Viðbrögð við þungunum unglingsstúlkna

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 15:23:16 (5342)

2000-03-15 15:23:16# 125. lþ. 80.7 fundur 426. mál: #A viðbrögð við þungunum unglingsstúlkna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[15:23]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að vekja máls á þessu alvarlega máli, hér er vissulega um svartan blett á þjóðfélaginu að ræða. Á 122. löggjafarþingi lagði ég einmitt fram fyrirspurnir til hæstv. heilbrrh., m.a. um fóstureyðingar, og þá kom fram að á árunum frá 1991--1997 fjölgaði fóstureyðingum um 40% hér á landi. Árið 1991 voru 658 konur sem fóru í fóstureyðingu og 1997 voru þær 920. Það lætur nærri að fimmta hver kona á Íslandi sem verður þunguð láti eyða fóstri. Hér er um grafalvarlegt mál að ræða og ég tala nú ekki um þegar verið er að fjalla um unglingsstúlkur eins og hér kemur fram. Í þeim tölum sem ég hef frá þessum tíma kemur í ljós að árið 1996 voru átta stúlkur yngri en 15 ára sem fóru í fóstureyðingu og 207 stúlkur á aldrinum 15--19 ára. Hér verðum við að breyta samfélagi okkar, við verðum að auka kynfræðslu því þetta eru ógnvænlegar tölur og við þær verður ekki unað.