Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 10:36:06 (5369)

2000-03-16 10:36:06# 125. lþ. 81.2 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[10:36]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hér er um að ræða merkilegt mál sem hæstv. utanrrh. mælti fyrir og ég verð einnig að segja að mér þótti framsaga hæstv. ráðherra vera ákaflega merkileg. Ég hafði vænst þess að þær breytingar sem mælt er fyrir í frv. yrðu rækilegar skýrðar af hálfu hæstv. ráðherra en hér kom fram og ég fæ ekki annað séð en að ráðherrann hafi raunverulega hlaupið fram hjá þeim málum sem mikilvægust eru í þessu frv.

Herra forseti. Hæstv. ráðherra gat þess að á síðustu árum hefði orðið þróun í átt til frjálsræðis í viðskiptum við herinn á Keflavíkurflugvelli. Það kann vel að vera rétt, herra forseti, ég hef ekki fylgst svo mikið með því. En ég verð hins vegar að segja að það frv. sem hér liggur fyrir er stórt skref aftur á bak. Það er stórt skref aftur á bak frá frjálsræði og örugglega því frjálsræði sem hæstv. ráðherra talar um að hafi rutt sér til rúms á síðustu árum í samskiptum við herinn og alveg sannarlega er það í átt frá því frjálsræði sem hefur aukist í viðskiptum á Íslandi.

Við höfum á undanförnum árum, herra forseti, reynt að breyta viðskiptaháttum hér á landi svo að hægt væri að ýta undir samkeppni. Því miður hefur það verið svo að einokun og fákeppni hafa sett mark sitt á ákaflega stóran hluta viðskiptalífsins, ekki síst þann sem tengist samgöngum. Við höfum séð það á sviði flugsamgangna en góðu heilli hefur því verið rutt úr vegi, ekki síst með tilkomu alþjóðlegra samninga. Við höfum líka séð það í sjóflutningum frá Íslandi og til Bandaríkjanna.

Hér áður fyrr reyndu djarfir athafnamenn að koma upp samkeppni við Eimskipafélagið og settu á stofn Hafskip. Allir vita hvernig það fór. Það sökk í kaf. Við höfum líka séð annað skipaflutningafélag koma upp, Samskip, sem á köflum veitti dágóða samkeppni við flutninga Eimskipafélagsins milli Íslands og Bandaríkjanna. Það hefur hins vegar gerst að á þeim markaði hefur einnig orðið samþjöppun, fákeppni sem núna er varla hægt að kalla annað en einokun. Ég veit ekki betur en að í gildi sé samningur á milli Eimskipafélagsins og Samskipa um að Eimskipafélagið sjái um þá flutninga. Hvað þýddi slíkt fyrir neytendur, herra forseti? Það þýddi auðvitað að samkeppnin mundi hverfa hægt og það mundi leiða til þess að verð á frakt milli Íslands og Bandaríkjanna, sem er ákaflega mikilvægt viðskiptasvæði fyrir okkur, mundi að sjálfsögðu hækka og það þýddi það að verð til neytenda hlyti að hækka.

Góðu heilli hafa á síðustu árum komið fram nýir athafnasamir einstaklingar sem hafa freistað þess að veita Eimskipafélaginu samkeppni á þessari skipaleið. Þar er um að ræða lítið skipafélag sem heitir Atlantsskip og á síðasta ári náði það samningum um flutninga fyrir varnarliðið. Ef frv. er skoðað í hnotskurn, þá held ég að kjarni þess liggi í bráðabirgðaákvæði II. Þar kemur beinlínis fram, herra forseti, að ætlunin með frv. er að knésetja þetta litla skipafélag.

