Tækjabúnaður til að minnka koltvísýringsmengun

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 14:29:47 (5318)

2000-03-15 14:29:47# 125. lþ. 80.2 fundur 330. mál: #A tækjabúnaður til að minnka koltvísýringsmengun# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GE
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[14:29]

Fyrirspyrjandi (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin. Hér er um mjög tæknilegt mál að ræða og kannski örðugt að svara fyrir það hvernig á að standa að því. Fyrir liggja prófanir sem voru gerðar hjá Eimskip sem sýna fram á minnkun á eldsneytiseyðslu Scania-dráttarbíls um 8% og minnkun á mengun fer reyndar eftir hvaða tegundir af efnum eru í útblæstrinum. Það er allt frá því að vera 1% og upp í 15% minnkun mengunar sem er ekkert smáræði. Þótt ekki sé nema um að ræða 5% sparnað á olíu hjá íslenska fiskiskipaflotanum, þá er mjög mikið að sækja.

[14:30]

Síðan get ég upplýst það sem auðvitað liggur kannski ekki alveg fyrir hjá hæstv. ráðherra, að Nýsköpunarsjóður hefur styrkt þetta verkefni vegna þess að það er búið að leggja fram gögn. Þau urðu reyndar að koma erlendis frá vegna þess að ekki náðist samkomulag um að vinna rannsókn á Íslandi og menn gátu það ekki.

En það er rétt að minna á, herra forseti, að ég mun spyrja hæstv. umhvrh. á næstu dögum um stöðu mála varðandi eftirlit með mengun frá bifreiðum með nýjum vélum þar sem tækjabúnaðurinn á Íslandi er ekki gildur til þess að mæla mengunina sem fer hér út í loftið. Og það er skelfilegt ef rétt er að í gangi hafi verið ólöglegar vélar á Íslandi.