Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 10:53:06 (5373)

2000-03-16 10:53:06# 125. lþ. 81.2 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[10:53]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það liggur a.m.k. fyrir að hæstv. utanrrh. hefur sagt að það sé ekki vilji hans að reyna að draga úr samkeppni. Þessi orð hljóta þingmenn í hv. utanrmn. auðvitað að hafa til hliðsjónar þegar þeir vega og meta þetta mál. Ég trúi því a.m.k. ekki að einn einasti þingmaður Sjálfstfl. muni styðja þetta í nefndinni.

Herra forseti. Fyrir mér er þetta alveg augljóst en ég kann auðvitað að hafa rangt fyrir mér. Hér er einfaldlega verið að ganga erinda Eimskipafélagsins til þess að viðhalda þeirri einokun sem fyrirtækið hefur, herra forseti. Ef ég mætti, með leyfi forseta, vísa í fréttabréf Eimskipafélagsins þar sem verið er að segja frá ávarpi stjórnarformannsins, hins ágæta vormanns Íslands, Benedikts Sveinssonar stjórnarformanns, en þar segir hann að Eimskipafélagið sé ákaflega óhresst með málalyktir í málaferlum við bandaríska herinn. Lýsingunni lýkur með svohljóðandi orðum:

,,Taldi Benedikt eðlilegt að íslensk stjórnvöld fylgdu þessu máli vel eftir.``

Til hamingju, Benedikt Sveinsson. Þér hefur orðið að ósk þinni.