Póstburður

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 14:12:41 (5310)

2000-03-15 14:12:41# 125. lþ. 80.1 fundur 324. mál: #A póstburður# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[14:12]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Tengt þessu máli vil ég nefna nokkur atriði því að stefna ríkisstjórnarinnar er skýr hvað varðar einkarekstur í opinberri þjónustu. Stefnan er að einkavæða sem mest af opinberri þjónustu og koma henni út til einkaaðila eða hlutafélaga. Fram til þessa hefur opinber grunnþjónusta verið flestum aðgengileg en er nú smám saman að brotna niður í skjóli hagræðingar.

Með þessum aðgerðum er verið að flokka staði eftir hagkvæmni rekstrarins en ekki með það að markmiði að veita öllum þjóðfélagsþegnum viðlíka þjónustu. En hvaða áhrif hefur það á fólk að fá æ ofan í æ þau skilaboð að það sé svo dýrt að þjóna því og það megi sitja við annað borð en flestir landsmenn? Sem dæmi má nefna heimsendingarþjónustu á bögglapósti og póstburð sem er 2--3 í viku. Með tilliti til þess sparnaðar sem fram hefur komið í rekstri og með tilliti til þess að verið er að leggja niður pósthús og koma þeim fyrir inni í þjónustu sparisjóða eða verslana vil ég fá að spyrja hæstv. samgrh. um áætlanir um frekari lokun pósthúsa á landsbyggðinni.