Ég verð líka, herra forseti, að vísa til þess sem kemur fram hjá hæstv. utanrrh. í Morgunblaðinu 26. febrúar þar sem haft er eftir hæstv. ráðherra að frv. væri ekki beint gegn neinum. Eigi að síður höfum við þingmenn fengið í hólf okkar bréf sem flokkast undir diplómatískt bréf frá íslenska utanrrn. til hins bandaríska og þar kemur fram, herra forseti, vilji af hálfu utanrrn., sem hæstv. ráðherra dró reyndar enga dul á í ræðu sinni áðan, sem getur varla þýtt annað en að frv. ef það verður að lögum er beinlínis beint gegn þessu tiltekna félagi. Þar segir í ákaflega grófri þýðingu minni, með leyfi forseta:

,,Ríkisstjórn Íslands væntir þess að ríkisstjórn Bandaríkjanna muni ekki nýta neinar heimildir til að framlengja samninga sem um þessar mundir eru í framkvæmd um flutninga á hernaðarvarningi í samræmi við samninginn og minnisblað um hann, en muni fremur fara í nýtt útboð svo framkvæmd nýrra samninga muni hefjast svo fljótt og auðið er og a.m.k. ekki síðar en jafnskjótt og núverandi samningur rennur út 1. nóvember árið 2000.``

Herra forseti. Hvað felst í þessum orðum? Ég fæ ekki betur séð en að utanrrh. Íslands sé að fara fram á það að samningi sem búið er að gera við skipafélag verði rift og a.m.k. verði framlengingarákvæði sem sett er í samninginn af hálfu bandaríska utanríkisráðuneytisins ekki nýtt. Þetta er ákaflega merkilegt, herra forseti.

Forsaga málsins er sú að þetta félag, Atlantsskip, á systurfélag í Bandaríkjunum sem bersýnilega að dómi utanrrn. hefur kallað fram of náinn skyldleika og af þeim sökum er ljóst að hæstv. utanrrh. er þeirrar skoðunar að þessi náni skyldleiki geri það að verkum að samningar varnarliðsins, bandaríska hersins, við þessi félög sé í blóra við samninginn og það minnisblað sem vísað er til í frv. Það er þess vegna rétt, herra forseti, að fara aðeins yfir þetta mál og forsögu þess.

Eins og menn muna sömdu Bandaríkjamenn upphaflega við íslensk skipafélög um flutninga fyrir varnarliðið. Árið 1984 krafðist hins vegar bandaríska skipafélagið Rainbow Navigation þess að fá flutningana með vísan í ákaflega gamalt ákvæði í bandarískum lögum. Þetta var lagaákvæði frá 1904 þar sem mælt var svo fyrir að flutningar á vegum Bandaríkjahers skuli vera í bandarískum höndum sé þess kostur. Bandarísk stjórnvöld töldu ekki stætt að hafna kröfu félagsins og Rainbow Navigation fékk þá flutninga. Þessu andmæltu íslensk stjórnvöld ákaflega kröftuglega. Þau töldu nauðsynlegt frá sjónarhóli öryggishagsmuna landsins að íslensk skipafélög sinntu slíkum flutningum og sú krafa var rökstudd með giska góðum rökum, þ.e. annars vegar með smæð markaðarins og hins vegar með mikilvægi skipaútgerðar fyrir litla eylendu eins og okkar.

Þessari deilu lyktaði eins og menn muna eftir mikil og hávær blaðaskrif á sínum tíma með því að Bandaríkjamenn tóku verulegt tillit til sjónarmiða Íslendinga og gert var samkomulag sem utanríkisráðherrar landanna beggja undirrituðu árið 1986. Það gerði ráð fyrir að skipafélög frá báðum löndunum gætu boðið í flutningana og 65% þeirra skyldu falla í hlut þess félags sem ætti lægsta tilboðið en 35% til félagsins sem ætti lægsta tilboðið frá hinu landinu. Síðan hafa flutningarnir verið boðnir út og Eimskipafélagið hefur sinnt hinum íslenska hluta þeirra öll árin fyrir utan eitt, 1992--1993. Það var svo í hittiðfyrra sem þetta nýja litla skipafélag kom fram á sjónarsviðið og átti þá langlægsta tilboðið. Það fékk því sinn hlut 65% flutninganna.

