Sjúkrahótel

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 14:57:35 (5330)

2000-03-15 14:57:35# 125. lþ. 80.4 fundur 382. mál: #A sjúkrahótel# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SJóh
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[14:57]

Fyrirspyrjandi (Sigríður Jóhannesdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrrh. fyrir skýr svör. Ég er afskaplega þakklát og hrærð yfir að þó skuli í fullum gangi áform um að fjölga sjúkrarúmum á Rauða kross hótelinu og breyta þjónustunni. Ég tel að það sé lykilatriði til að það verði eitthvað í áttina að því sem við höfum talað um með ,,sub-acut``-deild, að þar verði einhver hjúkrunarþjónusta og raunar mun meiri en þar er í dag. En ég held að jafnvel þó að þessum rúmum yrði fjölgað um helming þá ætti áfram að leita leiða í nágrenni Landspítalans. Kanna mætti hvort ekki fæst húsnæði þar sem reka mætti slíkar ,,sub-acut``-deildir. Ég held að þetta sé gríðarlega mikilvægt mál og raunæfur möguleiki til að spara í heilbrigðiskerfinu á Íslandi. Ég vil leyfa mér að vitna í viðtal við Þórð Harðarson prófessor en hann segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Þá vil ég nefna þá sóun, sem í því felst, að sjúklingar þurfa að vistast á dýrum sjúkrastofnunum eftir að bráðavandi þeirra hefur verið leystur. Það væri tvímælalaust verðmætasta sparnaðarráðstöfunin, sem völ er á, ef komið væri á fót þeirri endurhæfingar-, öldrunar- og hjúkrunaraðstöðu, sem þörf er á hér í þéttbýlinu.``

Svo mörg voru þau orð, herra forseti, og ég tel að við eigum að hafa þessi orð að leiðarljósi þegar við leitum leiða til að spara í heilbrigðiskerfinu.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill benda á að e.t.v. mætti nota orðið ,,gjörgæsluhjáleiga`` í staðinn fyrir ,,sub-acut``)