar þeir flokkar sem skipa nú Samfylkinguna voru í stjórn, hrundi kaupmáttur launa bótaþega en hann sagði að kaupmáttur annarra launþega hefði hrunið miklu meira, þ.e. kaupmáttur launa bótaþega hrundi um 16% eins og menn kannski muna en kaupmáttur lægstu launa um 26% á tímabili Samfylkingarflokkanna. Það er töluvert hrap sem þarna var viðurkennt. Það er gott að það komi fram. En hann sagði að þeir hefðu gætt sín á því að láta það ekki hrapa eins mikið og hjá launafólkinu, það er mergurinn málsins. Þessu hefur núverandi ríkisstjórn breytt. Nú er það svo að kaupmáttur bótanna, fjárhæðir bótanna eru tryggðar miðað við neysluvísitöluna. Komi slíkt gat upp á nýjan leik að launamenn þyrftu að taka miklum lækkunum, sem við skulum svo sannarlega vona að gerist ekki, þá halda bótaþegar sínu samkvæmt þessum lögum. Það var öfugt þegar Samfylkingarflokkarnir voru í ríkisstjórn eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson benti svo skilmerkilega á áðan og var mjög gott að fá fram.

Þetta er afar þýðingarmikið. Ef okkur tekst að auka og bæta kaupmáttinn hjá þeim sem njóta bótanna hefur ríkisstjórnin tryggt að jafnvel þótt á móti blási hjá almennu launafólki er búið að setja net undir þessa hópa. Það er afar þýðingarmikið og ég þakka hv. þm. Sighvati Björgvinssyni fyrir þessa mikilvægu ábendingu.