Í Bandaríkjunum átti það systurfélag sem átti næstlægsta tilboðið og fékk þess vegna þau 35% sem eftir voru. Frumkvöðlar að stofnun beggja þessara hlutafélaga voru Íslendingar, afkomendur íslenskrar sjóhetju sem skiptir auðvitað ekki máli í þessu dæmi. En þessi Íslendingur átti meiri hluta í Atlantsskipum og einnig stóran hluta í hinu bandaríska systurfélagi. Þess vegna mætti segja, herra forseti, að flutningar fyrir varnarliðið væru með þessu fyrirkomulagi komnir að stærri hluta en áður í hendur íslenskra aðila án þess að bandarísk stjórnvöld hafi litið svo á að samningurinn frá 1986 hafi verið sniðgenginn.

Þegar íslenska fyrirtækið hreppti flutningana var það í gegnum opið útboð án nokkurs forvals, enda var, held ég, enginn stafrókur um forval í samkomulaginu sem utanríkisráðherrar landanna undirrituðu árið 1986. Eigi að síður og kannski eðlilega sættust menn ekki á að óreyndu að þarna væri um að ræða félög sem væru nægilega óskyld í skilningi samningsins og samkomulagsins frá 1986 og því var rekið dómsmál í Bandaríkjunum þar sem komist var að þeirri niðurstöðu í undirrétti að félögin væru of tengd og ekki væri um virka samkeppni að ræða. Þess vegna, herra forseti, afréð utanrrn. á síðasta ári að viðhafa forval til að ákveða hvaða skipafélög mættu bjóða í flutninga næsta árs. Frá því er skemmst að segja að forvalsnefnd utanrrn. komst að þeirri niðurstöðu að fyrirtæki sem hafði boðið langlægst í flutningana árinu áður og sinnt því með prýði að því er best er vitað var útilokað frá þessu forvali.

Síðan hefur það gerst, herra forseti, að niðurstöðu undirréttar var snúið við á áfrýjunarstigi fyrir dómi í Bandaríkjunum. Það liggur sem sagt fyrir að það er skilningur þess áfrýjunardómstigs að fyrirtækin séu ekki of skyld samkvæmt þar gildandi lögum og virk samkeppni sé í gangi. Það er eitthvað sem við íslenskir neytendur ættum að fagna. Það þýðir að þetta skipafélag hefur þar með flutninga sem mynda kjarnann í frakt þess milli Bandaríkjanna og Íslands sem gerir það að verkum að félagið getur farið í virka samkeppni við Eimskipafélagið, sem hefur einokað þessa skipaleið. Þar með getur það reynt að sækja til sín meiri flutninga með því að bjóða lægra verð en Eimskipafélagið og þar með kalla fram lægra verð á vörum til okkar Íslendinga. En þá gerist það að ríkisstjórn Íslands kemur hingað og leggur fram frv. sem er ekki hægt að skilja öðruvísi en tilraun til að rifta gerðum samningi.

Herra forseti. Það eru fjölmörg fyrirtæki sem hafa með höndum viðskipti við herinn á Keflavíkurflugvelli og mér er spurn: Hvað hefur þetta frv. áhrif á mörg þeirra? Getur verið að það sé fyrst og fremst eitt tiltekið fyrirtæki sem frv. hafi veruleg áhrif á?

Herra forseti. Á síðustu árum hefur verið aukin sókn til frjálsræðis í viðskiptum Íslendinga. Við höfum verið að opna dyr til annarra þjóða. Við höfum verið að ryðja úr vegi hindrunum. Allt hefur þetta miðað að því að auka samkeppni, auka hag neytenda og lækka vöruverðið. Svo kemur hæstv. utanrrh. með frv. sem virðist ganga í allt aðra átt og leyfir sér meira að segja að segja að þetta sé framhald á þeirri frjálsræðisþróun sem þessi ríkisstjórn hefur staðið fyrir. Þvílíkt öfugmæli.