Reglur um sjúklingatryggingu

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 15:46:23 (5356)

2000-03-15 15:46:23# 125. lþ. 80.8 fundur 447. mál: #A reglur um sjúklingatryggingu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GuðjS
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[15:46]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Sigurjónsson):

Herra forseti. Víðast hvar í nágrannaríkjum okkar á Norðurlöndum er réttarstaða þeirra sem verða fyrir því óláni að verða fyrir tjóni í kjölfar læknisaðgerða, t.d. í tengslum við rannsóknir, sjúkdómsmeðferðir eða læknisfræðilegar tilraunir mun betur tryggð en hér á landi. Það má segja að í megindráttum felist þessi tryggari réttarstaða í því að tjónþolar eigi efnislega betri rétt til skaðabóta vegna læknismeðferðar, auk þess sem verulega er létt undir með tjónþola með breyttum reglum um málsmeðferð.

Í frv. sem fyrrv. heilbr.- og trmrh., Guðmundur Bjarnason, lagði fram fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi var gerð tilraun til að skipa málum hér á landi í sambærilegan farveg og um ræðir annars staðar á Norðurlöndum. Fyrst og fremst var horft til Danmerkur sem fyrirmyndar um þetta efni. Því miður náði frv. ekki fram að ganga og hefur ekki orðið veruleg breyting á réttarstöðu þessa hóps frá þeim tíma. Eins og frv. bar með sér þá var meginmarkmið þess að tryggja sjúklingum eða tjónþolum víðtækari rétt til bóta en þeir eiga eftir almennum skaðabótareglum, jafnframt að gera tjónþolum auðveldara að ná rétti sínum. Málsmeðferð í þeim tilvikum þegar sjúklingur verður fyrir áfalli í tengslum við læknismeðferð verður að mínu viti að vera með þeim hætti að tjónþolum sé unnt að leita réttar síns án verulegs óhagræðis eða kostnaðar.

Í íslensku réttarkerfi eru sönnunarvandamál og kröfum sem gerðar eru varðandi sök og saknæmi þannig háttað að mjög erfitt reynist fyrir tjónþola að leita réttar síns. Ég vísa sérstaklega til fyrirspurnar sem kom fram á Alþingi frá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur árið 1997 til dómsmrh. um mistök við læknisverk. Í svari við þeirri fyrirspurn kom m.a. fram að fjöldi sjúklinga sem hafði orðið fyrir tjóni eða taldi sig hafa orðið fyrir tjóni í tengslum við mistök við læknisverk treysti sér ekki til að sækja rétt sinn. Og ég tel fullvíst að rekja megi ástæðurnar m.a. til þess að erfitt er að sanna sök í slíkum málum. Það er almennt út frá því gengið að sjúklingar gangast undir einhverja áhættu í hvert sinn sem aðgerð er framkvæmd á þeim. Verði áhættan hins vegar virk og leiði til tjóns er líklegt að sjúklingur þurfi að langmestu að bera tjón sitt sjálfur. Mistök við læknisaðgerð fela því ekki alltaf í sér bótaábyrgð af hálfu sjúkrastofnunar, þar sem ekki er í öllum tilvikum ljóst hvort um bótaskylt tjón er að ræða eða ekki. Meginleiðin til að bæta réttarstöðu þessara aðila er að létta undir tjónþolum með málsmeðferð annars vegar og hins vegar að víkja frá þeim meginsjónarmiðum sem ríkir í skaðabótarétti varðandi saknæmi.

Þáltill. var lögð fram á 123. löggjafarþingi um þetta mál þar sem flm. voru hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir, Margrét Frímannsdóttir og Össur Skarphéðinsson. Í tillögunni fólst að hæstv. heilbrrh. yrði falið að láta fara fram úttekt á reglum um sjúklingatryggingu sem mundu miða að réttarbótum á sviði sjúklingatrygginga. Þess vegna spyr ég hæstv. heilbrrh. hvort hún hafi látið fara fram úttekt á sjúklingatryggingum í samræmi við þáltill. Einnig spyr ég ráðherrann hvort hún hyggist beita sér fyrir því að réttarstaða þessara aðila verði bætt.