Póstburður

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 14:14:04 (5311)

2000-03-15 14:14:04# 125. lþ. 80.1 fundur 324. mál: #A póstburður# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[14:14]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir fyrirspurnina og þakka hæstv. samgrh. fyrir greinargóð svör. Í áætlun samgrn. og hæstv. samgrh. kemur fram að til stendur að auka póstþjónustu í dreifbýli en það skiptir grundvallarmáli. Það skiptir þá þegna sem búa í dreifbýli mjög miklu máli að fá póstinn eins hratt og mögulegt er og eins oft og mögulegt er og það kemur fram í svörum hæstv. samgrh. Áætlað er að eftir tvö ár fái um það bil 71% heimila í dreifbýli póstinn daglega, þ.e. fimm daga póstdreifingu, þetta er grundvallaratriði. Aldrei verður hægt að koma því svo fyrir að hvert og eitt einasta heimili í landinu fái póstinn daglega en þetta eru þó mjög mikilvæg skilaboð og ber að þakka.