Eldi þorsks og annarra sjávardýra

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 14:47:23 (5325)

2000-03-15 14:47:23# 125. lþ. 80.3 fundur 343. mál: #A eldi þorsks og annarra sjávardýra# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[14:47]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka þeim sem þátt tóku í umræðunni og tek undir með hv. fyrirspyrjanda. Það væri mjög gott að fá almenna umræðu um eldi hér á hv. Alþingi. Það sem skiptir hins vegar mestu máli þegar við hugum að fiskeldi, hvort sem er sjávareldi eða í fersku vatni, er að við veljum okkur þær tegundir sem við fáum hæsta verðið fyrir og henta þeim aðstæðum sem við búum við hér á landi. Laxinn hentar Norðmönnum greinilega miklu betur en okkur, það höfum við reynt. Þorskurinn er að mínu mati einfaldlega ekki í nægjanlega hár í verði til að hagkvæmt sé að ala hann í hefðbundnu fiskeldi. Varðandi svokallað fjarðareldi eða hafbeit þá eru á því fjölmargir vankantar, bæði náttúrulegir og eins hið lagalega umhverfi, sem ekki verða svo auðveldlega af sniðnir. Hins vegar eru tegundir eins og sandhverfan og sæeyrað dýrari og þar er verið að þróa ákveðna eldistækni og aðlaga íslenskum aðstæðum. Ég tel að þar eigum við að hafa helstu áherslurnar í dag. Fjármunirnir eru takmarkaðir og þar tel ég að þeir nýtist best.

Varðandi þorskinn þá eru ekki stórar líffræðilegar spurningar óleystar sem snúa að eldinu. Ég held hins vegar að fyrir þjóð sem byggir eins mikið á þorski og við gerum sé nauðsynlegt að halda uppi grunnrannsóknum á líffræði þorsksins. Það nýtist okkur í sambandi við fiskveiðar okkar og ef síðan þannig vildi til að verð á þorski væri nægjanlega hátt, þá mun það að sjálfsögðu nýtast okkur líka við að aðlaga þorskinn þeim eldisaðstæðum sem við kynnum þá að hafa.