Reglur um sjúklingatryggingu

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 15:55:06 (5360)

2000-03-15 15:55:06# 125. lþ. 80.8 fundur 447. mál: #A reglur um sjúklingatryggingu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi GuðjS
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[15:55]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir svörin og að hafa upplýst okkur um að ákveðin sé vinna í gangi til að framfylgja þessu máli sem hreyft hefur verið hér á Alþingi á undanförnum árum. Ég vek athygli á að það frv. sem lagt var fram á Alþingi árið 1990 var að mörgu leyti mjög gott og vandað frv. Það byggði á því frv. sem lá þá fyrir danska þinginu og það frv. er nú orðið að lögum. Komin er mjög góð og mikil reynsla á þau lög og þeim hefur ekki mikið verið breytt, reyndar hafa komið fram breytingar árin 1995 og 1999, að ég held, sem hafa verið til þess fallnar að víkka út gildissvið reglnanna. Hægt væri að taka mið af þeim breytingum og ég tel mjög auðvelt í raun og veru að koma þessu máli fyrir þing í frumvarpsformi og gera það að lögum.

Hæstv. ráðherra vakti athygli á að reglur um bætur úr almannatryggingakerfinu væru vísir að réttarbót í þessa veru. Ég get í sjálfu sér ekki fallist á að það sé nein veruleg réttarbót hvað varðar þennan hóp sjúklinga vegna þess að þær bætur sem fást þar greiddar út eru svokallaðar summutryggingar og eru óverulegar og engan veginn til þess fallnar að mæta því fjártjóni sem sjúklingar verða fyrir í slíkum tilvikum. Ég tel mjög brýnt að úttekt á málinu verði lokið hið fyrsta og lög verði sett. Ég vonast svo sannarlega til að hinn margfrægi snigill framsóknarmanna fari ekki með málið hér eftir heldur verði málinu lokið af krafti og að við fáum bráðum að sjá lög um þetta efni, grundvölluð á þeim reglum sem þegar hafa verið til umfjöllunar.