Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 10:48:27 (5370)

2000-03-16 10:48:27# 125. lþ. 81.2 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[10:48]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka það fram að þessu frv. er ekki beint gegn einum né neinum. Hins vegar er það skýrt tekið fram hvað telst íslenskt fyrirtæki, m.a. á grundvelli þess samnings sem gerður var á milli Íslands og Bandaríkjanna á sínum tíma um sjóflutningana. Ég vænti þess að hv. þm. virði þá skyldu utanrrn. að sjá til að staðið sé við slíka samninga og Bandaríkjamenn standi við slíka samninga og að slíkur samningur sé rekinn á grundvelli íslensks réttarfars. Það er nauðsynlegt að skýra þetta mál betur.

Hins vegar fjallar þetta mál ekki fyrst og fremst um það. Það fjallar ekki síst um það frjálsræði sem hefur verið tekið upp í viðskiptum við varnarliðið. Þau fyrirtæki sem bjóða munu í þennan samning og þessa flutninga á komandi mánuðum eða árum geta að sjálfsögðu gert það ef þau uppfylla þessi skilyrði, þar á meðal fyrirtækið sem hv. þm. nefndi. En samningurinn gengur út á að um íslenskt fyrirtæki sé að ræða. Við það ber að standa meðan sá samningur er í gildi, annars ættu menn ekki að vera að gera samninga. Ég vænti þess að hv. þm. sé sömu skoðunar, að ef samningar eru gerðir þá beri að standa við þá. Það kæmi mér a.m.k. á óvart ef hann er annarrar skoðunar.