Reglur um sjúklingatryggingu

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 15:49:48 (5357)

2000-03-15 15:49:48# 125. lþ. 80.8 fundur 447. mál: #A reglur um sjúklingatryggingu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[15:49]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðjón Sigurjónsson hefur beint þeirri fyrirspurn til mín hvort gerð hafi verið úttekt á reglum um sjúklingatryggingar í því skyni að bæta réttarstöðu þeirra sem verða fyrir heilsutjóni í tengslum við rannsókn, sjúkdómsmeðferð, læknisfræðilegar tilraunir eða því um líkt og hvort ég hyggist á einhvern hátt bæta réttarstöðu sjúklinga sem verða fyrir slíku tjóni.

Virðulegi forseti. Því er til að svara að sl. eitt og hálft ár hefur í heilbr.- og trmrn. verið unnið að samningu frv. til laga um sjúklingatryggingu. Á undanförnum árum hefur sem kunnugt er verið komið á fót á Norðurlöndum sérstökum sjúklingatryggingum sem veita víðtækari rétt til bóta vegna tjóns sem menn verða fyrir við veitingu heilbrigðisþjónustu en almennar skaðabótareglur. Árið 1989 var gerð breyting á almannatryggingalögum sem fól í sér vísi að slíkri sjúklingatryggingu. En mikið vantar á að þau ákvæði tryggi sjúklingum bættur sem nálgast það að vera fullar fébætur fyrir raunverulegt tjón.

Frv. til laga um sjúklingatryggingu var lagt fyrir Alþingi 1990--91 af þáv. heilbrrh., Guðmundi Bjarnasyni, eins og hv. þm. gat um áðan, en frv. hlaut ekki afgreiðslu. Það frv. var lagt til grundvallar í vinnu við gerð nýs frv., en gerðar eru á því ýmsar breytingar, m.a. í samræmi við þá réttarþróun sem orðið hefur á þessu sviði frá þeim tíma.

Drög að frv. um sjúklingatryggingu voru send til umsagnar fjölmargra aðila sl. sumar og bárust yfirleitt jákvæðar umsagnir og gagnlegar athugasemdir. Í umsögnum nokkurra aðila kom þó fram gagnrýni á málsmeðferðarreglur frv. m.a. varðandi málskotsrétt aðila, hlutverk áfrýjunarnefndar o.fl. Frv. hefur nú verið til endurskoðunar með tilliti til fyrrgreindra athugasemda. Með fyrrgreindu frv. er stefnt að því að samræma íslenskar reglur í aðalatriðum öðrum norrænum reglum um sjúklingatryggingu og auka bótarétt sjúklinga sem bíða heilsutjón vegna áfalla í tengslum við læknismeðferð og tryggja þannig tjónþola víðtækari rétt til bóta en hann á eftir almennum skaðabótareglum og núgildandi reglum um almannatryggingar.