Úrbætur á aðstöðu öldrunardeildarinnar Ljósheima á Selfossi

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 15:04:42 (5333)

2000-03-15 15:04:42# 125. lþ. 80.5 fundur 409. mál: #A úrbætur á aðstöðu öldrunardeildarinnar Ljósheima á Selfossi# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[15:04]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir spyr mig um endurbætur á húsnæði og aðstöðu sjúklinga á Ljósheimum á Selfossi. Eins og þingmanninum er kunnugt er hér um að ræða gamalt húsnæði sem endurbætt var sem hjúkrunarheimili og má segja að innra fyrirkomulagið sé barn síns tíma. Þegar málefni Ljósheima komu til umræðu á Alþingi í febrúar 1998 eins og hv. þm. kom inn á, upplýsti ég hv. þm. um að ákveðið væri að hefja undirbúning að byggingu legudeildarálmu við Sjúkrahús Suðurlands sem leysa mundi Ljósheima af hólmi og það húsnæði yrði þá lagt af sem hjúkrunarheimili. Undirbúningur þess hefur verið í fullum gangi og þarfagreining fyrir nýbyggingu var tilbúin í lok síðasta árs. Alþingi hefur veitt fjármagn til að hefja vinnu við undirbúning byggingarinnar. Stjórnendur stofnunarinnar vinna nú að undirbúningi hönnunarsamkeppni á grundvelli þarfagreiningarinnar en undirbúningur framkvæmdarinnar hefur verið í þeirra höndum.

Eins og hv. þm. er ljóst hafa ófyrirsjáanleg atvik orðið þess valdandi að undirbúningur framkvæmda hefur tekið nokkuð lengri tíma en við var búist. En ég hef verið fullvissuð um að í þeim efnum sé nú allt komið í eðlilegan farveg. Á þessum tíma hefur að sjálfsögðu verið unnið að óhjákvæmilegu viðhaldi Ljósheima, en ekki hefur verið ráðist í meiri háttar endurbætur í ljósi þess að ákveðið hefur verið að flytja starfsemina.

Það er rétt hjá hv. þm. að formlegur frestur til úrbóta er löngu runninn út, en ekki hefur komið til þess að beita viðurlögum og ég býst við að eftirlitsaðilum hafi létt nokkuð við að fá vitneskju um að ákveðið væri að flytja þessa starfsemi í sérhannaða nýbyggingu.