Eldi þorsks og annarra sjávardýra

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 14:36:51 (5321)

2000-03-15 14:36:51# 125. lþ. 80.3 fundur 343. mál: #A eldi þorsks og annarra sjávardýra# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[14:36]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn. Mér finnst vel við hæfi að einmitt hann skuli bera hana fram því að fyrstu kynni mín af hv. þm. voru þau að ég falaðist eftir því að fá leigða hjá honum fiskeldiskví.

Ég vildi, með leyfi forseta, fá að byrja á því að svara þriðja lið fyrirspurnarinnar. Árið 1985 hófust fyrstu tilraunir með eldi sjávardýra á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar og sérstök tilraunaeldisstöð á Stað í Grindavík var tekin í notkun árið 1988. Rannsóknir hafa einkum beinst að lúðu, sæeyrum, sandhverfu og þorski. Í upphafi voru gerðar ýmsar vaxtartilraunir með villta smálúðu sem safnað var í því skyni að kanna kjöraðstæður til vaxtar. Einnig fóru fram frekari vaxtartilraunir með lúðuseiði sem framleidd voru hjá Fiskeldi Eyjafjarðar. Nýlega hófust hjá stofnuninni kynbótarannsóknir á lúðu í samvinnu við Stofnfisk og Fiskeldi Eyjafjarðar. Fiskeldi Eyjafjarðar hefur náð athyglisverðum árangri bæði með klak og eldi og eru miklar vonir bundnar við fyrirtækið.

Í samvinnu við Ingvar Níelsson voru flutt til landsins sæeyru árið 1988 og gerðar athuganir á vexti og fóðurnýtingu á íslenskum þörungum. Þá voru gerðar árangursríkar tilraunir með fjölgun á sæeyrum í tilraunaeldisstöðinni. Einkaaðilar stofnuðu síðan fyrirtækið Sæbýli í Vogum á Vatnsleysuströnd um eldi sæeyrna. Mikil uppbygging hefur átt sér stað hjá Sæbýli sem gerir ráð fyrir að setja um 20 tonn af lifandi sæeyrum á markað í Japan á þessu ári en um 2.000 kr. fást fyrir hvert kíló af þessum dýrum.

Árið 1992 hóf Hafrannsóknastofnunin söfnun á lifandi sandhverfu í samvinnu við sjómenn. Um þessar mundir eru um 60 klakfiskar í stöðinni. Árið 1995 tókst að framleiða 20 seiði, árið 1998 um 1.500 seiði og árið 1999 um 1.000 seiði. Tæplega helmingi þessara seiða hefur verið ráðstafað til Sæbýlis sem hefur hug á að rækta sandhverfu í sambýli við sæeyra og gert er ráð fyrir að annað eins fari til Eyrareldis á Táknafirði, en Eyrareldi fékk á síðasta ári leyfi til innflutnings á hrognum frá Frakklandi.

Á undanförnum árum hafa verið gerðar umfangsmiklar vaxtartilraunir með mismunandi hita og stærð á þorski. Í ljós hefur komið að kjörhiti til vaxtar og fóðurnýtingar lækkar mikið með aukinni fiskstærð, frá um 16° fyrir tveggja gramma fisk niður í um 7° fyrir tveggja kílóa fisk. Að hluta til hefur verið unnið með villtan fisk sem safnað hefur verið til tilrauna en að hluta með þorsk sem klakið hefur verið í stöðinni. Frá árinu 1995 hafa árlega verið framleidd í tilraunaeldisstöðinni nokkur þúsund þorskseiði sem hafa farið í margvíslegar tilraunir, m.a. til að kanna vöxt og lífslíkur á seiðastigi, sjálfrán þorskseiða, áhrif fæðuskorts á vöxt og fóðurnýtingu, áhrif fæðuskorts á holdeiginleika, ónæmisfræði þorsks, sjúkdóma í þorski og bólusetningar á þorski. Rannsóknir hafa miðast við að kanna betur líffræði þessa mikilvæga fiskstofns en jafnframt hefur verið haft í huga að þessar niðurstöður gætu komið að gagni ef þorskeldi yrði að raunveruleika. Seiðin hafa verið framleidd í tilraunaskyni án þess að leggja áherslu á mikla framleiðslu.

Árið 1992 hófust fyrstu tilraunir með söfnun og áframeldi á þorski í kvíum á Stöðvarfirði. Hafrannsóknastofnun tók þátt í þessum tilraunum ásamt heimamönnum. Í ljós kom að þorskarnir uxu mun hraðar í kvíunum þar sem þeir fengu nóg að éta, en í náttúrunni. Þannig lengdust kvíaþorskarnir að jafnaði um 17 sm á einu ári, úr 42 sm í 59 sm og þyngd þeirra jókst frá 0,9 kílóum í 2,7 kíló.

Á tímabilinu júlí 1995 til desember 1996 var gerð tilraun á vegum Hafrannsóknastofnunar með að losa fóður reglubundið í Stöðvarfjörð til að kanna hvort unnt væri að laða villtan þorsk á fóðrunarstað og auka vaxtarhraða hans verulega. Hljóðmerki var gefið við fóðrun og fóðrið losað niður á um 20 m dýpi í gegnum barka sem dreginn var á eftir bát. Með tímanum vandist þorskurinn á þessa fóðrun og varð feitari, fékk stærri lifur og óx mun hraðar en þorskur í samanburðarfjörðum.

Í meistaraprófsritgerð sinni í sjávarútvegsfræði við Háskóla Íslands gerði Björn Knútsson samanburð á arðsemi þorskeldis í strandeldi, kvíaeldi og fjarðareldi líkt og gerð var tilraun með á Stöðvarfirði. Niðurstaðan varð sú að ekki væri arðbært að ala þorsk í strandeldi eða í kvíum en miðað við gefnar forsendur gæti fjarðareldi skilað hagnaði ef unnt væri að stunda það í nægilega stórum stíl.

Í þessu sambandi er rétt að taka fram að Norðmenn hafa gert umfangsmiklar tilraunir með framleiðslu þorskseiða til sleppingar í fjörðum. Í stuttu máli eru niðurstöður þær að burðargeta fjarðanna stendur ekki undir miklum sleppingum. Vöxturinn verður slakur og mikið af seiðunum er étið af stærri þorski og öðrum rándýrum og enginn efnahagslegur grundvöllur er því fyrir hafbeit á þorski í Noregi.

Stefna stjórnvalda er að halda áfram að styðja við lúðueldið, auka áherslu á sandhverfu og sæeyra og hugsanlega á nýjar tegundir, hlýra og barra. Þorskrannsóknir verða áfram stundaðar til þess að kynnast og kanna grunnlíffræði þorsksins en ekki eru uppi áætlanir um eldi á þorski í fjörðum þar sem verð á þorski (Forseti hringir.) er ekki nægjanlega hátt, herra forseti, til þess að það sé réttlætanlegt.