Varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna

Fimmtudaginn 16. mars 2000, kl. 11:09:06 (5376)

2000-03-16 11:09:06# 125. lþ. 81.2 fundur 405. mál: #A varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna# frv. 82/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 125. lþ.

[11:09]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er í sjálfu sér hvorki með því eða á móti að regluverki sé komið á í þessum samskiptum. Ég var fyrst og fremst að draga athyglina að því hversu vandræðalegur gjörningur þetta væri og síðan ræddi ég málið út frá grundvallarviðhorfum mínum í þessu efni enda lít ég á erlenda hersetu sem grundvallarmál. Ég ætla mér ekki að fara að blanda mér í eða skipta mér mikið af tæknilegum atriðum í sambandi við það hvernig menn eru að veita þessum gróða inn í landið. Ég hlýt þó auðvitað að vekja athygli á því og draga athygli að því sem þarna er að gerast og er vandræðalegt fyrir stjórnvöld, og ég vísa til þess sem ég sagði áður um teboðið.

Varðandi viðræður við bandarísk stjórnvöld um framhald mála og umsvif hersetunnar hér, hernaðarumsvifanna hér á næstu árum, þá hefði ég svo sannarlega áhuga á að komast að því máli. Mér finnst það heldur snautlegt og ekki mjög lýðræðislega hugsað af hálfu hæstv. ráðherra að hafi menn tiltekna afstöðu í því máli þá megi þeir ekki vera með. Það er nú ekki mjög heilsteypt lýðræðisleg nálgun, er það? Nú hefur hluti þjóðarinnar þá skoðun að æskilegt væri að losna við erlendan eða a.m.k. að takmarka umsvif hans.

Ég mundi beita mér í slíkum umræðum og koma algjörlega hreint til dyranna í þeim efnum. Ég mundi að sjálfsögðu ekki draga dul á þá skoðun mína að æskilegast væri að herinn færi. Ég held að skoðun mín sé nokkuð þekkt og kynni að vera að viðmælendur, viðræðuaðilarnir, ættu einhver blöð einhvers staðar þannig að þeir gætu slegið því upp hjá sjálfum sér hvaða skoðanir sá sem hér stendur hefur í þeim efnum. En ég mundi hins vegar líta á það sem árangur ef í slíkum samningum næðist fram að takmarka og draga úr umsvifum hersins og ég mundi líta á það sem undirbúning að því að hann færi endanlega á brott.