Löggæsla í Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi

Miðvikudaginn 15. mars 2000, kl. 16:10:11 (5367)

2000-03-15 16:10:11# 125. lþ. 80.9 fundur 411. mál: #A löggæsla í Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 125. lþ.

[16:10]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir orð hennar áðan og er mjög ánægð með að starf þessa forvarnafulltrúa í Mosfellsbæ virðist koma að svo góðum notum. Ég er alveg sammála henni um að það er mjög mikilvægt að við tryggjum grenndarlöggæslu sem best á þessum stöðum, en auðvitað geta aðstæður verið misjafnar. Ég vil benda á það út af orðum hv. þm. að þegar talað er um grenndarlöggæslu virðist vera nokkuð mismunandi hvaða skilning fólk leggur í það orð. Fyrir mitt leyti vil ég að það komi alveg skýrt fram að ég tel að lögreglumenn sem eru á vöktum í bifreið geri ekki minna gagn og jafnvel meira gagn en lögreglumaður sem situr við skrifborð inni á lögreglustöð. Varðandi orð hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar vorum við einmitt saman á fundi í Grindavík hér á dögunum, og ég get glatt hann með því að ég tók nú fyrir nokkrum dögum á móti bæjarstjórn Grindavíkur sem lýsti yfir sérstakri ánægju sinni með fyrirkomulag löggæslumála í sínum bæ. Þar hafa menn náð góðu samkomulagi við sýslumanninn í Keflavík þannig að ég tel að þau mál séu í góðu standi.