Viðbrögð við þungunum unglingsstúlkna

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 15:18:52 (5341)

2000-03-15 15:18:52# 125. lþ. 80.7 fundur 426. mál: #A viðbrögð við þungunum unglingsstúlkna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[15:18]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta Möller hefur beint til mín svohljóðandi fyrirspurn: ,,Til hvaða ráðstafana mun ráðherra grípa til að sporna gegn hárri tíðni þungana unglingsstúlkna?``

Hv. þm. hefur vakið máls á alvarlegum vanda. Ég fékk mjög nýlega ítarlega skýrslu og upplýsingar í hendur varðandi þetta mál, en ég hafði fengið til liðs við mig hóp til að kanna nákvæmlega hvernig ástandið er hér á landi og ég hef falið landlækni að fara yfir þá skýrslu og hann hefur þegar skipað faghóp og mun koma með tillögur um viðbrögð.

Tíðni þungana ungra stúkna hér á landi er of há. Barneignir í þessum aldurshópi eru algengari en víðast í Evrópu. Fóstureyðingum hefur farið fjölgandi hérlendis á síðustu áratugum og eru þær algengastar hér á landi borið saman við önnur Norðurlönd. Fóstureyðingar eru hjá öllum aldurshópum svipaðar og í nágrannalöndunum, en þegar kemur að hópnum 15--19 ára, og hann skoðaður sérstaklega, kemur í ljós að á meðan fóstureyðingum fækkar hjá öðrum þjóðum, fjölgar þeim hjá okkur. Þetta er viðfangsefni samfélagsins, þetta er viðfangsefni heilbrigðisþjónustunnar að stórum hluta. Og þó skal bent á mikilvægi þess að slík mál séu skoðuð í samhengi við önnur samfélagsmál og viðfangsefni. Hér þurfa margir að koma að málum. Ég nefni skóla, foreldra, fjölmiðla og fleira mætti telja.

Heilbrigðisyfirvöld hafa á undanförnum árum reynt ýmsar leiðir til að sporna við þessari þróun, m.a. með sérstakri kynfræðsludeild sem var á Heilsuverndarstöðinni í Reykjavík, sem var lokað m.a. vegna þess að hún var ekki nýtt sem skyldi. Auka þarf fræðslu og ráðgjöf til þeirra sem fara í fóstureyðingar á kvennadeild Landspítalans, en of algengt er að sami einstaklingurinn fari oftar en einu sinni í fóstureyðingu. Mun meiri umfjöllun þarf að eiga sér stað um ábyrgt kynlíf og sérstaklega þarf að benda á margvíslegar hættur samfara notkun vímuefna. Sérstaklega þarf að auka aðgengi að neyðargetnaðarvörn og ég kem sérstaklega að því í svari mínu við næstu fsp. En að undanförnu hefur það átt sér stað að aðgengi hefur batnað mjög almennt að getnaðarvörnum, en það hefur ekki dugað til.

Mig langar aðeins að geta þeirra kannana sem gerðar hafa verið. Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu úr íslenskri könnun er meginástæða þess að ekki eru notaðar getnaðarvarnir taldar vera af einstaklingunum sjálfum kæruleysi í 21% tilvika, notkun áfengis í 9% tilvika, einstaklingur telur sig ekki geta orðið þungaðan í 6% tilvika, maki eða vinur vill ekki nota getnaðarvörn í 4% tilvika, aukaverkanir getnaðarvarna í 4% tilvika, fyrirhöfn að nota getnaðarvörn svara 3%, en aðeins 3% nota ekki getnaðarvarnir vegna þess að það er fyrirhöfn að ná í getnaðarvörn. Þetta segir okkur æðimargt. Og kannski segir þetta okkur það um íslenskt þjóðfélag að við hugsum æðioft ,,þetta reddast``. Við þurfum því á hugarfarsbreytingu að halda. En við eigum góða sérfræðinga sem eru tilbúnir að vinna með okkur varðandi þennan vanda og ég trúi því að við getum tekið höndum saman og spornað gegn þessari þróun.